Eru BNA menn Endanlega Gengnir af Göflunum? Ég var að lesa frétt á <a href="http://www.visir.is“>visir.is</a> þar sem fyrirsögnin er ”Á móti hernaðaraðgerðum gegn Georgíu“ fréttin fjallar um það hvernig BNA menn viðurkenna sjálfstæði Georgíu manna og eru þar af leiðandi mótfallnir því að Rússar fari þar með herinn sinn í leit að hryðjuverkamönnum.

Þetta sýnir svo um munar tvískinnungshátt þeirra, BNA manna, að það hálfa væri nóg. Það er varla ár síðan að þeir gengu sjálfir inn í sjálfstætt ríki, réðust gegn stjórn þess fyrir að hýsa hryðjuverkamenn, steyptu henni af stólnum með því að styðja andspyrnuhreyfingu Norðurbandalagsins og hjálpuðu við að koma þeim til valda.

Það er ekki að það sé eitthvað að þessu sem BNA menn gera í Afganistan, ég er alveg fylgjandi því að þetta voru nauðsynlegar aðgerðir, en að malda svo í móinn þegar önnur ríki gera slíkt hið sama er ekki að mínu skapi. Pútín Rússlandsforseti vill meina að í Georgíu séu allmargir Tétésknir Hryðjuverkamenn í felum og svo virðist sem Georgísk yfirvöld séu ekki að standa sig í stykkinu við að koma þeim í hendur réttvísinnar, ellegar væru Rússarnir ekki að vesenast með þetta. Það má svo deila um hvort téðir hryðjuverkamenn séu hryðjuverkamenn eða andspyrnuhreyfing réttvísinnar sjálfrar, ég ætla ekki að dæma um það, en hver á að segja til um hvort hryðjuverkamenn séu hryðjuverkamenn í raun og veru. Svo virðist sem eftir 11. september 2001 hafi ríki heims fengið á silfurfati réttlætingu til að hundelta og koma fyrir kattarnef stórum hópum manna, nefnilega bara með því að kalla þá terrorista, svo eru þeir bara teknir af lífi án dóms og laga ala Israel.

Svei, ”Hve vesælt úrvinda þvælt og væmið virðist mér hátterni þessa heims."
(W. Shakespear, Hamlet)
POE