Illugi Jökulsson - Koma Falun Gong Tekið af <a href="http://www.jpv.is“>www.jpv.is</a>.

——————————–

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við komu fólks úr Falun Gong
samtökunum til Íslands eru ekki fyndin. Það má auðvitað
segja að það sé dálítið fyndið að Davíð Oddsson, sem
byrjaði feril sinn í pólitík sem leiðtogi í hópi ungra manna er
hófu á Íslandi hugmyndafræðilega sókn hægrimanna gegn
kommúnistum - að sá sami Davíð skuli á gamals aldri (og
þá meina ég vitaskuld í pólitískum skilningi) vera orðinn
forsætisráðherra í ríkisstjórn sem leggur sig svo í líma eins
og raun ber vitni við að bæla niður opinber og í alla staði
friðsamleg mótmæli gegn kommúnistastjórninni í Kína. Það
má vissulega segja að sé pínulítið fyndið.
<p>
En viðbrögð íslenskra stjórnvalda við komu fólks úr Falun
Gong samtökunum hingað til lands eru samt ekki fyndin.
<p>
Málið er heldur ekki fyrst og fremst vandræðalegt. Það má
auðvitað segja að það sé ansi vandræðalegt fyrir forseta
Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem í orði kveðnu er sá
gestgjafi sem býður keisaranum í Kína hingað til lands - að
Ólafur Ragnar, sem nokkuð spreytti sig á alþjóðavettvangi á
sínum yngri árum og þá ekki síst sem ótrauður talsmaður
þess að smáríki af ýmsum stærðum þyrftu ekki ævinlega að
sitja og standa eins og stórveldum þóknaðist - að Ólafur
Ragnar skuli nú þurfa að taka með kurt og pí á móti þessum
hofmóðuga keisara sem setur skilyrði um hverjir megi
koma til Íslands meðan honum þóknast að drepa niður fæti,
og gerir þá kröfu að aldrei þurfi mótmælendur að bera fyrir
hans keisaralegu augu í Íslandsheimsókninni; þetta er
vissulega svolítið vandræðalegt.
<p>
Um hlutskipti bæði Davíðs og Ólafs Ragnars þegar
Kínakeisari kemur í heimsókn mætti kannski hafa þau orð
að þennan dag hafi Heródes og Pílatus orðið vinir - en ég
ætla samt ekki lengra með þá líkingu - því viðbrögð
íslenskra stjórnvalda við komu fólks úr Falun Gong
samtökunum til landsins eru svo langt frá því að vera bara
vandræðaleg - eða fyndin.
<p>
Þau viðbrögð eru heldur ekki til marks um því miður dálítið
óþægilegar varúðarráðstafanir eða þaðan af síður
sjálfsagðar öryggiskröfur.
<p>
Ég held það hljóti að vera óhætt að tala mannamál og
fullyrða í eitt skipti fyrir öll að allar skýringar íslenskra
stjórnvalda á því að loka skuli eiga landamærunum fyrir
mótmælendum úr hópi Falun Gong eru tómur fyrirsláttur;
bull og þvæla, svo ég tali hreint út.
<p>
Sumt hljómar bara hallærislega - að Íslendingar eigi ekki
nógu marga lögregluþjóna til að hafa hemil á fjölda
mótmælenda frá samtökum sem eru víðfræg um heiminn
fyrir það hversu friðsamleg mótmæli þeirra ætíð eru.
<p>
Annað hljómar bara eins og verið sé að éta upp lygina úr
Kínverjum sjálfum - að Falun Gong séu þrátt fyrir
friðsemdina verulega ”ögrandi" samtök og hlýði ekki alltaf
ströngustu fyrirmælum lögreglunnar um hvar megi
mótmæla - sem sagt fjarri öllum þeim stöðum þar sem
lífsþreytt augu keisarans í Kína gætu átt það til að reika.
<p>
Og það síðasta - að lokun landamæranna sé til að vernda
Falun Gong fólkið sjálft því annars gætu kínverskir lífverðir
Jiang Zemins átt til að skjóta það - það hljómar nú bara eins
og argasta hótfyndni; eða eru íslensk stjórnvöld virkilega að
bjóða til landsins mönnum sem þau trúa til þess að skjóta
mótmælendur á færi á götum Reykjavíkur; væri þá ekki ráð
að loka landamærunum fyrir einhverjum öðrum en Falun
Gong, sem ekki munu beita harkalegri ráðum í sinni baráttu
en að anda djúpt?
<p>
Nei - viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru hvorki til marks um
öryggisráðstafanir né varúð - ekki fremur en þau séu bara
fyndin eða vandræðaleg.
<p>
Þau eru einfaldlega hneisa - þau eru þjóðarskömm -
sennilega mesta skömm sem Íslendingar hafa drýgt í
samskiptum sínum við umheiminn alla sína lýðveldistíð.
Það er þvílík smán að íslensk stjórnvöld skuli bukka sig svo
og beygja fyrir keisaranum í Kína, versta harðstjóra sem nú
er uppi, að þau taki kurteislega við lista úr kínverska
sendiráðinu yfir fólk sem ekki má koma til landsins meðan
