Hverjir eru það sem eru að gera aðför að íslensku krónunni? Samkvæmt fréttum á mbl.is þá varð um 0,65% lækkun á gengi krónunnar í gær og gerðist það eftir mikinn þrýsting á á krónuna. Á venjulegu máli þýðir þetta að einhverjir aðilar hafi keypt bandaríkjadali eða aðra erlenda mynt í miklu magni. Þegar það gerist þá hækkar verðið á dollar vegna aukinnar eftirspurnar og verðið hækkar meira ef framboðið er lítið. Seðlabankinn reyndi að draga úr hækkuninni með því að auka framboðið en sú aðgerð dugði ekki nema að takmörkuðu leyti. Gengi krónunna féll því talsvert sem þýðir að innfluttar vörur sem keyptar eru fyrir dollara koma til með að hækka í verði sem aftur leiðir til verðbólgu og kaupmáttarrýrnunar fyrir þorra almennings. Ein afleiðinganna er að öll verðtryggð lán, s.s. lán byggingarsjóðs, koma til með að hækka verulega á næstunni. Þau ykkar sem eigið húsnæði og voru svo ánægð með að eignirnar ykkar hefðuð hækkað svo mikið í verði á undanförnum misserum getið farið að þurrka brosið af vörunum því fjármagnseigandinn fær sinn hluta hækkunarinnar með þessum hætti.

Það er því eðlileg spurning á þessu stigi að velta því fyrir sér hver það sé sem græðir á þessu öllu saman, þ.e. hverjir það eru sem hafa hag af því að krónan rýrni gagnvart bandaríkjadollar. Í fyrsta lagi eru það aðilar í sjávarútvegi, stóriðjan og aðrir þeir aðilar á markaði sem hafa kostnaðinn við rekstur fyrirtækjanna að mestu í íslenskum krónum en tekjurnar að mestu í dollar. Aðrir aðilar eru t.d. lífeyrissjóðir sem hafa í auknu mæli fjárfest í erlendum hlutabréfum og sjóðum. Þeir geta því um áramótin sýnt betri stöðu á þeim kaupum þrátt fyrir að gengi hlutabréfa og sjóða sem þeir hafi keypt í hafi hækkað lítið, staðið í stað eða jafnvel lækkað. Spákaupmenn geta líka tekið til sín töluvert fé ef þeir kaupa á lágu gengi og ná að selja á hærra gengi. Sem dæmi um þetta má nefna að ef aðili hefði keypt dollara fyrir 1.000.000,- í upphafi árs þegar algengt seðlagengi á dollar var 73,42 þá gæti sá hinn sami selt þá dollara í dag á genginu 88,52 sem er algengt kaupgengi banka á seðlum í dag. Þessi viðskipti gæfu af sé um 205.665,- krónur sem verður að teljast ágæt ávöxtun. “Spákaupmenn” geta t.d. verið bankar, sjóðir og fleiri aðilar á markaði. Bankar hafa hag af því að gengi krónunnar lækkar. Til að menn átti sig á því samhengi þá veldur lækkandi gengi krónunnar því að Seðlabanki hækkar s.k. stýrivexti sem leiðir til þess að bankarnir hækka sína vexti. Þetta leiðir til aukinnar verðbólgu og þau lán sem bankarnir hafa veitt verða verðmætari fyrir þá. Sumum kann að virðast þetta langsótt, en svona er þetta bara.

Það virðist oft vera svo að menn geri sér ekki grein fyrir samhengi hagkerfisins. Það er sérstaklega alvarlegt þegar ráðamenn þjóðarinnar gera sér ekki grein fyrir þessu. Svo virðist sem að menn átti sig ekki á því að þegar þeir fara að atast í einni breytu s.s. vöxtum þá hefur það áhrif á margar aðrar breytur. Með fullri virðingu fyrir Fjármálaráðherra þá skil ég ekki alveg þá röksemd að nú eigi að reka ríkissjóð með sem mestum tekjuafgangi til að greiða erlendar skuldir. Þessi hugsun skilar aukinni verðbólgu af þeirri einföldu ástæðu að hún veldur þrýstingi á krónuna (eftirspurn eftir dollar eykst) sem leiðir til þess að gengi hennar lækkar (verð á dollar hækkar). Með öðrum orðum þá leiðir þetta til verðbólgu og eignarýrnunar hjá almenningi. Í nánast sama orði er sagt að ekki megi auka þrýsting á vinnumarkaðinn með því að fara út í framkvæmdir því það gæti leitt til aukinnar verðbólgu. Þetta er léleg hagstjórn að mínu mati. Allir sem reka fyrirtæki vita að það er hagkvæmt að nota lánsfé í reksturinn. Það sem skiptir máli er hvernig því er varið og hver ávöxtun eigin fjárs er. Því er þessi stefna röng að mínu mati því það bíða “fjárfestingartækifæri” (opinberar framkvæmdir) sem geta skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi. Því segi ég að í stað þess að greiða niður erlendu skuldirnar hraðar en skilmálar lánanna segja til um, eigum við að fara út í þær framkvæmdir sem skila okkur miklum þjóðhagslegum ávinningi og auka hagsæld í framtíð.

Spurningunni um hverjir voru að kaupa dollar eða annan erlendan gjaldeyri í gær verður ekki svarað. Væntanlega bera menn fyrir sig bankaleynd til að komast hjá því að svara þeirri spurningu. Það væri hins vegar fróðlegt fyrir almenning að vita hverjir það eru sem standa fyrir þessari aðför að kjörum hans.