Neitað að horfast í augu við vandamálin
www.framfarir.net

Á sl. fimmtudag var haldinn fundur í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu um rasisma. Mætti ég á fundinn við annan mann frá Flokki framfarasinna til að kynna mér málið enda flokkurinn alfarið á móti rasisma sem slíkum. Ætla ég að fjalla hér í nokkrum orðum um það helsta sem fram fór á fundi þessum.

Á fundinn voru mættir á að giska 30-40 manns og ljóslega fremur einsleitur hópur ef undan eru skildir við framfarasinnar sem mættir vorum. Það átti ennfremur eftir að sanna sig í þeim umræðum sem fram fóru þegar framsögumenn höfðu lokið erindum sínum. Flutti þrennt framsögur á fundinum, Guðrún Pétursdóttir forstöðumaður Miðstöðvar nýbúa, mannfræðingur sem mig minnir að hafi heitið Bogi og kona sem mun hafa gegnt hlutverki fundarstjóra.

Bannað að vera raunsær og skynsamur

Framsögur þessa fólks gengu allar út á það sama; að lofsyngja fjölþjóðasamfélagið, hvetja til þess að streymi útlendinga til landsins yrði gefið frjálst, úthúða öllum þjóðlegum hugsunarhætti og stimpla þá sem voguðu sér að hugsa öðruvísi en það sem rasista og ef það reyndist ekki hægt var notast við hið vafasama nýyrði “nýrasisti” til þess að skíta út andstæðinga sína.

Skilgreining þessa fólks, og þá einkum umrædds Boga, á hinum svokölluðum “nýrasistum” var vægast sagt skrautleg svo ekki sé minnst á einkennileg. Samkvæmt orðum hans voru “nýrasistar” m.a. þeir sem töluðu um raunsæi og skynsemi varðandi innflytjendamál og sem vildu fara hægt í sakirnar í þeim hlutum.

Guðrún Pétursdóttir taldi m.a. upp ýmis meint atriði þar sem illa hefði verið komið fram við innflytjendur á Vesturlöndum og nefndi í þeirri upptalningu t.d. að innflytjendur væru brenndir inni í Þýskalandi. Það er að vísu alveg rétt að slíkt hefur komið fyrir þar í landi en gallinn er bara að þar eigast við tveir hópar innflytjenda, Tyrkir og Kúrdar. Vandamálið er því innflutt í báðum tilfellum. Hvort þetta er viljandi gert af Guðrúnu að eigna innfæddum Þjóðverjum að ósekju þessa glæpi skal ég þó ekki segja.

Skömmuðust framsögumenn ennfremur yfir stjórnvöldum og þá einkum fyrir að hafa ekki bannað samtök hér á landi sem vilji draga úr straumi innflytjenda til landsins. Að auki voru ýmsir einstaklingar teknir fyrir s.s. Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra og Jónas Kristjánsson ritstjóri Fréttablaðsins og var þeim borin á brýn útlendingaandúð og fleira vafasamt.

Neitað að horfast í augu við raunveruleikann

Þegar framsögum lauk var opnað fyrir fyrirspurnir og eftir smá þögn greip ég orðið. Ég spurði Boga hvort framsögumenn hefðu einhverjar lausnir fram að færa í stað þeirra leiða sem þeir eignuðu svokölluðum “nýrasistum”. Kom þá fát á Boga og vissi hann greinilega ekkert hverju svara ætti. Fór að lokum svo að Guðrún sagði að þau viðurkenndu einfaldlega ekki að nein vandamál fylgdu innflytjendum og þess vegna þyrftu þau ekki að benda á neinar lausnir.

Ég furðaði mig stórlega á þessum einkennilegu og ábyrgðarlausu svörum sem ganga ljóslega einungis út á það að stinga hausnum í sandinn og neita að horfast í augu við raunveruleikann. Benti ég á að nær allsstaðar í heiminum hefði það gengið hörmulega að reyna að láta gjörólíka menningarheima búa saman í einu ríki. Þau neituðu þessu og sögðu að ekkert mál væri að samlaga tvo eða fleiri ólíka menningaheima í hvelli. Ég spurði þau hvernig í ósköpunum þeim dytti slíkt í hug þegar dæmin um hið gagnstæða væru ljóslifandi allt í kringum okkur í heiminum. Skýringin sem gefin var var sú að öll værum við einstaklingar, hvað sem því var annars ætlað að útskýra.

