Ég rakst á þessa frábæru grein á strik.is. Ég veit að það er ekki vinsælt að copy/pasta það sem aðrir skrifa en þetta er mjög góð grein. (frekar löng)

MIKAEL TORFASON SKRIFAR

Skoðanir fólks á málefnum Ísraela og Palestínumanna þessa dagana eru með ólíkindum. Ólíklegasta fólk virðist finnast það fullkomlega eðlilegt að herlið Ísraels ryðjist inn á sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna og setji folk í herkví undir því yfirskyni að það sé verið að leita að hryðjuverkamönnum og glæpamönnnum sem sprengja sjálfan sig upp í miðborg Tel Aviv og ógni þar með öryggi borgara í Ísrael.

En þetta umtalaða herkví felur í sér fjöldahandtökur, aftökur á götum úti, stofufangelsi hins almenna borgara (sem fær ekki aðgang að nauðsynlegri þjónustu - hvorki mat né lyfjum) og almenna niðurlægingu hellar þjóðar. Og bara svo staðreyndirnar séu á hreinu þá segja síðustu tölur sem ég sá að 1263 lík Palestínumanna séu gegn 416 líkum Ísraelsmanna (tölurnar eru einungis tala látinna frá því í september 2000). Herir Ísraela myrða því 3 Araba fyrir hvern Ísraela sem hryðjuverkamenn drepa. En eins og þið vitið er þessi eini Ísraeli myrtur af einstaklingum sem tengdir eru öfgasinnuðum hryðjuverkarsamtökum eða trúarsöfnuðum á meðan herir “eina lýðræðisríkisins fyrir botni Miðjarðarhafsins” drepur þrjá í hefndarskyni. Að vísu eru Palestínumenn líka oft að hefna og þá drepa þeir einn fyrir hverja þrjá sem lýðræðið myrðir.

Það mætti auðvitað lengi skrifa um afleiðingar lýðræðislega herkvísins en við ættum flest að hafa lesið blöðin og séð óléttar konur og börn deyja, eða horfa upp á niðurlægingu þeirra þegar þau komast ekki út úr húsinu sínu og eiga ekki ofan í sig og á. En það eru allt gamalkunnar staðreyndir og óþarfi að ég fari að lýsa því í þaula. Það sem kemur mér mest á óvart er að þetta lýðræðislega herlið hefur ekki eingöngu áhuga á því að myrða Araba (sem ég hélt að væri tilgangurinn) heldur hika herirnir ekki við að skjóta að og ofsækja erlenda blaðamenn og erlendar hjálparstofnanir. Hvernig er hægt að styðja slíkar aðgerðir og halda að það sé eina leiðin til að friður verðir raunverulegur í Palestínu?

Vanþekking, fordómar og trúgirni

Þessum aðgerðum er ólíklegasta fólk sammála og síðast sá ég hér á
Pressuvefnum grein eftir Andrés Magnússon þar sem honum fannst þetta fullkomlega eðlilegt og líkti hann aðgerðum Ísraelsmanna gegn Arafat og samlöndum hans við barráttunni gegn Hitler og Þýskalandi á sínum tíma. Hann gaf það í skyn að friðarsamningur við Arafat væri jafn heimskulegur og friðarsamningur við Hitler og setja þær skoðanir Andrés í hóp með ekki ómerkari mönnum en Bush og fasíska forsætisráðherra Danmerkur hr. Rasmussen.

Ég skil ekki alveg hvernig hefur slegið svona út í fyrir manni sem flytur pistla í sjónvarpi og á interneti og sér ekkert líkt með Hitler og Arafat. En Andrés og hans líkir nota hið gamla góða vopn að allir aðrir viti ekkert um þessa deilu fyrir botni Miðjarðarhafs en að Andrés skilji þetta réttara en þeir sem eru ósammála honum. Svo ég noti orð hans sagði hann að umræðan á Íslandi væri “gegnsýrð af vanþekkingu, fordómum og trúgirni á fullyrðingar deiluaðila”.

