Evrunni gæti fylgt aukin verðbólga og hærri vextir
www.framfarir.net

Nefnd þekktra sænskra hagfræðinga hefur gefið út skýrslu þar sem varað er við því að upptaka evrunnar í Svíþjóð gæti orðið til þess að auka á efnahagslegan óstöðugleika í landinu. Niðurstaða fræðimannanna er sögð vera mikið áfall fyrir sænska Evrópusambandssinna og þá einkum og sér í lagi fyrir Göran Person forsætisráðherra Svíþjóðar. Kemur þetta m.a. fram í breska dagblaðinu The Daily Telegraph.

Nefnd þessari var falið að meta kosti og galla þess að taka upp evruna í Svíþjóð og hefur skýrslu hennar verið beðið með töluverðri eftirvæntingu. Svipuð niðurstaða nefndar danskra hagfræðinga er einmitt talin hafa haft mikil áhrif á danska kjósendur þegar þeir höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2000. Skýrsla dönsku hagfræðinganna var þó engan veginn eins afdráttarlaus og sú sænska.

Niðurstaða sænsku hagfræðinganna er í stuttu máli að vegna ósveigjanleika á vettvangi efnahags- og peningamála, sem myndi fylgja upptöku evrunnar í Svíþjóð, geti stjórnvöld þar neyðst til að grípa til annarra og dýrkeyptari úrræða til að reyna að halda stöðugleika í efnahagslífinu en hingað til hefur verið gripið til.

Vera kunni að aðild að myntbandalagi Evrópu leiði ekki til þeirrar lágu verðbólgu og þess lága vaxtastigs sem Evrópusambandssinnar hamra gjarnan á í áróðri sínum fyrir upptöku evrunnar. Þannig þurfi ríki þar sem hagvöxtur er mikill, svo sem Írland og Spánn, að fylgja afdráttarlausari peningamálastefnu til að koma í veg fyrir ofhitnun hagkerfisins en þar sem samdráttur ríki, t.a.m. í Þýskalandi.

Niðurstaða nefndarinnar er ekki aðeins talin vera mikið áfall fyrir Evrópusambandssinna í Svíþjóð heldur er hún einnig t.a.m. töluvert áfall fyrir Evrópusambandssinna í Bretlandi. Ríkisstjórn Tony Blair hefur einmitt lagt traust sitt á að Svíar samþykki upptöku evrunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í því skyni að geta rekið áróður, án tillits til staðreynda í málinu og efnislegra raka, fyrir því að Bretar sitji þar með eftir og hafi misst af lestinni.

Heimildir:
Morgunblaðið - 22. febrúar 2002
The Daily Telegraph - www.dailytelegraph.co.uk

Hjörtur J.
Með kveðju,