Ég er jafnaðarmaður Ég er jafnaðar- og félagshyggjumaður og hef sem slíkur sterkar skoðanir á því hvert hlutverk ríkisins er. Að grunni til er það eftirfarandi:
- að taka pening af þeim sem eiga hann og dreifa til þeirra sem eiga engan,
- að taka pening af þeim sem eiga hann og dreifa í ýmis verkefni þjóðinni til heilla,
- að taka pening af þeim sem eiga hann og dreifa út um allar trissur þjóðinni til heilla,
- að taka pening af þeim sem eiga hann og setja í óhagkvæman rekstur þjóðinni til heilla.
Í stuttu máli: Að taka pening af þeim sem eiga hann þjóðinni til heilla.

Í þessu felst svo auðvitað mjög margt. Ríkið á að sjálfsögðu að hafa miklar tekjur til að sinna hlutverki sínu með sóma. Fólk með háar tekjur á að borga háa skatta og fólk með lágar á að borga lága skatta. Þegar fólk með lágar tekjur hækkar í tekjum þá á það að borga hærri skatta því annað væri óréttlátt gagnvart þeim sem ekki hækka í tekjum. Ef fólk ætlar að auka tekjur sínar verulega, td. vegna húsa- eða bílakaupa eða ef barn kemur í heiminn sem þarf að fæða og klæða eða bara af engri sérstakri ástæðu nema til að lifa hærra, þá líðst slíkt auðvitað ekki og ber því fólki að borga hærri skatta.

Ríkið er eini aðilinn sem má sjá um heilsugæslu á Íslandi. Skiptir þá engu þótt það geti það ekki með góðu móti. Háir skattar á alla eiga að tryggja að allir búi við sama heilbrigðiskerfi. Ef mjög háir skattar duga ekki til og biðlistar og svoleiðis myndast þá má fólk ekki leita út fyrir opinbera kerfið og til einkaaðila. Það er ósanngjarnt gagnvart þeim sem hafa ekki efni á því. Að hugsa sér að einhver sem á mikinn pening, meira að segja eftir að hafa borgað háa skatta, geti bara labbað inn á einkastofu og fengið þjónustu strax á meðan annað fólk þarf að bíða á biðlistum! Að vísu minnka biðlistar ef þeir sem hafa efni á því að fara til einkaaðila en það skiptir ekki máli. Þetta er samt ósanngjarnt.

Ríkið er eini aðilinn sem má sjá um menntun á Íslandi. Skiptir þá engu máli þótt það geti það ekki með góðu móti. Háir skattar á alla eiga að tryggja að allir búi við sama menntakerfi. Ef háir skattar duga ekki til að aðstaða og húsnæðismál séu í góðu lagi fyrir alla sem vilja þá má fólk ekki leita út fyrir opinbera kerfið og til einkaaðila. Það er ósanngjarnt gagnvart þeim sem hafa ekki efni á því. Að hugsa sér að einhver sem á mikinn pening, meira að segja eftir að hafa borgað háa skatta, geti bara labbað inn í einkaskóla og fengið betri aðstöðu og húsnæði strax á meðan annað fólk þarf að búa við síðri aðstöðu! Að vísu minnkar álag á opinbera skóla ef þeir sem hafa efni á því fara til einkaaðila til að mennta sig en það skiptir ekki máli. Þetta er samt ósanngjarnt.

Ríkið á að “halda jafnvægi” í byggðamálum. Ef fólk vill flytja á höfuðborgarsvæðið í alla þjónustuna, afþreyinguna, menninguna og mannlífið, þá hlýtur það annaðhvort að vera eitthvað klikkað eða landsbyggðin eitthvað hrikaleg. Þess vegna þarf að dæla pening í allskonar verkefni út á landi sem aldrei geta skilað pening eða hagnaði. Á meðan hægt er að halda fólki út á landi með því að dæla í það ókeypis skattpening þá er það hið eina rétta í stöðunni.

Ríkið á að styrkja menningu og listir af fullum krafti. List sem ríkið styrkir er merkilegri en önnur og fólk sem nýtur hennar rétthærra en annað. Skítt með það þótt unglingar þurfi að borga 5000 krónur á rokktónleika með sinni uppáhaldshljómsveit. Aðalmáli skiptir að ríka fólkið sem vill fara á sinfóníutónleika þurfi ekki að borga fullt verð heldur borgi ríkið líka með því. Ef einhver list er ekki nógu vinsæl til að fólk kaupi hana á venjulega verði hennar þá hlýtur hún að vera svo merkileg að ríkið þurfi að borga með henni.

Ríkið á að reka útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöð því það er öryggistæki þjóðarinnar. Ef Rás 1 og 2 og Sjónvarpið væru ekki að fá fullt af pening frá ríkinu, og ef allir landsmenn væru ekki skyldugir til að kaupa áskrift frá þeim, þá væri öryggið verra á Íslandi. Til dæmis er mjög mikilvægt að Fraiser og Kastljós sé sýnt því annars verða ekki nægilega margir grínþættir og umræðuþættir. Slíkt er mjög óöruggt. Og ef það kemur eldgos eða stór jarðskjálfti þá verðum við alltaf að geta stillt á Rás 1 til að hlusta á fréttirnar því enginn annar mundi segja fréttirnar annars. Hinar fréttastofurnar eru nefninlega bara til skrauts og ekki hluti af öryggi landsmanna eins og ríkisfréttastofan.

Svona vill ég að hlutirnir séu áfram. Þetta er ekki nóg heldur. Ég vill að ríkið banni fólki að græða á snjöllum hugmyndum. Einstaklingar mega ekki græða því þannig græðir þjóðin í heild ekki neitt. Ríkir einstaklingar nota ekki peninginn til að fjárfesta í snjöllum hugmyndum heldur setja hann bara undir koddann þar sem enginn sér hann. Þess vegna þarf að skattleggja það nógu mikið svo allir græði.

En í stuttu máli: Meira ríkisvald takk! Og allir eiga að vera hnífjafnir!