Senn líður að borgarstjórnarkosningum. Nú hafa R- og D-listamenn fengið að rífast og karpa mikið í fjölmiðlum um fjármál og önnur leiðindamál. Einn segir eitt og hinn annað varðandi meintar fjármálaóreiður og enginn veit hvor er að ljúga, sennilega báðir. Báðir flokkar þykjast vilja umbætur í skipulagsmálum borgarinnar en hafa í raun ekki lagt fram neinar skýrar línur hvernig þeir ætla að ná því fram, og þeir vilja báðir skjóta flugvallarflutningnum á frest. Í raun virðast báðir flokkar styðja úrelta skipulagsstefnu, svefnhverfabyggð í miðri höfuðborg, en hafa mismunandi leiðir til að koma orðum að því.

Þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá loksins annan kost, flokk sem leggur sérstakan metnað í skipulagsmál borgarinnar og hefur vit á því sem hann er að segja. Þetta eru auðvitað Höfuðborgarsamtökin með arkitektinn Guðjón Erlendsson í fararbroddi. Það hefur ekki mikið borið á þessum samtökum í fjölmiðlum enda hafa stóru flokkarnir tveir verið fyrirferðarmestir. Þess vegna langar mig nú að vekja athygli á þessum samtökum, og læt hér fylgja með grein af mbl.is með helstu stefnumálum þeirra:

“Meginmarkmið Höfuðborgarsamtakanna er að snúa við fjáraustri borgarinnar í ný úthverfi sem hengd eru utan á önnur úthverfi. Það sparast stórfé við að byggja borgina innávið; umferðarslysum fækkar, útgjöld vegna gatnaframkvæmda lækka og öll innbygging verður skilvirkari.
Höfuðborgarsamtökin leggja til að borgin verði byggð innávið og þar eru svæði miðborgar í meginhlutverki. Við viljum að það svæði sem afmarkast af svæðinu vestan Kringlumýrarbrautar verði þétt samofið miðborgarhverfi.

Skipulagsumræðan undanfarið hefur verið samhengislaus að venju. Aðeins er einblínt á afmörkuð svæði en alla heildarsýn vantar. Kvosin og Laugavegur hafa átt undir högg að sækja í hálfa öld. Þau eru hluti af stærra svæði vestan Kringlumýrarbrautar, sem líður fyrir bein áhrif af flugvelli í Vatnsmýri vegna bæklaðs gatnakerfis og vegna mengunar- og skerðingaráhrifa af flugstarfseminni.

Þetta svæði færðist niður um nokkra gæðaflokka með tilkomu flugvallarins. Kvosin varð harðast úti. Hún lenti innan helgunarsvæðis, beint undir aðflugi að aðalbraut vallarins og er því á svæði sem að öðru jöfnu er talið óbyggilegt.

Kvosin er því dauð skv. hefðbundinni skilgreiningu, þó ráðamenn tali um að þar hafi aðeins orðið ”áherslubreytingar“, og ekkert getur orðið henni til bjargar til lengri tíma annað en að fjarlægja meinsemdina, sjálfan flugvöllinn.

Það er meginstefna Höfuðborgarsamtakanna að stöðva með öllu útþenslu byggðarinnar og byggja borgina þess í stað innávið. Vatnsmýrin er þar í lykilhlutverki og leggjum við til að þar rísi verulega þétt og blönduð miðborgarbyggð.

Það deiliskipulag, sem kynnt hefur verið af staðgreinireitum við Laugaveg að undanförnu, snýst um einstök hús og lóðir með mikla verndun að leiðarljósi en ekki um það hvernig endurnýja má reitina til framtíðar. Við teljum að miðborgin eins og önnur hverfi í borginni eigi að stjórnast af eðlilegri þróun og endurnýjun á byggingum í samræmi við breytingar á notkun og þörfum samfélagsins.

Við teljum að líta beri á alla gömlu höfnina sem eina heild, sem verði að þróa í samhengi við stærri borgarmynd vestan Kringlumýrarbrautar.

Slippsvæðið og Austurbakki eru hvort tveggja hlutar af þessari heild. Bæði svæðin eru mikilvæg fyrir miðborgina en Geirsgatan í núverandi mynd eyðir að mestu jákvæðum áhrifum af þróun þeirra.

Verðlaunatillaga að tónlistar- og ráðstefnumiðstöð á Austurbakka er fullkomin ”núlllausn“.

Tillagan gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu á skipulaginu þó um hafi verið að ræða samkeppni um skipulag. Hún er verðlaunuð fyrir byggingu, sem er þess eðlis að ólíklegt er að hún rísi nokkurn tíma. Við teljum að skynsamara væri að höfnin verði eðlilegur hluti af miðborginni með þéttri miðborgarbyggð í fullu sambýli við hafnarstarfsemi.”