Ung Bríet að nafni Helga Baldvinsdóttir var í Samfélag í nærmynd á Gufunni áðan að tala um feminisma og hvað skal gera. Hún setti mikið út á kvennablöð eins og Cosmopolitan og sagði það vera mjög sorglegt að í þessum blöðum væri bara að finna greinar um kynlíf, heilsu, megrun og tísku. Eins og konur í dag ættu bara að hafa áhuga á megrun og kynlífi og hvernig þær ættu að mála sig.


Svo var hún spurð hvað hún myndi hafa í kvennablaði og þá taldi hún upp ráð fyrir konur í pólitík, hvernig á að sækja um vinnu og svo náttúrulega fullt af greinum um kynlíf. Sjálfsfróun vikunnar. Því konur sem lifa lélegu kynlífi hljóta að hafa lélega sjálfsmynd. Meginþorri kvenna hefur víst aldrei fengið fullnægingu og bíður eftir að kærastinn læri að gefa hana. Þær myndu hafa ráð fyrir konur og kynlíf…..konur í kynlífi……..kynlífsráð fyrir konur.


Svo fór hún að segja að í karlablöðum væru til greinar um kvikmyndir og tónlist og þess háttar og fannst miður að það væri ekki að finna í kvennablöðunum.


Hvaða djöfulsins þröngsýna kjaftæði er þetta alltaf hreint??!? Ég veit ekki betur en að I-d, Q og Empire sem fjalla um kvikmyndir og tónlist höfði bæði til kvenna og karla. Ef fólk hefur áhuga á pólitík kaupir það pólitísk blöð, ef fólk hefur áhuga á heimsmálunum kaupir það Times, ef fólk hefur áhuga á heilsu þá kaupir það Fitness. Þessar stelpur þurfa að sjá að við erum öll fólk. Þær eru ekki konur í neyð, þær eru fólk. Þó að það séu til blöð eins og Cosmopolitan (sem oftar en ekki eru með snilldar sjálfsfróunargreinar) þá er það ekki þar með sagt að allar konur sem lesi það vilji fara í megrun eða séu algjörlega úti á þekju þegar kemur að heimsmálunum. Í Cosmo er líka að finna fullt af greinum fyrir framastúlkurnar og viðtöl við konur sem hafa komist langt í sínum geira. Maður getur alveg verið klár þó maður sé ekki með loðnar lappir og sportrönd en mér finnst Bríeturnar oftast tala eins og þær þurfi að sannfæra sig fyrst áður en þær geti sannfært heiminn.


Fyrir það fyrsta tala þær alltaf í hringi. “Það er eins og konur eigi bara að hafa áhuga á kynlífi sem er fáránlegt” en svo segir hún stuttu seinna; “það er alls ekki talað nógu mikið um kynlíf kvenna og sjálfsfróun. Það vantar meiri umræðu um þessi mál svo konur hafi ekki allar þessar ranghugmyndir um hvað er gott kynlíf”. Hvar stendur hún þá? Cosmó vont……..Vera gott??? Er eitthvað um kynlíf í Veru???


Æ, mér finnst alltaf jafn lýjandi að hlusta á ungar reiðar stelpur sem vilja breyta heiminum en koma aldrei með eitthvað nýtt. Sama hugmyndin endurunnin síðan 1976, rauðu sokkarnir slitnir og reiðin orðin úrkynjuð. Bríet er samt mjög sniðugt félag og ég á margar gamlar vinkonur stofnuðu það en hvað svo? Hvað er búið að gerast síðan 1998 þegar þær fóru af stað með þetta. Píkutorfan…….sögðu frá starfi félagsins…….enginn nýr vinkill kynntur þar. Ég bauð þeim opnugrein í síðasta blaði 24-7 sem fylgdi með Mogganum árið 2000. Opnugrein þar sem þær gætu tjáð sig fyrir þjóðinni, þær nýttu það ekki. Mjög sorglegt en lýsandi fyrir starfið. Allar af vilja gerðar en gera ekki neitt. Ég er farin að þrá að heyra eitthvað frá þeim sem ég hef ekki heyrt áður.


Fyrir mitt leyti myndi ég segja að ég væri Reykvíkingur, blaðakona, fyllibytta, tjúttari, söngkona, jafnréttissinni, Íslendingur, húmoristi, lestrahestur, kvikmyndafanatíkus, tónlistarfrík, bloggari og áhugamanneskja um fallegt fólk og skæra liti. Skiptir miklu máli að ég sé stelpa?