Eru konur fatlaðar?
Fréttina sem um ræðir má finna hér.

http://www.dv.is/frettir/2012/4/26/konur-fa-staedi-eins-og-fatladir-i-horpu/

Þessi titill er ætlaður sem ádeila á titilinn „konur fá stæði eins og fatlaðir“ og veit ég ekki hvor hópurinn ætti að móðgast meira.

Eins og oft áður lætur landinn titilinn á frétt hlaupa með sig í gönur. Ef titillinn hefði t.d. verið „Öryggi kvenna í bílastæðahúsum aukið“ og að fréttin hefði verið skrifuð með sömu stefnu í huga, þá er ég nokkuð viss um að viðbrögðin hefðu verið önnur. Titillinn  „Konur fá stæði eins og fatlaðir“ er vopn fjölmiðla eins og DV til þess að selja blöð og vekja athygli. Vandinn er hinsvegar sá að það er ekki það eina sem þeir gera, heldur hafa mótandi áhrif á viðbrögð fólks.

Ef við sleppum þessum dramatíska sölutitli er fátt eftir nema röklegar vangaveltur um öryggi og veruleikann eins og hann í raun og veru er.

Staðreynd. Konur eru oft óöruggar í bílastæðahúsum af röklegri ástæðu.
Staðreynd. Bílastæðahús geta verið hættulegur staður eins og margoft hefur sannast.
Staðreynd. Sérstök stæði fyrir konur eru ódýrari lausn fyrir Hörpuna til þess að bjóða þeim konum sem finnst þeim ógnað upp á aukið öryggi en t.d. fleiri myndavélar og/eða öryggisverðir.

Eins og fram kemur í fréttinni hjá DV hafa konur víðsvegar um Evrópu tjáð óöryggi sitt í slíkum húsum. Fyrirtæki reyna því að bregðast við væntingum viðskiptavina sinna til þjónustu þeirra á þann hátt sem á sama tíma er ódýrt, einfalt í framkvæmd og mætir umbeðinni þörf.

Er hér um mismunun að ræða? Er verið að hygla konum umfram körlum? Ekki tel ég svo vera. Ef karlar væru líka að tjá fyrirtækinu tilfinningu um öryggisleysi myndi Harpa, sem og önnur fyrirtæki í sömu stöðu, taka til annarra ráða sem myndu almennt efla öryggi innan bílastæðahúsa þar sem að krafan væri almenn. En þar sem að einn hópur virðist tjá skort á öryggistilfinningu fremur en heildin, reynir fyrirtækið að bregðast við þörfum hans fremur en heildarinnar, enda mun ódýrara en framkvæmdir til þess að efla alhliða öryggi.

Fyrirtæki eyða ekki meiri peningum en þau þurfa. Því hvet ég fólk til þess að hugsa sig tvisvar um áður en að það lætur fyrirsagnir æsifréttamiðla hlaupa með tilfinningar sínar í gönur.
"People hardly ever make use of the freedoms that they do have, like freedom of thought. Instead they demand freedom of speech as compensation" - Kirkegaard