Þar sem engin söfnun er í gangi núna finnst mér óhætt að senda inn þessa örstuttu hugleiðingu mína.

Það hefur lengi loðað við okkur Íslendinga að telja að ekkert komi fyrir okkur og ef svo ólíklega vill til að komi fyrir, þá reddist allt einhverveginn af sjálfu sér. Einhver guðdómleg hönd svífi niður úr himnum til þess að bjarga okkur út úr því sem fyrir getur komið. Þetta er áreiðanlega stór þáttur í því að fólki finnst ekki taka því að tryggja sig.

Hversu oft sjáum við ekki greinar í blöðum daginn eftir stórbruna þar sem sagt er að innbú hafi verið ótryggt og fjölskyldan standi nú eftir allslaus. Í gang fer landssöfnun og fólk með stór hjörtu og náungakærleikann í brjósti keppist við að gefa í söfnunina, oft meira en það getur. Það vill nú reyndar svo til að það kostar lítið að tryggja sig. Góð fjölskyldutrygging kostar um 16 þúsund krónur á ári og einföld innbústrygging kostar ekki nema 2000 kall á ári. Og þá spyr maður: Er fólki einhver vorkunn? Hver hefur ekki efni á að tryggja sig ef það kostar aðeins um 1300 krónur á mánuði? Á fólk ekki sjálft að bera ábyrgðina? Ef þú vilt ekki tryggja þig á fólk sem hefur fyrir því að tryggja sig ekki að leika eitthvert samfélags tryggingafélag.

Það er nauðsynlegt að sýna samhug í verki. Það er mikilvægt að við gleymum ekki þeim sem minna mega sín. En málið er oft það að fólk er nískt, tímir ekki að tryggja heimili sitt og sínar dýrmætustu eigur og kaupir frekar nýjasta bílinn á bílaláni og DVD spilarann á yfirdráttarheimild eða raðgreiðslum. Sjálfur er ég hættur að gefa í svona safnanir. Fólk valdi að tryggja sig ekki -það valdi um leið að bera tjón sitt sjálft.