Nú þegar fundi leiðtoga arabaríkjanna í Beirút er lokið er komin á borðið friðartillaga fundarins sem Saudi-Arabar áttu frumkvæðið að. Nú er því áhugavert að skoða hvað felst í þessari tillögu og hverjir kostir og gallar hennar eru.

Ef við byrjum einfaldlega á meginatriðum tillögunnar eins og fréttastofa BBC tók þau saman, þá eru þau eftirfarandi:

Ísrael verður að -

Draga sig til baka frá (skila) landi sem þeir náðu á sitt vald í Sex Daga Stríðinu (1967): Vesturbakkanum, Gaza, Austur Jerúsalem og Gólan Hæðum.

Samþykkja endurkomurétt Palestínskra flóttamanna og vinna að henni í samráði við Sameinuðu Þjóðirnar.

Leyfa sjálfstæða Palestínu með Austur Jerúsalem sem höfuðborg.

Á móti munu arabaríkin -

Líta á þetta sem endalok stríðsástands milli Arabaríkja og Ísraels.

Samþykkja friðarsáttmála við Ísraelsríki.

Hefja “venjuleg” samskipti við Ísrael.

Rétt er að geta þess í upphafi að þessi ráðstefna var gölluð að því leyti að hana sátu ekki allir arabaleiðtogarnir. Arafat mætti ekki til Beirút þar sem hann sætti sig ekki við ferðaskilmála ísraelsstjórnar og óttaðist auk þess að honum yrði meinað að snúa aftur. Hosni Mubarak Egyptalandsforseti hélt sig heima í einskonar samúðarverkfalli með Arafat, og Abdulla II Jórdaníukonungur var heima af heilsufarsástæðum.

Það eru engar líkur á að Ísrael sætti sig við tvö meginatriði þessarar tillögu (og þeir hafa nú þegar hafnað henni). Ísrael er ekki reiðubúið að skila gólan hæðum þar sem þeirra vatnsforði er að miklu leyti þar og hæðirnar myndu einnig gera að engu sterkar varnir norður Ísraels ef til ógnana af hálfu Sýrlands kæmi. Önnur svæði mætti ef til vill semja um upp að vissu marki, en það er ólíklegt að Austur Jerúsalem verði skilað í heild sinni. Að gera hana að höfuðborg Palestínu yrði of mikill þyrnir í augum Ísraela og ég tel ólíklegt að það verði nokkru sinni samþykkt. Hitt atriðið sem engin sátt verður um er endurkoma flóttamanna. Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir arabaríkin (sérstaklega Jórdaníu og Líbanon) sem vilja gjarnan losna við þessa “gesti” frá sínum löndum. Forseti Líbanon, Emile Lahoud, barðist að sögn fréttamanna harðri baráttu til að þetta ákvæði yrði með í tillögunni, og vonast þarmeð til þess að endurheimta suður-Líbanon sem hefur verið hálfgert palestínskt ríki í rúmlega 20 ár (þó lengi undir stjórn Ísraelshers og bandamanna þeirra). Ísraelsstjórn er ekki reiðubúin til þess að samþykkja heimflutning flóttamanna vegna þess að það myndi breyta fjöldajafnvægi þjóðanna gríðarlega á mjög skömmum tíma og í raun stæði þeim nokkur ógn af svo fjölmennu ríki innan síns eigin.

Það er líklegt að sjálfstæð palestína verði að veruleika einhverntímann í framtíðinni, en þess er þó ekki að vænta á næstunni þar sem engar tillögur eru á borðinu sem virðast líklegar til þess að draga andstæðingana til viðræðna.

Tilboð arabaríkjanna um frið er að mörgu leyti áhugavert, en þar sem því fylgja í raun engar tryggingar er það varhugavert. Auk þess gætu ríkin haldið áfram að styðja skæruliðahópa innan og utan Ísraels til árása á ríkið án þess að þau væru sjálf í átökum við það. þar að auki er einn höfuðóvinu´r Ísraels ekki þáttakandi í þessum fundi en það er Íran (Íranir eru persar en ekki arabar og því eðli málsins samkvæmt ekki þátttakendur). Íran hefur um langt skeið fjármagnað og stutt skæruhernað Hezbollah (“flokkur guðs”) gegn Ísrael, og það er enginn sáttavilji þar á bæ, hvorki hjá Hezbollah, né Íran. Ísrael býðst því hér í raun hálfkláruð tillaga sem er auk þess ekki studd af öllum deiluaðilum og því er líklegast að árangurinn verði alls enginn.

Yfirlýsingar Arafats um að hann vilji ganga til samninga um leið og Ísrael afléttir umsátri sínu og gefur palestínumönnum ferðafrelsi hljómar auk þess eins og skilaboð frá manni sem gerir sér ekki grein fyrir stöðunni. Gríðarlega mannskæð sjálfsmorðssprengja í bænum Netanya sýnir greinilega hversu hættulegt slíkt ferðafrelsi væri, og því er ljóst að umsátrið mun þéttast frekar en hitt. Það er einnig eins og við manninn mælt að þegar þessi orð eru rituð eru Merkava 3 skriðdrekar IDF (Israeli Defence Force) að rúlla inn í Ramallah og friðarlíkurnar fara minnkanndi frekar en hitt.

Aðgerðir ísraelsmanna eru harkalegar og bera vott um að stjórnin er í raun ráðalaus og veit vel að ef henni tekst ekki að halda vel á spilunum er Beniyamin Netanyahu reiðubúinn að taka við og beita mun meiri hörku. Stór hluti yfirmanna hersins yrði mjög sáttur við þá þróun og því miður er líklegt að stigmögnun átakanna hafi einmitt þær afleiðingar.

Á hinn bóginn er Arafat jafn ráðalaus og Sharon og gefur sífelldar yfirlýsingar sem virðast aðeins laustengdar við raunveruleikann. Hann hefur ekkert gert til þess að berjast gegn Hamas og öðrum skæruliða/hryðjuverkasamtökum innan Palestínska Stjórnsvæðisins og því hafa Ísraelsmenn algerlega gefist upp á honum og stjórn hans.

Ég veit að báðir þessar stjórnir og báðir þessir leiðtogar vilja einungis það sem er best fyrir sitt fólk en oft þarf meiri fórnfýsi til en hér er á ferðinni. Eins og einhver sagði eitt sinn… “the road to Hell is paved with good intentions”.

————————

Ég vil hvetja þá sem hyggjast svara þessum skrifum mínum að tjá sig á kurteisan og skiljanlegan hátt. Þeir sem eru of reiðir eða hliðhollir einum hópnum ættu að spara fúkyrðin og reyna að taka þátt í uppbyggilegri umræðu. Mig varðar ekkert um hvort menn vilja líkja Sharon eða Arafat við hina og þessa glæpamenn sögunnar, né heldur hvort Ísrael hagar sér eins og fasistaríki fjórða áratugar síðustu aldar. Þetta eru alvarleg málefni líðandi stundar og ef fólk getur ekki rætt þau af skynsemi og án upphrópana, þá er best að sleppa því alfarið. Ef menn/konur langar að gera hróp að einhverjum þá bendi ég þeim á að fara í kröfugöngu frekar en að haga sér barnalega á huga. Kærar þakkir.

—————————-
______________________________