Skotvopn í nútímasamfélagi.

Í gegnum tíðina hafa hræðileg fjöldamorð verið framin um allan heim með skotvopnum.
Við höfum heyrt um staði á borð við Columbine, Úteyju, Virginia Tech, Jokela, Dunblane og Cumbria því að þeir hafa orðið fyrir barðinu á geðveikum mönnum sem ákváðu að drepa eins marga og þeir gátu með skotvopnunum sínum.
Einnig heyrum við fréttaflutning af auknum fjölda skotvopna í umferð meðal glæpamanna og óttumst mögulega skotbardaga milli gllæpahópa.

Þegar fólk heyrir af slíkum atburðum hneykslast það oft og kennir of slökum vopnalögum um, það telur of auðvelt aðgengi að skotvopnum (sérstaklega skammbyssum og hálfsjálfvirkum rifflum) vera ástæðuna. Íslensk stjórnvöld ætla til dæmis að herða núverandi vopnalög til að reyna að koma í veg fyrir atburði á borð við þá sem áttu sér stað á Útey og til að koma í veg fyrir að glæpamenn vopnist.

Sumir halda því hinsvegar fram að vopnalögin séu of slök, og að ef fólk fengi að bera á sér vopn gæti það varið sig gegn glæpamönnum og stöðvað morðóða byssumenn áður en þeir ná að drepa marga.

Hvaða vopn eru oftast notuð til að fremja glæpi?

Bandaríkin eru mest vopnaða samfélag í heiminum með um 250 milljón skotvopn. Af þessum vopnum eru um 40% skammbyssur en restin er mestmegnis haglabyssur og rifflar.
Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríska dómsmálaráðuneytinu voru um 17000 morð framin í Bandaríkjunum árið 2005
Þar af voru um 50% framin með skammbyssum en aðeins 17% með rifflum og haglabyssum.

Ástæðan fyrir því að skammbyssur eru oftar notaðar en önnur vopn er sú að í Bandaríkjunum eru uppgjör milli glæpahópa algengasta orsök morða.
Meðlimir þessara glæpahópa eru alltaf á varðbergi gegn mögulegu uppgjöri við annan glæpahóp og eru því oftast vopnaðir.

Að ganga um með haglabyssu, riffil eða vélbyssu á sér án þess að nokkur taki eftir því er nánast ómögulegt.
Því velja glæpamenn helst litlar og léttar skammbyssur sem auðvelt er að fela innanklæða.

Ólíkt því sem við sjáum í bíómyndum eru skammbyssur á borð við Glock 17 og Beretta 92 sjaldan notaðar af glæpamönnum því þær eru stórar, þungar og erfitt er að fela þær innanklæða. (Prófaðu að stinga DVD hulstri í rassvasann)
Slíkar skammbyssur eru hannaðar fyrir lögreglumenn og hermenn sem ganga um með þær í hulstri utanklæða.

Nei, yfirleitt eru skammbyssurnar litlar .380 og .25 kalibera skammbyssur eins og skammbyssan sem sést á meðfylgjandi mynd.

Þessi litla skammbyssa er eitt hættulegasta vopnið í heiminum í dag.

Auka byssur morðtíðni?

Rannsóknir benda til þess að það eru fyrst og fremst félagslegar aðstæður sem valda glæpum og morðum. Skotvopn ein og sér auka ekki morðtíðni meðal löghlýðinna borgara sem búa við mannsæmandi aðstæður.

Félagslegar aðstæður í Bandaríkjunum eru almennt verri en í Evrópu og því eru morð oftar framin þar, mikil skotvopnaeign Bandaríkjamanna hefur mjög lítil áhrif á morðtíðnina.
Í Rússlandi eru félagslegar aðstæður hinsvegar mun verri en í Bandaríkjunum og Evrópu og morðtíðnin þar er því mun hærri, þrátt fyrir litla skotvopnaeign meðal Rússa.
Könnun meðal Bandarískra fanga árið 1997 leiddi í ljós að aðeins 12% þeirra sem áttu skotvopn keyptu hana með löglegum hætti í byssubúð. 80% fengu kunningja sem voru með hreina sakaskrá sína til að kaupa hana fyrir sig eða keyptu hana af svörtum markaði.
Hinsvegar geta skotvopn í höndum glæpamanna aukið morðtíðni, og Lögreglan Í Kansas city náði að draga verulega úr morðtíðninni þar árið 1993 með því að einbeita sér að því að gera ólögleg skotvopn upptæk af glæpamönnum.

