Ekki hef ég mikið til saka unnið annað en að hafa staðið á hliðarlínunni í góðærinu. Reyndar var ég ekki á hliðarlínunni, ég var í áhorfendastúkunni. Ég keypti mér miða til að fylgjast með góðærinu með bílaláni, námslánum, neyslulánum og einstaka eintaki af Séð og Heyrt. Ekki var ég ríkur og ekki er ég það í dag, samt á ég ásamt öllum hinum Íslendingunum að greiða fyrir góðæri annarra sem voru ögn meira grand en áttu heldur ekki fyrir aðgangseyrinum að skemmtuninni.

Að mér sýnist, þá gera stjórnvöld allt sem í þeirra valdi stendur til að forðast að reikningurinn sem sendur er þjóðinni sé sundurliðaður, hvað þá útskýrður. Mér vægast sagt gremst þessi framkoma þar sem ég geri almennt þá kröfu að vita fyrir hvað ég er að borga.

Upphæðir hafa verið á reiki, skilgreiningar á skuldbindingum hafa verið á reiki, hver er í ríkisstjórn hefur verið á reiki, skoðanir stjórnmálamanna hafa verið á reiki og þessi upplausn sem skapast hefur í kjölfarið er ekki vandamál í augum stjórnmálamanna, þvert á móti nýta þeir sér hana því almenningur þráir öryggi og er auðtrúa á lausnir sem hljóma auðveldar og þægilegar.

Margir mála þó skrattann á vegginn og segja enga lausn á vandanum aðra en sína, sem sé sú eina rétta. Oft hef ég fengið það á tilfinninguna að vísvitandi sé spillt fyrir hagsmunum almennings í þeim tilgangi að gera eina lausn vandans auðfengnari en aðra.

Máli mínu til stuðnings bendi ég á augljósar staðreyndir sem tala sínu máli.


1) Ekkert yfirvald hefur úrskurðað um hver ábyrgð Íslendinga er í þessu máli og engin lög eða reglur segja beinum orðum að íslenska ríkið þurfi að axla ábyrgð á þessum vanefndum bankanna. Þvert á móti er minnst ítrekað á í EES samningnum að það megi fara framhjá skilmálum með verndaraðgerðurm „e.protective measures“ þegar hætta steðjar að efnahag viðkomandi aðildarríkis „…where such difficulties are liable in particular to jeopardize the functioning of this Agreement“.

2) Samningaþóf sem endar með fullkominni eftirgjöf af hálfu annars aðilans bendir til að einhverskonar forsendubrestur hafi orðið hjá þeim samningsaðila á þann veg að hann gat ekki staðið fastur á kröfum sínum. Þessi forsendubrestur hefur ekki verið gerður opinber og því læðist að mér sá grunur að hagsmunir almennings séu fyrir borð bornir í þeim tilgangi að uppfylla pólitísk markmið eins stjórnmálaflokks.


Slíkt dugleysi, slíkan kæruleysisskap og slík landráð verður að upplýsa. Hverjar ástæðurnar eru fyrir þessari uppgjöf ríkisstjórnarinnar hljóta að vera sérstakar en það verður að upplýsa hverjar þær eru.

Við erum sjálfstæð þjóð bundin af alþjóðlegum lögum og reglum, rétt eins og við erum sjálfstæðir einstaklingar bundnir af íslenskum lögum og reglum.

Við greiðum ekki afborganir af skuldum nágranna okkar sem einstaklingar og við ættum ekki að gera það sem þjóð. Hér á Íslandi gilda lög um hvað má taka af okkur ef við verðum gjaldþrota, við getum ekki orðið þrælar skulda okkar um aldur og ævi og stjórnvöld ættu ekki að gangast við slíkri skuldbindingu sjálfviljug.

Í þessu samhengi vil ég benda á að mörg lönd í heiminum standa ekki við skuldbindingar sínar um mannréttindi, mengun, pólitísk afskipti eða peninga.

Strikum þessa skuld út á móti einhliða ákvörðun Breta um að menga Atlantshafið með úrgangi Sellafeild, þetta yrði þeirra samfélagslegi kostnaður við að menga undirstoðir íslenskrar velmegunar um aldur og ævi.

Eyðum óvissunni og segjum einfaldlega nei við að borga þetta fyrr en í fulla hnefana. Við skulum taka afleiðingunum. Ein á báti er íslenska þjóðin samkeppnishæfari á alþjóðamarkaði en bundin og kefluð af erlendum lánadrottnum.

Erum við hrædd um að vera mismunað?

Að færa fórnir í hlutfalli við hagvöxt er að greiða tíund af allri okkar afkomu í tugi ára, það munum við aldrei ná að hrista af okkur. Slíkur samningur gefur þessum þjóum færi á að halda okkur niðri um óákveðinn tíma.

Ef vogunarsjóðir gátu leikið sér með okkar efnahag, þá geta Bretar og ESB gert það líka.

Treystum við þessum löndum nógu vel til að gera svona samning við þau?

Treystum við þeim til að fella ekki gengi okkar gjaldmiðils reglulega til að viðhalda skuldinni?

Eina leiðin til að ná einhverntíman að greiða þessa skuld ef við skuldbindum okkur til að greiða hana, er að ganga í ESB og taka upp Evru í stað íslensku krónunnar.