ESB hunzar vilja Íra
(www.framfarir.net)

Fyrir skemmstu höfnuðu Írar því í þjóðaratkvæðagreiðslu að Evrópusambandið yrði stækkað til austurs eins og til hefur staðið. Fyrir atkvæðagreiðsluna lýsti Romano Prodi, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, því yfir að sambandið myndi ekki skipta sér af atkvæðagreiðslunni og ennfremur virða niðurstöður hennar hverjar sem þær yrðu. Strax og úrslit atkvæðagreiðslunnar voru hins vegar ljós tilkynnti Evrópusambandið að leitað yrði allra leiða til að fara í kringum niðurstöðurnar og að lýðræðislegur vilji Íra yrði því ekki virtur.

Maður spyr sig því óneitanlega hvers vegna verið var að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Íra um stækkun Evrópusambandsins fyrst sambandið var þegar búið að ákveða hver úrslit málsins ættu að vera. Þetta minnir óhugnanlega á starfsaðferðir þær sem stundaðar voru í Sovétríkjunum sálugu og öðrum austantjaldsríkjum. Lýðræðislegar niðurstöður kosninga eru einungis virtar ef þær eru í samræmi við vilja valdhafanna.

Slík ólýðræðisleg vinnubrögð eru annars ekkert nýtt af hálfu Evrópusambandsins, en sömu meðöl voru m.a. brúkuð er Danir höfnuðu Maastricht-samkomulaginu á sínum tíma. Sama var einnig uppi á teningnum þegar austurrískir kjósendur kusu “vitlaust”, í síðustu þingkosningum þar í landi, að mati sambandsins. Fyrir að kjósa samkvæmt sannfæringu sinni, en ekki samkvæmt vilja Evrópusambandsins, fengu Austurríkismenn efnahags- og samskiptaþvinganir á sig. Sams konar hugmyndir voru síðan viðraðar þegar Evrópusambandinu mislíkaði lýðræðislegar niðurstöður þingkosninganna í Danmörku á síðasta ári.

Það verður því að segjast eins og er að lítið hefur áunnizt, eftir lok kalda stríðsins, ef við höfum fengið ólýðræðislega Vestur-Evrópublokk, í staðinn fyrir þá ólýðræðislegu Austur-Evrópublokk sem áður var við lýði, þar sem lýðræðið er ekki í hávegum haft og einungis í gildi þegar valdhöfunum hentar.

(Birt áður í Morgunblaðinu 11. ágúst 2002)

Hjörtur J.
Með kveðju,