Eitthvað af þessum fullyrðingum eru eflaust sannar um þá sem voga sér að gagnrýna Ísraelsríki því fólk hefur án efa misjafna þekkingu á málefnum Palestínumanna og Ísraela en ég get ekki séð að ef staðið verði við Oslóarsamkomulagið frá ‘93 sé hætta á að Arafat breytist í Hitler og fari að útrýma gyðingum og geri tilraun til að hertaka heiminn. Hingað til hefur ekkert bent til þess að Palestínumenn ætli sér heimsyfirráð eða dauða og aðgerðir þeirra eða ræður hafa með engu bent til þess að nasismi Hitlers yrði tekinn upp í Palestínu fengju þeir að stjórna eigin ríki. Eina sem hefur að nokkru borið keim af aðferðum Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni er að í nokkra daga byrjaði Ísraelsher að merkja Palestínumenn en um leið og þeir föttuðu hversu líkt það var því sem gert hafði verið við þá fyrir um 60 árum hættu þeir við að merkja Araba. Á meðan hefur leiðtogi Palestínu sagt að þeir ætli sér bara að halda hluta af þeim landskika sem þeir bjuggu á áður en gyðingar sneru aftur frá Evrópu og fluttu inn á þá.

Deilan í hnotskurn

Því þeir hafa sætt sig við að halda “bara hluta af því landsvæði” sem þeir bjuggu á áður en Gyðingar tóku upp á því að upplifa sig aftur sem þjóð en ekki það trúfélag sem flestir þeirra höfðu sætt sig við að vera. Um það fjallaði Oslóarsamkomulagið og um það hafa allar friðarumleitanir fjallað. Að Ísraelsmenn lofi að hætta að nema ný lönd og að báðir aðilar hætti að myrða saklausa borgara. Svo ég vitni í Vísindavefinn en einhver vefverjinn sendi þeim hjá Háskólanum fyrirspurn um það hvað deilan fyrir botni Miðjarðarhafs fjallaði: “Í grófum dráttum snýst deila Palestínumanna og Ísraela um land. Annar aðilinn, Palestínumenn, sem eru Arabar, er að heyja sjálfstæðisbáráttu til að mynda eigið ríki á landi sem þeir telja að hafi verið tekið frá þeim með valdi af Ísraelsmönnum.”

Ósköp einföld afstaðan þar en á vefnum útskýra þeir líka afstöðu
Ísraelsmanna: “Hinn aðilinn, Ísraelsríki, stofnsett af Gyðingum, vill halda sínum hlut enda álíta þeir að þeir eigi sögulegan og trúarlegan rétt á þessu umdeilda landi.”

Arftakar Arafats

Þetta er að vísu einföldun en samt fjallar deilan um þetta og hinn hófsami Ísraelsmaður væri sammála því að þeir vilji eingöngu halda sínum hlut og standa við gerða samninga en það eru landnemar og aðrir öfgahópar í Ísrael ekki sammála. Ekki frekar en að öfgahópar innan Palestínu eru ekki sammála því að þeir eigi að gefa fet eftir í baráttunni við Ísrael og að helst eigi þeir að sundra ríkinu og reka Gyðingana á flótta. Þessu er Arafat hinsvegar ekki sammála. Hitler Andrésar Magnússonar er ekki öfgasinnaðri en það að hann vill ekki útrýma Ísraelsríki. Það vilja hinsvegar hugsanlegir erfingjar hans. Sérstaklega þeir sem eru af yngri kynslóðinni og hafa gefist upp á friðarumleitunum og vilja bara fá það sem afar þeirra áttu en gáfu eftir í styrjöldum og með samningum sem ekki var staðið við.

