Haltu þér saman! Af kynningarfundi umhverfisráðuneytisins Í gær fór fram fyrirlestur á vegum umhverfisráðuneytisins um árangur COP15 (loftslagsráðstefnu sameinuðu þjóðanna) í síðastliðnum mánuði. Það sem var athyglisvert við þessa samkomu var hversu vel hún endurspeglaði hina stærri loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn, þar sem leiðtogar fá að tjá sig óáreittir á meðan almúginn er barinn niður.

Á fundi þessum var sungin lofgjörð um nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu leiðtoga stærstu ríkja heims, kurteislega klappað fyrir framsögumönnum og hlegið í vinsemd að tæknilegum örðugleikum. Það sem fram kom var hins vegar hið venjubundna innihaldsrýra froðusnakk um nauðsyn þess að sameinast um að minnka losun og að hluta lausnarinnar væri að finna í viðskiptakerfi með loftslagsheimildir, þar sem einungis væri um smávægilega spillingu að ræða innan þessa viðskiptakerfis (sjá hér). Einnig var rætt um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, en lítið rætt um önnur lönd. Að þessu loknu var rætt um nauðsyn þess að halda jöfnu kynjahlutfalli í umræðum um loftslagsvandann.

Allt var þetta gott og blessað, kurteislega var komist að orði og var samkundan að mörgu leyti áþekk hinni stærri ráðstefnu, þar sem fagmannlega var sleppt að tala um allt sem skipti máli, þ.e því að ekki sé hægt að viðhalda efnahagskerfi sem grundvallast á hagvexti, olíu og vopnaframleiðslu, og á sama tíma minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Eins var með öllu sleppt að minnast á óréttláta skiptingu heimsins í þróuð lönd og þróunarlönd og hversu mikla ábyrgð við berum á því hvernig staðan er í dag. Farið var með fögrum orðum um það að Ísland hefði ekki beðið um framlengingu hins vandræðalega sérákvæðis um aukna stóriðju því til allrar hamingju hefðu náðst samningar um að við yrðum hluti af viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir og því getum við haldið áfram að byggja upp stóriðju hér svo framarlega sem mengun dragist saman annars staðar í Evrópu.

Hin raunverulega ásýnd fundarins kom ekki fram fyrr en opnað var fyrir spurningar, en þar passaði fundarstýra sig á því að skauta fagmannlega fram hjá þeim sem hún taldi sig vissa um að væru ekki sammála froðusnakkinu og væru líklegir til þess að spyrja óþægilegra spurninga eða segja frá vandræðalegum staðreyndum. Varaði hún sig einnig á að horfa einungis í annan hluta salarins, þar sem hina prúðari gesti var að finna og hærra hlutfall þingmanna og annarra þekktra andlita sem fengu óáreittir að spyrja langra spurninga með mörgum aukasetningum.

Loks er ein óánægjurödd fékk orðið reyndi fundarstýra eftir fremsta megni að grípa fram í og stöðva málflutninginn og upphófst við þetta mikil háreysti, þar sem nokkrir fundargestir tóku þátt í því að þagga niður óánægjuröddina, á meðan aðrir horfðu forviða á. Var að lokum gerð sú hótun að henda út vissum aðilum. Segja má að þessi uppákoma hafi verið smækkuð mynd þeirrar sem átti sér stað hinn 16.desember sl, þegar gerð var tilraun til þess að þagga niður í óánægjuröddum grasrótarsamtaka og þau gerð útlæg frá Bella Center en þó var þeim ekki leyft að komast út og ekki leyft að tala við fjölmiðla. Með öðrum orðum átti sér stað algjör þöggun því þau voru ekki að segja það sem leiðtogunum hentaði.

Á sama tíma er athyglisvert að skoða viðbrögð almennings við slíkri þöggun. Vitanlega eru þau mismunandi eftir því um hvern ræðir, en allt of oft eru þau hliðholl þeim sem kæfir niður andófið. Það er vegna þess að fólk samsamar sig samfélaginu sem það býr í og öll gagnrýni sem beint er að samfélaginu er álitin persónuleg árás á viðkomandi. Um er að ræða óþægilega vitneskju sem flestir vilja ekki heyra því þær þýða það að róttækra breytinga er þörf og þeim nenna margir ekki að standa í vegna þess að þrátt fyrir allt lifum við ágætlega þægilegum lífum. Um leið finnst fólki óþægilegt hvernig gagnrýnin er sett fram og þar af leiðandi lokar það öllum skilningarvitum og kýs að hlusta ekki á boðskapinn. Við erum alin upp í kerfi sem metur hlýðni og kurteisi ofar réttlætiskennd. Þess vegna stuðar það okkur meira ef einhver er óhlýðinn heldur en ef hann hagar sér gagnstætt sannfæringu sinni. Umfram allt viljum við að samskipti manna gangi smurt fyrir sig, að við geymum tilfinningar okkar þar til í myrkvuðum herbergjum um nætur þar sem við getum loks opnað hjörtu okkar bara til þess að loka þeim og læsa er birtir á ný. Þess vegna púum við á fólk sem hagar sér ekki svona, sem stendur upp á fundum og lætur tilfinningarnar stýra sér, hefur réttlætiskennd að leiðarljósi og neitar að láta þagga niður í sér. Er það ef til vill vegna þess að þannig langar okkur líka að vera en þorum því ekki? Vegna þess að við erum hrædd við álit annarra ef við sýnum okkar raunverulegu tilfinningar?

Svartsokka