Móðurmálskennsla fyrir útlendinga aflögð í Danmörku
www.framfarir.net

Danska ríkisstjórnin hyggst fella niður alla móðurmálskennslu fyrir útlendinga í ríkisreknum grunnskólum landsins. Er þetta m.a. liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að minnka gífurlegan kostnað ríkisins af innflytjendamálum.

Ein aðalástæða þessa er ennfremur, að sögn talsmanns ríkisstjórnarflokksins Venstre Gitte Lillelund Bech, sú reynsla Dana að móðurmálskennsla útlendinga dragi verulega úr líkunum á því að þeir aðlagist dönsku þjóðfélagi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni verða til þess að auka til muna líkurnar á aðlögun þeirra. Jafnaðarmenn hafa gagnrýnt þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar á þeim forsendum að þær muni leiða til þess að múslimsk ungmenni sæki frekar í múslimska einkaskóla og svokallaða kóran-skóla.

Ríkisstjórnin hyggst einmitt auka mjög eftirlit með slíkum múslimskum einkaskólum og kóran-skólum í Danmörku. Er ekki síst gripið til þeirra aðgerða vegna fjölda ábendinga um að í þessum skólum sé kynt undir trúarlegum öfgum meðal ungra múslima auk þess sem rekinn sé þar áróður gegn dönsku þjóðfélagi og lýðræðinu í landinu. Ríkisstjórnin hefur þó ákveðið að láta ekki undan þeim þrýstingi ýmissa aðila í Danmörku að banna skóla múslima.

Um þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að auka eftirlit með skólum múslima, er víðtæk samstaða í danska þjóðþinginu og eru þær m.a. studdar af Jafnaðarmannaflokknum. Talsmaður flokksins í menntamálum, Frank Jensen fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í viðtali við Jótlandspóstinn að vald menntamálaráðuneytinsins til eftirlits með skólum múslima yrði aukið verulega og að með eftirlitinu yrði reynt að tryggja að þeir störfuðu í samræmi við grundvallarreglur dansks þjóðfélags. Ennfremur yrði séð til þess að skólar múslima bæru mun meiri ábyrgð en hingað til á því að múslimar aðlöguðust dönsku þjóðfélagi.

Heimild:
Jótlandspósturinn 26. janúar 2002 - www.jp.dk

(Greinin er samnin upp úr þeim upplýsingum sem fram koma í fyrrnefndri frétt í Jótlandspóstinum. Allar þær upplýsingar sem fram koma í greininni koma úr umræddri frétt.)

Hjörtur J.
Með kveðju,