Ég er sannfærður um að innrás í Írak til að steypa Saddam Hussein af valdastóli reynist nauðsynleg og sé í raun góður kostur. En þó ert vert að velta fyrir sér hvernig slík innrás færi fram, þar sem íslenskir fjölmiðlar státa af litlum skilningi á nútímahernaði(*), og hvort einhverjar aðrar leiðir séu færar.

Eins og ég gaf til kynna í titli greinarinnar er þó ekki alveg sjálfgefið að slík innrás takist fullkomlega, en ég tel þó að þeir einu sem geta í raun séð til þess að hún mistakist séu skipuleggjendur bandaríkjahers í Pentagon. Ef til vill hljómar þetta fáránlega en því miður hafa þessir menn (og fyrirrennarar þeirra í gegnum tíðina) gert röð mistaka og þó að þeir ráði yfir öflugasta her veraldarsögunnar er ekki sjálfgefið að þeir beiti vopninu skynsamlega. Þvert á móti er vandamál yfirburða í íþróttum og hernaði oft að vanmat á andstæðingnum eykur líkur á óvæntum áföllum, vonum þó að svo verði ekki hér.

Í sumar hófst einn umfangsmesti ‘stríðsleikur’ sem haldinn hefur verið í Pentagon þar sem barist var við ímyndaðan óvin í mið-austurlöndum. Æfingin var skipulögð árið 2000 og hafði ekki Írak sérstaklega í huga, en atburðir síðustu mánaða settu að sjálfsögðu svip sinn á hana.

Í leiknum, sem átti að gerast 2007, tókust á Bláa liðið (US) og Rauða liðið (Brjálaður einræðisherra við persaflóa, leikinn af Liutenant General Van Rieper, fyrrverandi landgönguliða). Í stuttu máli hófst atburðarásin á því að van Rieper greiddi innrásarflotanum náðarhögg með óvæntum hætti þannig að ósigur blasti við Bláa liðinu. Hann hafði haldið úti flota af litlum bátum og skipum á persaflóa, sem var í raun ekki óeðlilegt þar sem engin þeirra voru hernaðarlegs eðlið, og þegar Bláa flotadeildin sigldi inn fyrir hormuz-sund kom van Rieper boðum til liðsmanna sinna frá bænaturnum (til að nota ekki fjarskipti sem hægt væri að hlera) og þeir réðust til atlögu. Aðferðirnar voru í raun útvíkkun á árás al-quaeda á USS Cole í yemen um árið og voru margir bátanna búnir stórum sprengihleðslum og auk þess skutu aðrir kínverskum Silkworm (surface-to-surface) eldflaugum að skipunum. Niðurstaðan var að flugmóðurskipinu var sökkt auk 16 annara skipa í flotadeildinni.

Í kjölfarið á þessu ‘óhappi’ ákváðu stjórnendur leiksins að þetta “hefði ekki verið hægt” og settu skipin aftur á flot. Einnig sveigðu þeir og beygðu reglur leiksins í framhaldinu þannig að klókindi van Riepers fengu ekki að njóta sín. Landgönguliðanum var þá nóg boðið og hann hætti þáttöku í hinum þriggja vikna langa leik, sem lauk síðan í ágúst með ‘sigri’ Bláa liðsins.

Þetta er ekki beint til þess fallið að auka bjartsýni manna á að innrás í írak muni takast án áfalla. Þó er ekki alveg víst að allt mistakist og því er rétt að fjalla stuttlega um þær áætlanir sem eru á borðinu.

Upprunalega hugmyndin var að nota svokallað OPLAN 1003 (operational plan) sem hefur verið til taks síðan flóabardaga lauk 1991 og var það sem Tommy Franks hershöfðingi (CENTCOM) lagði til að yrði notað. Þetta er stórinnrásaráætlun með þátttöku um 250.000 hermanna og tæki margar vikur að undirbúa. Í raun er þetta svipuð áætlun og beitt var 1990-1991 og því var fljótlega ljóst að þessi leið yrði líkast til ekki farin.

Einnig var rætt um að nota Afganistan-módelið og styðja andstæðinga stjórnarinnar með sérsveitum, birgðum og loftárásum. Vandinn er að í Írak er ekkert norðurbandalag (eða samskonar afl) og her Husseins er margfalt öflugri en toyota pallbílar talibananna.

Líklegasti, og besti, kosturinn er að gera óvænta árás með 30-50.000 manna herliði frá kuwait og sækja beint að baghdad. Þannig væri hausinn tekinn af drekanum ef svo má að orði komast og slíka innrás mætti gera með ákaflega litlum fyrirvara. Vopn og birgðir fyrir lið af þessari stærð er nú þegar í vöruskemmum í kuwait, quatar og á diego garcia í indlandshafi, og því þyrfti aðeins um 2 sólarhringa til þess að flytja mannskapinn á staðinn. Sóknin yrði frá kuwait, en einnig yrði stutt við bakið á kúrdum (með grænhúfum og air force combat controllers) til sóknar suður á bóginn. Auk þess kemur til greina að nýta sér andstæðinga saddams á meðal Túrkmena, sem eru um 2.5 milljónir í Írak, og ráða yfir ólíuríku svæði norðan við baghdad meðal annars við Mosul. Einnig væri skynsamlegt að nota 101. air assault hersveit bandaríkjahers til að hertaka flugvöll djúpt inni í Írak þaðan sem mætti fara í árasarferðir með mjög skömmum viðbragðstíma á þyrlum og þotum. Þetta var gert til að búa til stökkpall fyrir Apache þyrlur hersins í flóabardaga með mjög góðum árangri.