keisarinn staldrar við - svo honum leiðist ekki að þurfa að
rekast á mótmæli gegn ógnarstjórn sinni þegar hann ætlar
bara að skoða hitaveituna, Þingvelli og handritin - það er
þvílík smán að hið íslenska lýðræðisríki sé tilbúið með
fangabúðir í Njarðvíkurskóla til að geyma þá sem
hugsanlega vildu koma til landsins til að anda, í bókstaflegri
merkingu, á keisarann í Kína - það er þvílík smán að ég hef
að minnsta kosti aldrei skammast mín jafn mikið fyrir að
vera Íslendingur.
<p>
Ég trúi þessu eiginlega ekki ennþá. Hvað í ósköpunum fær
íslensk stjórnvöld til að haga sér svona? Eintómur
undirlægjuháttur gagnvart stórveldinu? Viðskiptahagsmunir
- og þá seljum við óhikað orðspor okkar í
mannréttindamálum? Og seljum í leiðinni dýrasta rétt Falun
Gong manna til að tjá skoðanir sínar?
<p>
Eða kannski bara ríkur skilningur íslenskra stjórnvalda á því
hvað mótmæli og andóf hvers konar eru leiðinleg og
þreytandi fyrirbæri - óttalegt vesin - og þau skilja svo vel að
Kínverjar nenni ekki að hafa þetta fyrir augunum?
<p>
Gleymum því ekki að þótt kommúnistar virðist hafa stjórnað
Kína í óskaplega langan tíma, þá hefur sami maðurinn farið
með stjórn á Íslandi í hvorki meira né minna en einn fimmta
hluta þess tíma - þótt ekki ætli ég að öðru leyti að bera
saman stjórnvöld á Íslandi og í Kína. En kannski það eigi
einhvern þátt í hve góðum og í reynd ótrúlegum skilningi
keisarinn í Kína virðist mæta hér á landi. Svo mjög að þau
fremja þessa skömm næstum eins og umhugsunarlaust.
<p>
En stjórnvöld hér eiga ekki að fá að bíta úr nálinni með
þetta. Ég vil að minnsta kosti fá skýringar og það nákvæmar
skýringar á því hvernig þetta gat átt sér. Hvernig í veröldinni
gat það átt sér stað að íslensk stjórnvöld tóku kurteislega
við kröfum Kínverja um að loka landamærunum fyrir Falun
Gong og fóru strax að huga að því hvar mætti koma upp
fangabúðum, kannski í Njarðvík, þangað fer keisarinn
líklega ekki; hvernig gat þetta allt átt sér stað?
<p>
Ég vil fá að vita hvernig Kínverjar settu fram kröfur sínar. Við
hvern töluðu þeir fyrst - embættismenn í utanríkisráðuneyti
eða dómsmálaráðuneyti - kannski sjálfa ráðherrana - ég vil
fá að vita og það nákvæmlega á hvers borð þetta kom og
hver tók að lyktum þá ákvörðun að fara að öllum kröfum
Kínverja - þótt það kostaði okkur þá skömm sem hér hefur
orðið.
<p>
Fóru fram umræður um þetta mál í stjórnkerfinu, meðal
embættismanna og/eða í ríkisstjórninni, á maður að trúa því
að Sólveig og pappalöggurnar hennar hafi bara ákveðið
þetta upp á sitt eindæmi – eða var þessu strax vísað til
Davíðs, og var þetta rætt við forsetann sem á að heita
gestgjafi - hverjir voru fylgjandi þessum fjanda - mótmælti
virkilega enginn? Hver ber í rauninni ábyrgðina á því að svo
ljótur blettur hefur fallið á hið íslenska lýðræðisríki sem
þykist hafa í hávegum mannréttindi?
<p>
Þetta vil ég fá að vita - og verð líklega að treysta á að
fjölmiðlar upplýsi mig um það - og vona svo sannarlega að
þeir standi sig - þótt í öðrum ríkjum, segjum bara
Bandaríkjunum og víðar þar sem þjóðþingin standa undir
nafni, þar þætti vissulega ástæða til að skipa opinberar
rannsóknanefndir á vegum þingsins af minna tilefni en því
að komast að því hvernig það gat gerst að
framkvæmdavaldið í landinu hlýðir umhugsunar- og
fyrirvaralaust fyrirskipunum fjöldamorðingja úr öðrum
löndum.
<p>
Því keisarinn í Kína er svo langt því frá hver annar gestur -
hann kann sjálfsagt allar kurteisreglur og prótókol upp á
sína tíu fingur, en heima í Kína lætur hann myrða fólk í
þúsundavís fyrir það eitt að anda, pynta það og fangelsa í
sannkölluðum andskotans holum - þetta er sá gestur sem
við ætlum að taka á móti og setja upp okkar fyrstu
fangabúðir af því tilefni - þetta er sá gestur sem gefur okkur
fyrirmæli um hvernig megi haga mótmælum, og við hlýðum -
þetta er sá gestur sem heldur uppi njósnum hér innanlands
um ferðir Falun Gong manna, eins og kom fram í fréttum
Stöðvar tvö í gærkvöldi - við látum þetta allt líðast - hver veit,
kannski bara út af viðskiptahagsmunum.
<p>
Mikið óskaplega hljótum við þá að ætla að græða - fyrst öllu
þessu er kostað til.

Illugi Jökulsson