þetta er tekið af visir.is , en það sem mig langaði að koma inn í umræðuna er hvað við er átt með óraunhæfum launakröfum ?. ég tel að maður þurfi um 250 þús úrborgað til að geta lifað mannsæmandi lífi. þegar maður er að leigja eða kaupa og svo matur, rafmagn og hiti.

—————————————————————

@kynslóðin hristir upp í atvinnulífinu
Ný kynslóð, svonefnd @ - kynslóð hefur verið að koma á vinnumarkaðinn. Þetta er fólk sem er fætt á tímabilinu 1977 - 1992 og er arftaki X - kynslóðarinnar. Þessi kynslóð mun starfa á sama vinnustað að hámarki í 2 ár. Þá er leitað á önnur mið þar sem hæfileikarnir nýtast betur og nýir möguleikar opnast til meiri frama.

Það mun ekki starfa eins og venjulegt launafólk heldur sjálfstætt starfandi og sífellt leitandi. Einkennandi fyrir þetta fólk er að það er sjálfhverft, horfir björtum augum til framtíðarinnar og er afskiptalaust gagnvart stjórnvöldum. Samkeppnisstaða fyrirtækja, uppbygging og skipulag mun ráðast af því hvernig þau ná að hagnýta þekkingu og hæfni þessara starfsmanna sinna.

Þetta eru kenningar Sören B. Hendriksen framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu í Danmörku. Þær hafa vakið mikla athygli og umtal þar ytra. Viðbúið að svo geti einnig orðið hér á landi. Sören mun ræða þessa kenningu sína á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu, SVÞ, sem haldinn verður á Hótel Sögu í dag, fimmtudag.

Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri SVÞ segir að verslunarmenn muni örugglega kannast við þessa lýsingu á sumu yngra starfsfólki sínu. Það sé m.a .með óraunhæfar hugmyndir um háar kaupkröfur þar sem viðmiðið er síðasta góðæri. Raunveruleikinn sé hins vegar sá að atvinnuleysi hefur verið að aukast í þessum hópi. Hann segir að hið jákvæða við þessa kynslóð sé hversu metnaðarfull hún sé.

Á hinn bóginn sé þessi kynslóð jafnvel harðari í samskiptum sínum en þeir eldri. Sem dæmi nefnir hann að gamla handabandið sé nánast orðið einskis virði. Þá halda jafnvel ekki undirskrifaðir samningar. Það sé því lítið um heiður og æru ef það þjónar ekki þeim tilgangi sem að sé stefnt. Við þessu sé ekki hægt að bregðast á annan hátt en að negla allt fast í endalausum samningum.