Ég hef mikinn áhuga á mannréttindum og félagslegum málum sem tengjast þeim. Ég kaupi t.d. mjög lítið af Nike, Gap og fleiri “big brand” vörum vegna þess að þessi fyrirtæki nota svokölluð “sweatshops” í þróunarlöndunum þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Þar fá þau ódýrt vinnuafl og geta fjöldaframleitt “góða” vöru fyrir lítinn pening og stórgræða á þeim. Gróðinn fer síðan í að borga peningafólkinu á Wall Street og stóru stjörnunum sem auglýsa vörurnar á vestrænum markaði en skilar sér ekki til framleiðslulandsins, hvað þá verkafólksins sem framleiðir vörurnar. Til eru margar hryllingssögur um aðbúnað verkafólks í Mexíkó, Indlandi, Indónesíu, Kína, Thailandi og fleiri löndum sem framleiða fyrir stóru fyrirtækin.

Úti í hinum stóra heimi eru til fjölmargir hópar sem vinna á móti þessari þróun í alþjóðaviðskiptum (þetta er eitt af baráttumálum þeirra sem eru á móti alþjóðavæðingunni eins og hún er í dag) og má þar nefna CorpWatch (www.corpwatch.org), Trade Observatory (http://www.tradeobservatory.org/), Corporate Watch (http://www.corporatewatch.org.uk/) og fleiri. Eitt sem mér finnst skrýtið og það er að lítið fer fyrir þessu hérna á Íslandi, við erum með Nike búð á laugaveginum og aldrei nokkurntíman svo ég viti til hefur hópur fólks komið saman þar og mótmælt því að þessi vara skuli vera frá “sweatshops” í austur asíu.

Hvernig er það, erum við alveg siðblind eða er þetta bara eins og allt annað í íslensku þjóðfélagi, við erum of sofandi til að gera eitthvað í þessu?

Eru einhverjir hópar hérna á Íslandi sem eru að spekúlera í þessu? Er til einhver íslensk heimasíða sem fjallar um þessi mál? Af hverju sér maður hvergi nafn Íslands þegar maður skoðar hvaða þjóðir taka þátt í alheimssamtökum sem berjast á móti þessu?

Mér finnst að þeir sem áhuga hafa á þessu ættu að taka sig saman og gerast örlítið aktívari í þessum málaflokki því hann er jú mikilvægur.

Flott væri t.d. að fá hérna í svör fleiri tengla um þessi málefni.

Kveðja

Óli