Afleiðingar höfnunar Icesave
Samkvæmt öllum könnunum eru 65-70% þjóðarinnar á móti frumvarpi um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda, sem almennt er kallað Icesave-frumvarpið.
En ég er einn af 30-35%-unum sem telja að það verði að afgreiða þetta mál og samþykkja það.
Afleiðingar þess að frumvarpinu væri hafnað eru ófyrirsjáanlegar. Engin erlend lán að ráði myndu berast okkur, hvorki ríkinu né einkaaðlinum.
Ég er enginn fjármálasnillingur og get ekki gert grein fyrir beinum efnahagslegum afleiðingum höfnunar Icesave, en ég get sagt nokkurn veginn hvernig stjórnmálin myndu þróast.

Atburðarrás 1 - Alþingi hafnar Icesave (líklegust að mínu mati ef Icesave yrði hafnað)

Órólega deildin innan Vg yrði til þess að Alþingi hafnar Icesave-samkomulaginu naumlega, mjög seint í desember eða snemma í janúar. Ríkisstjórnin springi og við tæki stjórnarkreppa, sem yrði líklega leyst með því að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mynduðu bráðabirgðaríkisstjórn.
Við getum kallað þá stjórn hrunsstjórnina hina síðari. Enginn af flokkunum gæti unnið með Vg, flokkurinn væri einfaldlega of laskaður.
Jóhanna Sig myndi líklega hætta í pólitík og líklega Steingrímur, en sá kappi gefst aldrei upp fyrr en í fulla hnefana (það vita andstæðingar hans full vel).
Bjarni Ben myndi líklega gera þá kröfu að verða forsætisráðherra, Samfylkingin gæti ómögulega sætt sig við það svo að ég get ekki sagt til um hvor flokkurinn færi með verksstjórnina. Hrunsstjórnin kæmi engu í verk, endalausar innbirgðisdeilur og varla væri hægt að tala um ríkisstjórn.
Á meðan sú ríkisstjórn ríkti versnar ástandið gríðarlega.
Við tekur hatrömm kosningabarátta, þar sem hrunsstjórnin tækist gríðarlega á við sjálfa sig. Kosningabaráttan myndi einkennast af reiði, ásökunum og óvissu. Þjóðin treystir ekki nýjum flokkum, það hefur sýnt sig. Frjálslyndir eru búnir að vera og Borgarahreyfingin sömuleiðis.
Þjóðin hefði engan annan kost en Fjórflokkinn. Í kosningunum myndi Sjálfstæðisflokkurinn líklega bæta við sig fylgi, Framsókn myndi sjálfsagt fá 18-20% og þessir flokkar gætu myndað ríkisstjórn.
Við getum kallað þá stjórn hringastjórnina (allt er farið að snúast í hringi).
Hringastjórnin þyrfti að taka við rústunum eftir sjálfa sig, eftir að þessir flokkar voru í ríkisstjórn saman áður.
Verkið væri stjórninni ofviða. Hringastjórnin gæti ekki lækkað þá skatta sem hún var svo algjörlega á móti (skattahækkanirnar undanfarið) og gæti skorið lítið sem ekkert niður, atvinnuleysið blossaði upp og krónan falla frekar en styrkjast.
Sennilega myndi allt ganga í annan hring og hringastjórnin falla að lokum.

Atburðarrás 2 - Alþingi samþykkir Icesave en forsetinn hafnar (nokkuð ólíklegt)

Alþingi samþykkir Icesave naumlega en Ólafur forseti hafnar frumvarpinu (hversu líklegt sem það væri). Ríkisstjórnin hefur þann möguleika að draga málið til baka og koma í veg fyrir þjóðaratkvæðið en gerir það ekki ekki.
Ríkisstjórnin ókyrrist í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar og veit að dagar sínir eru taldir.
Úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni væru afgerandi NEI og stjórnin færi frá. Stjórnarandstaðan gæti ómögulega unnið með Samfylkingunni eða Vg svo að forsetinn gæti skipað utan þingsstjórn með stuðningi stjórnarandstöðuflokkanna þriggja og væntanlega óopinberum stuðningi einhverra þingmanna Vg og Samfylkingarinnar. Til yrði utan þingsstjórn með beinum stuðningi 28-30 þingmanna, sem sagt minnihlutastjórn sem hefði þann til gang að undirbúa enn einar kosningarnar.
Landinu myndi blæða.

Atburðarrás 3 - Icesave hafnað og við tæki ný ríkisstjórn (mjög ólíkleg)

Icesave yrði hafnað naumlega. Jóhanna og Steigrímur segðu af sér, og Katrín Jakobsdóttir yrði líklega neydd til að segja af sér sem varaformaður Vg.
Ögmundur gæti tekið við sem formaður Vg, og myndað ríkisstjórn með Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Við getum kallað þá stjórn Antistjórnina (gæti þýtt Anti-Icesavestjórnin eða Andstæðustjórnin).
Bjarni Ben gerir skiljanlega kröfu um forsætisráðherrastólinn. Ögmundur samþykkir það, enda flokkur Bjarna stærri og nýtur góðs fylgis um þessar mundir. Sigmundur Davíð styður Bjarna Ben í þessari kröfu.
Antistjórnin gæti lifað nokkuð lengi, jafnvel út kjörtímabilið ef rétt er haldið á spilunum, en samstarf þessara þriggja flokka er útilokað til langframa.
Andstæður geta þó oft unnið vel saman ef markmiðið er það sama.
Auðvitað yðru deilur innan stjórnarinnar, um skattamál og svoleiðis nokk en ég tel að þessi stjórn gæti átt ágæta lífsmöguleika.
En ég er ekki viss um að sú stjórn væri þess vaxin að takast á við vandamálin og hlutverk hennar gæti þróast í það að verða undirbúningsstjórn fyrir kosningar.


Þetta eru nokkrar pælingar, en ég tel að Icesave verði samþykkt, naumlega og stjórnin myndi missa fylgi og stjórnarandstaðan græða á kostnað stjórnarinnar.
En mér þætti virkilega fróðlegt að sjá hvernig núv. andstaða tækist á við þau vandamál sem Rauð-Græna stjórnin tekst á við núna.
Ég nefni nokkur stjórnarmynstur; Hrunsstjórn (D og S), Hringastjórn (B og D), Utan þingsstjórn (með þingstuðningi eða ekki), Antistjórn (B, D og stærri hluti Vg) og loks núv. ríkisstjórn, þá Rauð-Grænu.
Af þessum kostum myndi ég án efa velja þá Rauð-Grænu.
En endilega segið ykkar skoðun: ertu Icesaveisti eða Anti-Icesaveisti?
Það er nefnilega það.