Einföldun á síðasta áratug

Því það er einföldun að segja sem svo að frá árinu 1993 til 1999 (mitt í einhverju sem átti að heita friðarferli) hafi Palestínumenn framið 4000 hryðjuverk (talan er úr grein Andrésar Magnússonar og eflaust er hún rétt þótt fullyrðingar hans um hlut Ísraela á þessu tímabili séu með slíkum ólíkindum að maður er ekki viss) á meðan Ísraelsmenn héldu að sér höndum og gáfu eftir landsvæði. Þetta er hreinlega ekki rétt hjá Andrési og með ólíkindum að lesa svona bull. En það er mjög algengt að þeir sem þykjist bera hag Ísraelsríkis fyrir brjósti vilji bara sjá eina hlið á málinu og horfi engöngu á voðaverk Palestínumanna en gleymi því að allt þetta tímabil sem um ræðir hélt landnám Ísraelsmanna áfram og hagur Gyðinga (stofnenda Ísraels) er ekki að lifa í eilífri styrjöld við Arabana í Palestínu.

Já, hryðjuverkin eftir ’93 stafa af því að öfgahópar í Ísrael hættu ekkert að byggja nýjar blokkir á landsvæði sem átti að vera land Palestínumanna samkvæmt samningum sem báðir aðilar undirrituðu. Ísraelsher hætti ekkert að brjóta á mannréttindum hins almenna borgara með því að svipta hann frelsi eða stela af honum landi eða gefa upp hlutverk sitt sem kúgara. Þess vegna breyttist ekkert á þessu tímabili. Vegna þess að öfgamenn í Ísrael fengu að leika lausum hala og vegna þess að öfgamenn í Palestínu svöruðu í sömu mynt. Morðin og niðurlæging hins almenna borgara, hvort sem hann heitir Ísraelsmaður eða Palestínumaður, hélt áfram vegna þess að hernámið hætti aldrei en ekki öfugt.

Á Ísrael rétt á sér?

Þetta er samt ekki kjarni málsins. Kjarni málsins hlýtur að vera sá
grunnur sem stofnun Ísraelsríkis í Palestínu byggir á. Er einhver grunvöllur fyrir ríki Gyðinga í Miðausturlöndum? Hvern fjandan eru Gyðingar Evrópu að gera í Ísrael?

Og þetta er ekki beint spurning sem ég spyr sjálfur þótt mér finnist hún hitta naglann á höfuðið. Ég las þetta í þýddri grein úr ísraelsku blaði sem spurði að þessu í leiðara í vikunni sem leið. Þeir eru nefnilega ófáir Gyðingarnir sem eru ósammála herskáum mönnum á borð við Andrés Magnússon og finnst Ísraelsríki, með Ariel Sharon í forsæti, eiga í tilvistarkreppu vegna þess að árásagjarnir herir hans eyða ekki bara hugsanlegum möguleika á friði heldur grafa einnig undan sjálfri hugmyndafræði Zíonismans en það er sú fræði sem liggur til grundvallar stofnunar Ísraels. En það hlýtur að vera sérstakt barráttuefni þeirra sem styðja lýðveldið Ísrael að í því sé friður og að hugmyndafræði sem beri virðingu fyrir mannréttindum sé leiðarljós stjórnenda þess.

Zíónismi náskildur Nasisma

Því þótt Zíónismi sem slíkur sér sprottinn af sama sprota og nasismi og fasismi og beri mikinn keim af slíkum fræðum þá mega Gyðingar eiga það að þeir neyddust til að velja að fylgja nasíska bullinu í mönnum eins og Moses Hess frá Þýskalandi, rússanum Leon Pinsker og Austuríkis-Ungverjanum Theodor Herzl. En þessir menn eru stundum taldir höfundar Zíónismans og lengi vel hlógu Gyðingar í Evrópu að þessum bjánalegu kenningarsmiðum rétt eins og við hlæjum að Íslenskum Þjóðernissinnum eða Danir að Dansk Folkeparty (þar til þeir komust í oddastöðu í Danska þinginu).

Gyðingar í Evrópu litu nefnilega ekki á sig sem þjóð. Þeir voru þýskir Gyðingar, franskir Gyðingar, rússneskir Gyðingar eða jafnvel bara evrópskir Gyðingar. Þetta voru trúarbrögð og þeir kröfðust þess ekki að fá eigið landsvæði frekar en íslenskir Vottar Jehóva eða enskir Katólikkar. Það þótti beinlínis fáránlegt að halda því fram að þeir ættu að yfirgefa heimili sín, fyrirtæki, nágranna, atvinnu og snúa aftur til Palestínu eftir nítján hundruð ára fjarveru.