Eru vélbyssur og hálfsjálfvirkir rifflar hættulegri en önnur vopn?

Árið 1997 átti sér stað bankarán í Hollywood þar sem bankaræningjarnir tveir voru vopnaðir vélbyssum.
Þegar þeir gengu út úr bankanum tók við 20 mínútna skotbardagi við lögreglu og skutu bankaræningjarnir yfir 1200 skotum á lögreglumennina, sem skýldu sér bakvið bílana sína.

Bankaræningjarnir náðu ekki að drepa neinn.

Vélbyssur hafa mikið bakslag sem gerir það erfitt að hitta og þær eyða skotunum sínum mjög hratt. (30 skota skotgeymir tæmist á 2-3 sekúndum)
Bandaríski herinn uppgötvaði þetta eftir Víetnam stríðið og síðan M16 riffillinn var uppfærður á 9. áratugnum hefur hann ekki verið alsjálfvirkur.

Erfiðara er að finna út hversu oft hálfsjálfvirkir rifflar eru notaðir þar sem að litlar upplýsingar eru til um fjölda þeirra í Bandaríkjunum, en miðað við það að rifflar almennt eru lítið notaðir í glæpum bendir til þess að þeir eru ekki sérlega hættulegir almenningi.

Hefur skotvopnaeign og tegundir skotvopna áhrif á tíðni og alvarleika fjöldamorða?

Fjöldamorð eru sjaldnast þannig að árásarmaðurinn drepi tugi manns á nokkrum sekúndum, yfirleitt rekst morðinginn á fórnarlömb sín eitt í einu á stuttu færi og skýtur þau.
Því skiptir tegund skotvopnsins litlu máli, það eitt að árásarmaðurinn hefur skotvopn er hættulegt.

Það sem skiptir helst máli er hversu hittinn árásarmaðurinn er, hversu mörg skot hann hefur, hversu mikinn tíma hann hefur og í hvaða umhverfi hann er.

Sem dæmi var Anders Breivik staðsettur á lítilli eyju ásamt hundruðum ungmenna sem gátu hvergi flúið í eina og hálfa klukkustund.
Hann skaut að meðaltali tvær manneskjur á mínútu, sem þýðir að hann hefði getað notað venjulegt veiðivopn til að ná sama ,,árangri".
Hefði hann verið staddur í eyðimörk og án skota hefði hann ekki drepið neinn.

Fjöldi skotvopna í umferð virðist ekki heldur hafa áhrif á tíðni fjöldamorða. Þrátt fyrir að Svisslendingar eigi milljónir skotvopna hefur aðeins eitt fjöldamorð verið framið þar. Það var árið 2001 þegar Maður skaut 14 til bana með herriffli.
Á hinn bóginn hafa Bretar aldrei átt mikið af skotvopnum en þrátt fyrir það eiga fjöldamorð sér stað þar með reglulegu millibili, síðast árið 2010 þegar 12 voru myrtir með veiðihaglabyssu.

Á öllum stöðum þar sem hægt er að nálgast skotvopn eru slíkir harmleikir því miður mögulegir, líka hér á Íslandi. 
Sem betur fer eru slíkir atburðir almennt mjög sjaldgæfir.

Hvað eiga stjórnvöld að gera til að sporna gegn skotárásum?

Áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir skotárásir og morð með skotvopnum er að auka lífskjör í samfélaginu og draga úr fátækt. Að banna skotvopn með öllu og að reyna að gera skotvopn upptæk af glæpamönnum myndi að auki nánast útrýma skotárásum.

Mörgum finnst þó slík aðferð heldur ósanngjörn gegn löghlýðnum borgurum. Ef svo er er hægt að tryggja að skotvopn komist ekki í rangar hendur með því að kanna bakgrunn allra kaupenda, gera skrá yfir vopnaeigendur og gera þeim skylt að geyma skotvopn sín í læstum hirslum, eins og gert er hér á landi.

Heimildir:
http://bjs.ojp.usdoj.gov/content/guns.cfm
http://www2.fbi.gov/ucr/cius_04/summary/crime_factors/
http://www.ojjdp.gov/pubs/gun_violence/profile20.html
http://en.wikipedia.org/wiki/North_hollywood_shootout
http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_rampage_killers
http://bjs.ojp.usdoj.gov/content/pub/pdf/GUIC.PDF

The Game