Ofbeldi íslenska ríkisvaldsins Almennt séð er ég ekki hlyntur múgæsingi eins og er í gangi varðandi komu Falun Gong liða. Nú er ég hins vegar hlyntur amk. þessari umræðu sem í gangi er.

Engin rök
Dómsmálaráðherra var hlægilegur í viðtali við hann í kvöldfréttum í gær. Í Fréttablaðinu í dag gerir utanríkisráðherra sig einnig að fífli. Að sama skapi geta embættismenn dómsmálaráðuneytisins ekki réttlætt frelsissviptingu útlendingana, enda eiga þeir sjálfsagt fullt í fangi með að ákveða hvernig þeir skuli ráðstafa nýtilkominni kauphækkun sinni. Þessir aðilar geta ekki réttlætt ákvörðun sína. Því er haldið fram að lögreglan ráði ekki við nokkur hundruð friðsama gesti landsins sem hyggjast standa á einhverjum opnum stað í frjálsu landi. Hvernig ræður lögreglan við þá hundruð þúsunda ferðamanna sem koma til landsins árlega - sem einnig eiga það til að standa á opnum stað í frjálsu landi? Hér eru teknar upp venjur gestgjafanna sem varða frelsissviptingu saklausra einstaklinga, eða m.ö.o. að beita ofbeldi. Það væri vissulega hjákátlegt að heyra forsetisráðherra, utanríkisráðherra og forsetann ræða mannréttindabrot við fjöldamorðingjann frá Kína. Hann getur auðveldlega hlegið að íslensku ráðamönnunum og bent á að þeir séu lítið skárri!

Forsetinn
Mér finnst ótrúlegt hvað forseti Íslands kemst auðveldlega frá þessu. Hann lætur ekki ná í sig og gagnrýnin á hann virðist vera lítil sem engin. Hinsvegar er hann litla þúfan sem er að velta þessu þunga hlassi. Hann býður fjöldamorðingjanum frá Kína hingað. Þessi mikli talsmaður þess hve lýðræði sé mikilvægt, virðir það síðan ekki þegar á hólminn er komið. Sem sagt, ekkert nema orðin tóm. Hann ætti að finna sér eitthvað annað að gera. Hann var pólitíkus og laug því reglulega að fólki, en það er ómaklegt af honum að ganga á bak orða sinna gagnvart þjóðinni sem kaus hann (þó minnihlutinn hafi að vísu kosið hann). Ef svo ólíklega vill til að hann láti hafa eitthvað eftir sér í þessu máli, verður það eitthvað á þá leið að honum þyki leiðinlegt hvernig málin hafi þróast. Hann mun reyna að “humma” þetta af sér. Þessi heimsókn kínverska fjöldamorðingjans ein og sér gæti réttlætt það að leggja beri forsetaembættið niður.

Líklega mestu mistök ríkisstjórnarinnar
Þó mistök ríkisstjórnarinnar séu ótal mörg - að mínu mati - eru þetta líklega þau mestu. Að taka ákvörðun getur verið erfitt. Þó það komi í ljós að röng ákvörðun hafi verið tekin, getur borgað sig að standa fast á þeirri ákvörðun. Það er hins vegar makalaust að taka ákvörðun sem þessa, sem augljóslega stenst ekki rök eins og komið hefur fram í viðtölum fjölmiðla við ráðherra og aðra embættismenn. Hversu grandlausir geta ráðherrarnir verið að láta sér ekki detta í hug að allt verði vitlaust vegna þessarar ákvörðunar? Í stað þess að þetta fólk hefði fengið að koma til landsins og mótmælt í rólegheitum, hefur líklega fjöldi Íslendinga ákveðið að mótmæla - hversu friðsamlega sem það verður nú. Hefði fólkið fengið að koma til landsins hefði kínverski fjöldamorðinginn í besta falli hætt við að koma.

Tilgangnum náð?
Falun Gong fólkið huggðist koma hingað til að mótmæla. Mótmæla til að vekja athygli á sínum málstað og skoðunum. Það er ljóst að þeim tilgangi hefur þegar verið náð. Erlendir fjölmiðlar fjalla m.a. um málið og þar er íslenska ríkisvaldið sett undir sama hatt og hið kínverska. Þá er ósk hins kommúníska forseta vor kannski loks uppfyllt?

Nú er komið fordæmi fyrir því hér á landi hægt sé að virða að vettugi mannréttindi saklausra ferðamanna með því að svipta þá frelsinu. Þessi þróun er óviðunandi og gefur jafnvel enn meira tilefni til að mótmæla aðgerðum íslenskra stjórnvalda en komu kínversks fjöldamorðingja.