Ef af innrás verður er líklegast að hún hefjist strax í Nóvember (hef augastað á 6. nóv) eða Desember þar sem sá tími er mjög hentugur til hernaðar í Írak. Eftirfarandi atriði eru löggð til grundvallar þeirrar tímasetningar:

Þingkosningum í Bandaríkjunum lýkur 5. nóvember, og það er ólíklegt að nokkuð gerist fyrir þann tíma er kynna að hafa áhrif á úrslitin. Einnig lýkur kosningum í Tyrklandi 3. nóvember og þá verður ljóst hvort stjórnin þar er holl vesturlöndum eða arabaþjóðunum.

Svalt tímabil í Írakskri veðráttu hefst í nóvember og stendur fram til loka desembermánaðar. Hitinn fer þá úr um það bil 40+ gráðum í Júlí og Ágúst niður í 15-30 gráður eftir því sem líður á ‘veturinn’. Í janúar er síðan algent að það frysti í eyðimörkinni og allar aðgerðir verða erfiðari. Hitastig er mjög mikilvægt þar sem innrásarherinn getur búist við efna eða sýklavopnaárásum og þarf því að vera í þungum og heitum hlífðarbúningum.

Flugmóðurskipið Truman gæti komið á svæðið í Nóvember-Desember og yrði þá fimmta flugmóðurskip bandaríkjamanna á svæðinu. Vegná andstöðu arabaríkja við innrásina er nauðsynlegt að senda mikinn hluta flugvéla til árása á írak af flugmóðurskipum. Einnig yrði B-52 sprengjuvélum frá Diego Garcia og Brize Norton beitt, ásamt B-2 sprengjuvélum frá Whiteman AFB í missouri. Aðrar vélar gæti flogið til árása frá Incirklik í tyrklandi og hinum nýja Al-Udeld flugvelli bandaríkjahers í Quatar (sem tók við af Prince Sultan í Sádi-Arabíu) en þó eru flugmóðurskip ákaflega mikilvæg líkt og í herferðinni gegn afghanistan.

Nýtt tungl er 4. desember og það myndi auðvelda bandaríkjamönnum hernað í Baghdad, og öðrum borgum, þar sem nætursjóntæki þeirra virka mun betur í tunglsljósi. Þar sem að líklegt er að komi til bardaga í borgum er nauðsynlegt að nýta alla mögulega yfirburði og í því samhengi er birta mikilvæg, en auk þess er verið að framleiða mikið magn hitaþrýstivopna (Thermobaric) sem flugvélar munu varpa til stuðnings landherjum í borgum.

Regntíminn í Írak hefst í Desember og stendur fram í Apríl, hann gerir allar samgöngur erfiðar og í raun væri álitlegt að ljúka herferðinni áður en hann gengur í garð.

Það eina sem mælir gegn þessari tímasetningu er að Ramadan (heilagi mánuður Íslamstrúar) hefst 5. nóvember, en þó er of mikið sem mælir með innrás á þeim tíma til að trúardagatalið ráði úrslitum.

Grein þessi er orðin æði löng og ég læt hér staðar numið þó að hægt væri að skrifa endalaust um hvernig innrásin færi fram, hvaða sveitum yrði beitt og hvernig andstæðingarnir munu bregðast við en þó vona ég að þeir sem hafa þolinmæði til lestrarins séu einhverju nær um hvað er í vændum í vetur. Einnig er í framhaldi hægt að fjalla nánar um hitt og þetta tengt málinu.

Ég vil hvetja þá sem svara greininni til þess að takmarka sig við málefnaleg svör og fjalla ekki um hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér eða fara út í trúarlegar deilur. Slíkt á heima á öðrum þræði og væri einungis til þess fallið að fæla menn frá alvarlegum skrifum um alvarleg málefni.

Takk fyrir.


(*) eða ef til vill á þessi vanþekking við um allan hernað eins og manni virðist eftir fyrsta þátt um mikilvægar orrustur sögunnar á RÚV (fluttur á föstudagsmorgun og aftur á sunnudagskvöld). Í þættinum var því haldið fram að hetjudauði Leonidasar spörtukonungs og manna hans við ‘funahlið’ (Thermopylae) í bardaga við hermenn xerxesar persakeisara hefði gert sigur Aþeninga við Salamis mögulegan (og í því sambandi talað um að persar hefðu verið ‘gersigraðir’ [sic]. Slíkt er einfaldlega farsakennd ályktun.
______________________________