En síðan gerðist það að þeir voru ekki þeir einu sem fóru að hugsa mikið um fasisma og nasisma í tilraun sinni við að endurskapa trúarbrögð sín í þjóðerni í upphafi síðustu aldar. Margar aðrar þjóðir voru í slíkum hugleiðingum og við þekkjum flest sögu Evrópu svo við vitum að Gyðingahatrið varð svo mikið allstaðar í Evrópu að þeir byrjuðu að flýja þaðan í hrönnum.

Sumir fóru auðvitað bara til Bandaríkjana og gerðust Kanar en aðrir tóku jafn afdrifaríka ákvörðun og hollensku bændurnir sem fluttu til Suður Afríku fyrir fjögur hundruð árum. Þeir fluttu beinlínis inn á annað fólk og heimtuðu að stofna nýtt ríki, Ísraelsríki. En þetta voru ennþá bara sérvitringar sem fengu ekki stuðning fyrr en eftir fyrri heimstyrjöld. Þá fór barráttan fyrst í gang og náði svo algleymi þegar hatrið gagnvart Gyðingum var orðið svo mikið í Evrópu að Zíónismunum tókst að sjanghæja þá flesta yfir á sitt band.

51. fylki Bandaríkjanna

Í fyrstu voru þeir þó einungis hrifnir af grunnhugmyndinni um að Gyðingar yrðu að útvega sér land vegna fordóma og því sem kallast antí semitismi (eitthvað sem er að vísu misnotað í dag og hver einasti maður sem vogar sér að gagnrýna Ísraelsríki er ásakaður um slíka fordóma í garð gyðinga). Á þeim tíma voru þeir meira að segja margir Gyðingarnir sem óskuðu þess heldur að eitthvert fylki í Bandaríkjum Norður Ameríku lægi á lausu frekar en að taka þátt í hryðjuverkum öfgasinnaðra trúbræðra sinna fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Helförin

En hlutirnir gerðust hratt í Evrópu og margir Gyðingar ákváðu að Palestína yrði fyrir valinu enda hafði landnemunum þar strax í lok fyrri heimstyrjaldar tekist að fá út úr Bretum (sem voru raunverulegir stjórnendur Palestínu á þeim tíma) samning um að Gyðingar fengju þar landsvæði út af fyrir sig. Og sumir þeirra sem fluttu þarna niður eftir keyptu sér bara hús eins og hverjir aðrir innflytjendur til hvaða ríkis Breska samveldisins. En enn aðrir hófu vopnaða barráttu fyrir landi og nýttu sér þar samninga við Breta og rændu landi af Aröbum Palestínu í skjóli heimsveldisins. Það má því segja að þeir Gyðingarnir hafi verið ótýndir hryðjuverkamenn og aðferðir þeirra voru oft á tíðum hryllilegar.

Síðan var þeim slátrað í Evrópu. Sex milljónir dóu og Bretar voru komnir með nóg af því að reyna að stýra Palestínu og notuðu nýstofnaðar Sameinuðu þjóðirnar til að bjóða áþjáðum Gyðingum land í Palestínu. Því var skipt á milli þeirra og samþykkt hjá Sameinuðu þjóðunum í trássi við mótmæli Palestínumanna og annarra Arabaríkja. Sem skýrir að mörgu leyti það vantraust sem hinn almenni Palestínumaður ber til alþjóðlegra stofnanna. Í kjölfarið upphófst styrjöld sem sér varla fyrir endan á en virðist fela í sér sigur Gyðinga og hins vestræna heims yfir Aröbum í Palestínu. Því ég hef ekki einu sinni nógu margar síður til að lýsa hryllingnum sem herir Ísraels hafa valdið Palestínumönnum eftir seinni heimstyrjöld. Sú saga er svo blóðug að einungis verður hægt að finna sambærileg dæmi hjá morðsjúkum einræðisherrum. Hundruðir bæja og byggða hafa verið jafnaðar við jörðu, fjöldamorð hafa verið framin og fólk gert að yfirgefa land sitt. Undir eðlilegum kringumstæðum væri hinn vestræni heimur viti sínu fjær við að þurfa að horfa upp á svona lagað en í dag þykir flestum þetta jafn ómerkilegt og útrýming Tyrkja á Armenum.

