Innflytjendur til Danmerkur gangist skriflega undir ákveðin búsetuskilyrði
(www.framfarir.net)

Til stendur að gera innflytjendum til Danmerkur að gangast skriflega undir ákveðin skilyrði fyrir því að fá að setjast að í landinu í líkingu við það sem t.a.m. er gert í Kanada og fyrirhugað er að taka upp í Bretlandi. Um þetta er víðtæk samstaða í danska þjóðþinginu og eru þær t.a.m. studdar heilshugar af jafnaðarmönnum.

Hugmyndin er að innflytjendur undirriti samning þessa efnis við það sveitarfélag sem þeir setjast að í og að sveitarfélögunum verði gefnar nokkuð frjálsar hendur um efni þeirra og innihald. Dæmigert skilyrði í þessum samingum mun verða að innflytjendur skuldbindi sig til að læra dönsku.

“Viðkomandi samningar munu innihalda skýrar kröfur sem sérhverjum útlendingi verður gert að gangast undir. Ef innflytjendur standa ekki við samninga sína mun það kalla á refsingar”, sagði Bertel Haarder, ráðherra innflytjendamála í Danmörku, í viðtali við Jótlandspóstinn nú fyrir helgina.

Tilgangurinn með þessum aðgerðum er að tryggja meiri árangur í aðlögun innflytjenda með auknum kröfum og skilyrðum sem innflytjendum og flóttamönnum sé gert að uppfylla. Auk þess sem þessir hópar verða skyldaðir til að læra dönsku verður einnig t.a.m. gerð sú krafa að þeir taki virkan þátt í dönsku félagslífi. Aðgerðirnar munu leysa af hólmi fyrri áætlanir danskra sveitarfélaga um aðlögun sem hafa reynst ónothæfar.

Sem fyrr segir eru jafnaðarmenn samþykkir aðgerðunum. Danski þjóðarflokkurinn er meira tvístígandi. Hefur flokkurinn m.a. lýst áhyggjum sínum af því að aðgerðirnar leiði til þess að flóttamenn verði gerðir að innflytjendum. Kristilegi þjóðarflokkurinn styður aðgerðirnar hins vegar. sama er að segja um róttæka vinstrimenn sem þó leggja áherzlu á að samningarnir verði einnig skuldbindandi fyrir sveitarfélögin en ekki bara fyrir innflytjendur.

Heimild:
“Flertal for kontrakter for udlændinge” - Jótlandspósturinn 21. mars 2002.

Hjörtur J.

(Es. Og sérstaklega fyrir Tittu vinkonu mína: http://www.jp.dk/dbp/internetavisen/indland/artikel&art_id=3632923 :))
Með kveðju,