Upptaka evru mun auka líkur á fjöldaatvinnuleysi

Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 9. maí sl. var lögð fram skýrzla sem tekin var saman af hagfræðingunum Ásgeiri Jónssyni og Sigurði Jóhannessyni fyrir samtökin. Skýrzla þessi ber heitið “Sveigjanleiki á vinnumarkaði og upptaka evrunnar” en samkvæmt henni mun upptaka evru á Íslandi leiða til þess að sveigjanleiki á íslenzkum vinnumarkaði, sem hingað til hefur allajafna verið mjög mikill, glatizt.

Rannsókn tvímenninganna gefur til kynna að upptaka evrunnar hér á landi muni draga úr svigrúmi á íslenzkum vinnumarkaði. Ennfremur kemur fram í skýrzlunni að upptaka evrunnar muni auka líkurnar á svokölluðu kreppuatvinnuleysi, þ.e. fjöldaatvinnuleysi, sem er eitthvað sem menn hafa ekki þekkt hér á landi síðan í kreppunni miklu á fjórða áratug 20. aldarinnar. Slíkt fjöldaatvinnuleysi er hins vegar velþekkt og viðvarandi fyrirbæri víða á meginlandi Evrópu og stafar það að miklu leyti af skorti á sveigjanleika á vinnumörkuðum þar að mati skýrzluhöfunda. Upptaka evrunnar víða á meginlandinu hefur síðan síður en svo bætt þá stöðu.

Í skýrzlunni segir m.a. orðrétt: “Upptaka evrunnar myndi því draga úr svigrúmi íslenskra stjórnvalda til þess að viðhalda fullri atvinnu. … Sú stefna að færa taxta nær greiddum launum getur því falið í sér töluverðan kostnað fyrir þjóðfélagið með kreppuatvinnuleysi ef á móti blæs í efnahagslífinu og ekki verður lengur hægt að mæta vandanum með peningaprentun og verðbólgu.”

Í skýrzlunni segir ennfremur að lítil ríki eigi auðveldara um vik með að bregðast við atvinnuleysi og stöðnun í hagvexti en stærri ríki. Evran þýði endalok sjálfstæðrar peningamálastefnu og svigjanlegs gengis og skapi þannig mikinn ósveigjanleika á vinnumarkaði. Því er gert ráð fyrir að sameiginlegur gjaldmiðill, eins og evran, auki verulega líkurnar á fjöldaatvinnuleysi í þeim löndum sem taka hann upp.

Heimild:
“Upptaka evrunnar dregur úr svigrúmi á vinnumarkaði” - Morgunblaðið, 8. maí 2002.

Hjörtur J.
Með kveðju,