Opinber skýrsla um stöðu innflytjendamála í Danmörku gefin út
www.framfarir.net

Þann 31. janúar sl. var gefin út í Danmörku opinber skýrsla um stöðu innflytjendamála þar í landi sem samin var af nefnd sérfræðinga fyrir ríkisstjórn landsins. Í skýrslunni er bæði fjallað um núverandi stöðu innflytjendamála í Danmörku og einnig hver staðan verði eftir tuttugu ár ef áfram heldur líkt og undanfarin ár.

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að heildaríbúafjöldi Danmerkur muni aukast um 6,1% frá 2001 til 2021. Á sama tíma er hinsvegar gert ráð fyrir að fjöldi innflytjenda og afkomenda þeirra muni nær tvöfaldast, þ.e. aukast um 88,4%. Innflytjendur muni þannig verða um 13% af heildaríbúafjölda landsins árið 2021 miðað við 7,4% eins og staðan er í dag.

Í dag er fjöldi innflytjenda í Danmörku um 400 þúsund af heildaríbúafjölda upp á rúmlega fimm milljónir, en gert er ráð fyrir að þeir verði á bilinu 750 til 800 þúsund árið 2021. Ennfremur er gert ráð fyrir að um 60% af innflytjendum næstu tuttugu árin muni koma frá svokölluðum minna þróuðum þriðjaheimslöndum, eins og Tyrklandi, Sómalíu og Pakistan, eða rúmlega 445 þúsund manns sem er tvöfalt fleiri en eru frá þessum löndum í Danmörku í dag.

Ástæða þess hve fjölgun innflytjenda er mikið meiri í Danmörku en innfæddra er einföld. Innflytjendur einfaldlega eignast að meðaltali miklu fleiri börn en Danir. Danskar konur eignast að meðaltali 1,7 barn á ári á meðan að konur frá þriðjaheimslöndum eignast að meðaltali 3,3 börn, eða um tvöfalt fleiri.

Skýrslan hefur aukið mjög á umræðuna í Danmörku um innflytjendamál, en samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Dana hlynntur aðgerðum dönsku ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda. Gera má fastlega ráð fyrir að niðurstöður skýrslunnar séu ekki til að minnka stuðning dönsku þjóðarinnar við aðgerðirnar.

Nefndin sem samdi skýrsluna var skipuð af fyrri ríkisstjórn Danmerkur, undir forystu Pouls Nyrup Rassmussens, og var skipuð helstu sérfræðingum Dana í þessum málum auk fulltrúa frá innflytjendum. Verkefni nefndarinnar er að semja fjórar skýrslur um ýmsar hliðar innflytjendamála og er þessi skýrsla önnur í röðinni. Sú fyrsta innihélt tillögur nefndarmanna um ráðstafanir til að stuðla að því að innflytjendur aðlöguðust dönsku þjóðfélagi. Ráðstafarnir núverandi ríkisstjórnar Danmerkur í innflytjendamálum munu einmitt vera byggðar að miklu leyti á skýrslum þessarar nefndar.

Síðar á þessu ári mun síðan þriðja skýrsla nefndarinnar koma út og mun hún innihalda tillögur um það hvernig taka eigi á málum þeirra innflytjenda sem eiga eftir að koma til Danmerkur á komandi árum og hvernig leysa eigi þau vandamál sem það kemur til með að hafa í för með sér.

Heimildir:
http://www.jp.dk - Jótlandspósturinn. 30. janúar, 2002.
http://www.jp.dk - Jótlandspósturinn. 31. janúar, 2002.

(Ath. Samið upp úr viðkomandi tveimur greinum. Allar upplýsingar í greininni koma úr umræddum greinum. Þetta er tekið fram til að koma í veg fyrir að menn fari að skamma mig persónulega fyrir það sem fram kemur í Jótlandspóstinum. Spurning um að skjóta ekki sendiboðann :))

Hjörtur J.
Með kveðju,