Sundlaugin í Breiðholti... hmmm Jæja… í morgun skellti ég mér í sund í tilefni dagsins með Jóa félaga mínum. Hann á heima í Breiðholti og því lá eiginlega beint við að fara í laugina þar.
Ég hef ekki komið í laugina í Breiðholti í 10 ár í það minnsta. Þvílíka kúltúrsjokkið sem ég fékk þarna inni. Þetta hlýtur að vera ömurlegasta sundlaugin í Reykjavík. Það hefur ekkert verið gert fyrir þessa laug í þessi 10 ár síðan ég var þarna. Ekki einusinni eðlilegt viðhald.
Þegar ég kom inn í karlaklefann þá var þetta eins og að fara í leikfimi í grunnskóla. Það eru nefnilega engir skápar. Þú verður að koma öllu þínu dóti fyrir í körfu eða á herðatré með svona poka hangandi í, sem e-h vörður tekur við hengir á rekka og lætur þig hafa númer.
Jæja… við skelltum okkur í sturtu. Við vorum eitthvað að grínast með það að við værum komnir nokkur ár aftur í tímann með því að fara í þessa laug. Við erum vanir að fara í Árbæjar- eða Grafarvogslaug. Þá varð okkur litið á loftið… OJJJ… þvílíka gróðrarstían. Það var grænn gróður lafandi niður úr “loftræstikerfinu”. Greinilegt að raki á ekki samleið með þeim loftaþyljum sem þarna eru. Þær voru margar farnar að mygla og litu út fyrir að geta hrunið niður hvað úr hverju.
Þessu næst skelltum við okkur í laugina og syntum nokkrar ferðir, sem reyndar var erfitt að gera vegna leikfimi eldri borgara. Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti eldri borgurum. En þarf þetta fólk alla laugina til að gera sínar morgunæfingar. Það var þarna einhver karl á bakkanum að sýna hvernig á að framkvæma þessar æfingar, ég sá Ágústu Johnson alveg fyrir mér stjórna þessum hóp eftir nokkur ár, hópurinn sem saman stóð af um 40 eldri borgurum var búinn að hertaka laugina og maður var bara frekur að vilja synda meðan morgunæfingar áttu sér stað.

Það er á hreinu að ég er ekki á leiðinni í sund í Breiðholtið á næstunni, það þarf greinilega að taka þar til hendinni. Það sorglega er að það kostar alveg jafn mikið í aðrar laugar í borginni og þessa í Breiðholtinu. Þú ert bara ekki að fá það sama fyrir peninginn.

Lifið heil,

Xavie