Nú fer að hefjast eitt uppáhaldstímabil knattspyrnuáhugamanna, sjálft heimsmeistaramótið. RÚV vildi ekki sýna boltann , en eins og kunnugt er keypti Norðurljós sýningarréttinn.

Nú þegar eru fótboltabullur á Íslandi farnar að huga að því að borga áskrift að Stöð 2 og Sýn og vegna gífurlegrar eftirspurnar er myndlyklakreppa hjá Norðurljósum. Norðurljós ákváðu að bregðast við með því að sækja myndlykla sem eru í höndum áskrifenda sem ekki hafa borgað áskriftargjöld í einhvern tíma.

Þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, eða hvað? Það kemur jú fram í notendaskilmálum Stöðvar 2 að myndlykillinn er í láni en ekki í eigu áskrifandans. En eru allir búnir að gleyma því þegar Stöð 2 gaf áskrifendum fingurinn á sínum tíma? Hér áður fyrr þurftu áskrifendur að kaupa myndlyklana dýrum dómum, en þegar Stöð 2 flutti til landsins nýja tegund myndlykla þá tóku þeir upp á því að lána áskrifendum myndlyklana þeim að kostnaðarlausu. Hvað varð um gömlu lyklana? Jú, þeir fóru beinustu leið í ruslið. Við þau sem áttum þessa gömlu lykla urðum að kyngja þeirra staðreynd að þeir voru gagnslausir og peningurinn farinn í vaskinn.

Ég skrifaði til Stöðvar 2 á sínum tíma og fékk þau svör að ekki hafi verið lengur hægt að fá varahluti í gömlu lyklana og því brá Stöð 2 á það ráð að leggja sjálft út í þann mikla kostnað að kaupa nýja myndlykla handa áskrifendum í stað þess að áskrifendur yrðu að kaupa sér nýjan. Það lítur út fyrir að hugarfarið hjá Stöð 2 og Norðurljósum sé að þjónusta við áskrifandann skipti ekki nokkru máli því þarna var okkur sagt að verið væri að gera okkur greiða, á meðan Stöð 2 var einfaldlega að bjarga sér fyrir horn fjárhagslega.