Úr öskunni í eldinn

En heimurinn er ekki svo einfaldur að einhver vinni þetta stríð. Sigur Ísraelshers og leiðtoga hans yfir Palestínu væri ekki sigur fyrir hinn almenna Gyðing sem óskar sér þess að lifa án ofsókna. Því sigurinn felur í sér að palestínskir Arabar haldi áfram vopnaðri barráttu fyrir sjálfstæði sínu og berjist gegn þessu ríki trúfélags manna sem komu frá Evrópu og settu þá í herkví um leið og þeir stálu frá þeim landinu. En Ísraelsmenn stálu þessu landi ekki vegna þess að þeir óski sér styrjöld og kjósi yfir sig öld hryðjuverka. Þeir hertóku þjóð Palestínumanna vegna þess að þeir þrá að fá að lifa í friði og fjarri ofsóknunum sem þeir urðu fyrir í Evrópu. Talandi um að fara úr öskunni í eldinn.

Og eins og staðan er nú virðist ekkert benda til þess að Gyðingar sem þjóð fái að lifa í friði í Ísrael. Ekki heldur fólk að leiðin til friðs sé að loka Arafat inni og ofsækja borgara landsins? Það þarf ekki annað en að horfa yfir sögu Palestínu til að sjá að það verður aldrei friður þarna fyrr kúgarinn hætti að kúga og horfist í augu við voðaverk sín. Eini möguleiki lýðræðisríkis á borð við Ísrael til að fá það ríki sem þeir þráðu með Zíonismanum er annað hvort að flytja af svæðinu alveg eða draga herlið sitt frá sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna og leyfa þeim að öðlast það sjálfstæði sem þeir eiga skilið samkvæmt alþjóðlegum samþykktum.

Heimfærum deiluna á okkur sjálf

Því það voru ekki Palestínumenn sem fluttu inn á Ísraelsmenn og hófu að ræna af þeim landi í skjóli alþjóðlegra stofnanna og stórvelda á borð við Breta og Bandaríkjamenn. Það var söfnuður Gyðinga sem flutti inn í Palestínu í tilraun til að skilgreina sig sem þjóð. Þeim hefur tekist það en þeim hefur ekki tekist að lifað í þeim friði sem Zíónisminn átti að gefa af sér og mun ekki takast það ef sterkasta hernaðarveldið fyrir botni Miðjarðarhafsins horfist ekki í augu við að leiðin til að sættast við þjóð sem það hefur rænt og ruplað með skipulögðum hætti síðan 1917 er ekki með því að halda áfram að ræna það og berja í kássu eins og einhver eineltistutti og hneykslast svo ef fórnarlambið ákveður, í örvæntingu sinni, að svipta sig lífi með handsprengju á milli tannana.

Auðvitað grípur kúgað fólk til örþrifaráða og þótt skapari Saddam Hússein - einræðisherra sem var skapaður af sama stórveldi og því sem hefur hingað til haldið verndarhendi yfir Ísraelsríki - segi að hann gefi fjölskyldu sjálfsmorðingjans peninga merkir það ekki að málstaður Palestínumanna sé rangur og að eina leiðin til að stöðva morðin sé að myrða og kúga. Ryðjast inn á heimili fólks og niðurlægja það eða drepa. Eins og við myndum samþykkja það að ef Bretar tækju upp á því að murka lífið úr katólikkum á Írlandi og setja þá og Gerry Adams og hans vini í herkví vegna hryðjuverka IRA.

Aldrei. Fyrr myndu Bandaríkjamenn sjálfir fordæma og jafnvel lýsa yfir stríði á hendur Breta. Því ef við heimfærum kúgun Palestínumanna og sögu þeirra yfir á okkur sjálf eða nágranna okkar ná flestir borgarar hins vestræna heims ekki upp í nefið á sér af hneykslan.

Mikael Torfason