Ég er að velta fyrir mér þessum ríkisábyrgðum sem ríkisstjórnin er að dreifa til stórra fyrirtækja á borð við Flugleiðir, og nú í dag var kynnt tillaga um ríkisábyrgð fyrir deCode, eða Íslenska Erfðagreiningu.

Á ríkið að vera með puttana í einkarekstri? Ég hélt að ríkið værið hætt öllu slíku, eða hvað? Er þetta afturhvarf til fortíðar þegar ríkið réði og átti allt saman? Af hverju að einkavæða þá?

Um er að ræða 20 milljarða ríkisábyrgð fyrir Íslenska Erfðagreiningu vegna “uppbyggingar lyfjafyrirtækis hér á landi”, og veit ekki hvað mörg hundruð milljarða fyrir Flugleiðir.

Síðast þegar ég vissi þá var ÍE ekki að gera það gott, margra milljarða tap og nýbúið að segja upp um 100 manns þar.

Það er nú súrt fyrir íslenskan almenning að þurfa að gangast í ábyrgð fyrir fyrirtæki sem viðskiptajöfrar eiga, er ekki verið að spila fjárhættuspil með peninga almennings hér? Hvað ef almenningur þarf svo að borga ef eitthvað kemur upp á?!

Hvað finnst ykkur?