Í andstöðu við félagsmálaráðherra

Páll Pétursson, félagsmálaráðherra leit við á fundinum og hafði stutta tölu. Sagði hann þar m.a. að ekki væri nema eðlilegt og skiljanlegt að menn vildu stíga hægt til jarðar í þessum málum og fara varlega í hlutina svo ekki færi illa. Eftir tölu sína yfirgaf Páll samkvæmið. Nokkrir aðrir fundarmenn tóku og til máls en þar var um að ræða afskaplega einsleitan hóp, sem fyrr segir, sem sagði já og amen við öllu því sem framsögumenn höfðu fram að færa eftir því sem best virtist.

Eftir fundinn átti ég orðastað við mannfræðinginn Boga og spurði hann hvernig hann fengi það eiginlega út að það væri slæmt að vilja sýna raunsæi og skynsemi varðandi innflytjendamál. Hann fór fyrst í stað mikinn í útskýringum sínum og sagðist m.a. hafa ætlað að gagnrýna Pál Pétursson fyrir að segja að eðlilegt væri að vilja stíga hægt til jarðar í þessum málum en að Páll hafi verið of fljótur að yfirgefa fundinn. Páll Pétursson hefur s.s. með þessum orðum sínum gerst sekur um “nýrasisma”.

Eftir frekar stutt samtal var Bogi þó kominn í andstöðu við margt af því sem hann hafði áður sagt í framsögu sinni og farinn að bakka með ýmis atriði, m.a. það að eitthvað væri að því að sýna skynsemi og raunsæi í innflytjendamálum. Hann stóð þó enn sem áður fast á ýmsum atriðum og þ.á.m. að ekkert mál væri að skella tveimur ólíkum menningarheimum saman á augabragði svo vel væri.

“Hvaða kostnaður er af innflytjendum?”

Bar nú Guðrúnu Pétursdóttur að og tók hún þátt í samræðunum. Barst talið að þeim aukakostnaði sem þjóðfélög yrðu að greiða vegna innflytjenda. Sagði Guðrún þá: “Hvaða kostnaður er af innflytjendum?”. Þetta útspil Guðrúnar koma vissulega flatt upp á mig enda með eindæmum barnalegt svo ekki sé fastara að orði kveðið. Einmitt á þeirri stundu vorum við t.a.m. stödd í húsnæði sem kostar íslenska skattgreiðendur 44 milljónir árlega, fjárútlát sem ekki kæmi til ef engir væru innflytjendurnir hér á landi. Ekki svo að skilja að ég sé að hvetja til þess að engir innflytjendur ættu að vera hér á landi en þetta svar Guðrúnar lýsir einfaldlega alveg ótrúlegri fáfræði.

Guðrún vildi ekki viðurkenna að nokkur vandamál fylgdu innflytjendum, eins og áður hefur komið fram, og benti t.d. á að glæpir innflytjenda hér á landi væru ekki meiri en innfæddra skv. tölum frá Ríkislögreglustjóra. Við sögðum við hana að það gæti vel verið - enn sem komið væri! Annað væri hins vegar uppi á teningnum erlendis, eins og t.d. á hinum Norðurlöndunum, og nefndum við nokkur tölfræðileg dæmi því til sönnunar. Þannig yrði staðan að öllum líkindum hér á landi innan tíðar ef ekki yrði gripið í taumana í tæka tíð og því afstýrt.

Kom á daginn að Guðrún hafði ekki hugmynd um glæpatíðni innflytjenda á hinum Norðurlöndunum þrátt fyrir að hún sé á launum hjá hinu opinbera við að fást við þessi mál. Og svo segist þetta fólk ætla að berjast gegn fáfræði annarra og uppfræða fólk. Það ætti kannski að byrja á að taka aðeins til heima hjá sér fyrst?

Lauk síðan samtalinu stuttu síðar og við héldum á braut eftir að hafa þakkað fyrir okkur.

Hjörtur J.
Með kveðju,