Ómakleg árás [Bryndísar Hlöðversdóttur]

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu þann 7. júní sl. Hún er eftir Illuga Gunnarsson hagfræðing og er vægast sagt mjög góð að mínu mati. Hún er svar við ómálefnalegum viðbrögðum Bryndísar Hlöðversdóttur við skýrzlu hagfræðistofnun Háskóla Ísland um kostnað Íslands vegna hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu og sem birt var á dögunum eins og kunnugt er.

—————-

Innlent | 07. 06. 2002 | ESB

Ómakleg árás

ÞAÐ er þekkt í knattspyrnunni að þegar varnarmanni tekst ekki að ná til boltans er stundum gripið til þess örþrifaráðs að sparka niður sóknarmanninn, þykir það fremur óíþróttamannslegt. Árrisulir knattspyrnuáhugamenn hafa þessa dagana tækifæri til að fylgjast með slíkum æfingum á knattspyrnuvöllum austur í Asíu. En það er ekki bara í knattspyrnunni sem hjólað er í manninn úr því ekki næst til boltans. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur urðu vitni að því þegar Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, varð ber að slíku athæfi í kjölfar birtingar á greinargerð Hagfræðistofnunar Háskólans um kostnað af mögulegri ESB-aðild Íslands.

Aðdróttanir þingflokksformanns
Í fréttum Stöðvar 2 á þriðjudaginn var lét Bryndís Hlöðversdóttir hafa eftirfarandi eftir sér: “Það sem vekur mér eða öllu veldur mér hins vegar miklum áhyggjum það er að stofnanir Háskóla Íslands skuli taka að sér að vinna verk sem eru svona rammpólitísk eins og þetta verk er og skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar um sama efni fyrir skömmu síðan og að forsætisráðherra skuli í raun og veru hafa þennan aðgang að stofnunum Háskóla Íslands að þetta sé unnt, það veldur mér miklum áhyggjum.” Og í fréttum Ríkissjónvarpsins sama dag er þingmaðurinn enn við sama heygarðshornið: “Já ég gef í raun og veru lítið fyrir þessa skýrslu sem gagn í umræðuna um kostnað af Evrópusambandinu eða við Evrópusambandsaðild vegna þess að hún byggir á mjög hæpnum forsendum og beinlínis röngum á köflum. Hún tekur aðeins hluta af myndinni og ég er satt best að segja mjög hissa á því að stofnun Háskóla Íslands skuli taka að sér að birta niðurstöðu sem er byggð á svona hæpnum og ófaglegum grunni eins og þessi.” Bryndís er formaður þingflokks Samfylkingarinnar og í krafti þess hafa orð hennar aukið vægi. Með ummælum sínum vegur þingmaðurinn harkalega að vísindaheiðri tveggja stofnana Háskóla Íslands og gerir því skóna að þar ráði einhver annarleg sjónarmið för. Þetta eru mjög alvarlegar aðdróttanir hjá þingmanninum og með öllu óskiljanlegt að hún skuli fara fram með þeim hætti sem raun bar vitni. Það verður reyndar að hrósa fréttamanni sjónvarpsins fyrir að hrekkja ekki þingmanninn með því að spyrjast fyrir um hverjar hinar hæpnu forsendur séu og hvað sé rangt í skýrslu Hagfræðistofnunar, slíkt hefði verið flokkað undir óþarfa hnýsni af hálfu fréttamannsins. En óneitanlega hefði það verið kurteisi af hálfu þingflokksformannsins, úr því að hún kaus að vega að starfsheiðri starfsmanna Hagfræðistofnunar í fjölmiðlum, að hún gerði grein fyrir hver væru efnisleg rök fyrir fullyrðingum sínum.

Vísvitandi rangfærslur
Hagfræðistofnun var beðin að reikna út nettóframlag Íslands til Evrópusambandsins, þ.e. hversu háan tékka þurfum við að senda til Brussel árlega. Það vekur því furðu að formaður þingflokks Samfylkingarinnar skuli finna sérstaklega að því að Hagfræðistofnun skuli ekki hafa rannsakað ýmislegt annað í leiðinni, s.s. áhrif af upptöku evru. Í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag segir Bryndís: “Ekki sé tekið með í reikninginn hvaða áhrif upptaka evrunnar myndi hafa eða upptaka sameiginlegrar myntar á vaxtastigið og minnkandi umsýslukostnað, sem Þjóðhagsstofnun og hnattvæðingarnefnd hafi talið að myndi skila þjóðarbúinu 10 til 15 milljörðum.” Nú liggur það fyrir og hefur meðal annars verið staðfest af höfundum s.k. hnattvæðingarskýrslu að þjóðin mun ekki spara 15 milljarða ef krónunni yrði kastað og evra tekin upp. Í fyrsta lagi er ekki ljóst hvort um einhverja vaxtalækkun verður að ræða þar sem líklegt er að aðild að evru muni m.a. leiða til hærri vaxta af húsnæðislánum. Ef til einhverra vaxtalækkana kæmi er einungis um að ræða tilfærslu á fjármunum innanlands, sumir Íslendingar fá lægri vaxtagreiðslur og aðrir Íslendingar greiða lægri vexti. Það að fullyrða að upptaka evru skili 10 til 15 milljörðum til þjóðarbúsins er annaðhvort vísvitandi blekking eða þekkingarleysi. Bryndís Hlöðversdóttir sakar Hagfræðistofnun um ófagleg vinnubrögð og að fara ekki með rétt mál. Ekki er úr vegi að þingmaðurinn geri sömu kröfur til eigin málflutnings og hún gerir til annarra.

Illugi Gunnarsson
Höfundur er hagfræðingur.

———-

Heimild: “Ómakleg árás” - Morgunblaðið 7. júní 2002.

Hjörtur J.
Með kveðju,