Innblástur þessa skrifa er Kastljós þáttur sem ég sá. Þar var viðtal við mann sem lenti í hræðilegu bílslysi með tvö börnin sín. Annað þeirra lést og hitt er lamað fyrir neðan mitti. Þess ber að geta að maðurinn átti ekki sök að slysinu heldur vítavert gáleysi annars ökumanns, sem hefur verið dæmdur til fangelsisvistar.
Það eru gífurleg átök í samfélaginu okkar. Núna eru að dynja yfir okkur afleiðingar græðgi og siðblindu nokkurra manna í samfélagi okkar, að viðbættum hlutfallslega fáum íbúum erlendra aðila. Ég leyfi mér að fullyrða að 95% mannskyns vilja helst búa tiltölulega öruggu lífi, búa í samfélagi við aðra á friðsaman hátt og geta einbeitt sér að uppeldi barna sinna og rækta í sér eiginleika sem eru þeim sjálfum og samfélaginu til góða.
Það eru ekki margir sem þurfa að eiga 15 fyrirtæki og vera millifæra upphæðir sem aðra dreymir bara um til að finnast þeir vera einhvað í heiminum. Það er þó greinilegt að sumir eru þannig.
„Your actions speak so load I can‘t hear a word you are saying“.
„Want to know what you belive in? Take a look at your actions, do not pay any attention to what your mind tells you.“
Núna er spillingin og vitleysan er alveg að ganga fram af manni. Manni blöskrar alveg hvernig fyrirtæki sem hafa mannlegan front eru algerlega handónýt samfélagstæki. Rökin sem eru mest notuð í einkageiranum eru: „Allir geta eignast hlut í fyrirtæki og þannig haft áhrif á stefnu fyrirtækisins“. Hinsvegar er það þannig að stærstu hluthafar allra stærri fyrirtækja eiga stærsta hlutann af því að þeir eru algerlega miskunarlausir í leit sinni að meiri gróða… og eignast því alltaf fleiri stærri hluta í fleiri fyrirtækjum og verða því ráðandi í stefnumörkun. Og stefnumörkunin er ávallt meiri gróði.
Ok, allt í góðu með ef þú ert að selja blýanta, pappír, tölvur, húsgögn og þessháttar. Verði þér að góðu, reyndu að græða eins og þú getur.
Þegar kemur að hlutum eins og tryggingum þá gengur þetta viðhorf ekki. Það er bara rugl að hafa gróðahugsjón í að reka apparat sem á að tryggja fólki bætur við slys, óhöpp, innbrot og hamfarir. Trygging er til staðar til að sameiginlega hjálpum við hvort öðru að komast yfir erfiðleika sem á okkur dynja. Lógíkin er að við lendum sjaldan öll í slysi eða hamförum á sama tíma.. við erum að dreifa áhættunni og þar að leiðandi að geta komist aftur á strik í lífinu eftir áföll í hinum ýmsu myndum.
Og viti menn, áföllin koma fyrir alla, margt af því sem gerist í umhverfi okkar höfum við ekki mikið um að segja. Hugmyndin um tryggingu eru félagslegar og siðfræðilegar… manneskjulegar. Ekki peningalegar.
Persónulega finnst mér ekki skynsamlegt að fyrirtæki og stofnanir sem sinna þessu hlutverki í okkar samfélagi séu reknar með hagnað fyrir hluthafa að leiðarljósi. Öll slík fyrirtæki ættu að vera í eigu almennings og að iðgjöld séu borguð með sköttum, beint og óbeint.
Einnig, til að forða þess að einhverjir skriffinsku plebbar séu að ákveða staðlaðar upphæðir í bætur fyrir fólk sem lendir í hræðilegum áföllum eins og fjölskyldan sem fjallað var um í Kastljósi ætti að koma saman bótanefnd, samansett af hlutlausum almenningi í landinu, svipað og kviðdómendur í Bandaríkjunum. Þá fyrst er möguleiki á einhverri mannlegri nálgun og réttlæti í þessu.
Hvernig er hægt að sætta sig við það að eina sem tryggingafélag þurfi að borga í dánarbætur sé útfararkostnaður? Hvernig er hægt að meta tjónið sem ungi drengurinn þarf að lifa með alla ævi á skitnar 15 milljónir samtals? Hvernig er hægt að sætta sig við að Tryggingafélögin geta beitt löggjafarvaldið þrýstingi til bæta inn klausu í lögin sem skerða bótaupphæð vegna þess að viðkomandi á að fá 130.000 kr. á mánuði frá 18 ára aldri til 67 ára. Hvaða bull er þetta eiginlega?
Það er verið að gera ráð fyrir því að þessi drengur muni hafa verið á lágmarkslaunum alla ævi. Það er verið að dæma hann til fátæktar. Ég vona reyndar að sjálfsögðu að hann muni spjara sig, en svona bætur eru okkur sem mannfólki til skammar. Eru löggjafarvaldinu til skammar, eru þingmönnum til skammar, eru tryggingafélögunum til háborrinar skammar. Skil ekki hvernig sumt fólk fer að því að sofa á næturnar.. nema að vera upplyfjað af kvíðastillandi eða róandi. Eða sé hreinlega alltaf í glasi til að geta deyft samviskubitið… ef það er þá einhver vottur af því.
Lögin í landinu eiga að ýta undir réttlæti. Það þýðir ekki að lögin eins og þau eru séu réttlæti. Sumir virðast samt algerlega samsama siðferðiskenndina með einhverju bókstöfum á pappa í bókum. Það er því miður ekki alveg hægt að binda siðferðiskenndina niður þannig. Við erum gædd eiginleikum eins og samkennd, innsæi, kærleik og mörgum fleiri, þetta er allt hluti af því að vera manneskja.
Við sem samfélag megum ekki hrapa aftur til baka í að treysta eingöngu á bókstafi á prenti þegar við erum að leysa úr svona málum. Þó margir vilji geta hannað lagakerfi sem gengur á autopilot, pottþétt og gallalaust, með engum smugum eða krufum þá er fjarstæða að halda að við séum einhverstaðar nálægt því í dag.
Þess vegna ítreka ég þá tillögu að við, manneskjunar í landinu, sinnum vafaatriðum og álita efnum sjálf, en treystum ekki á einhverja lobbísta til að niðurnegla hvern einasta einkahagsmunabókstaf í lögin. Við þurfum sveigjanleika til á ákvarða marga hluti á manneskjulegan hátt, þar sem gróði og hagnaður einhverra fyrirtækja á ekki að sitja í fyrirrúmi heldur hagur fjölskyldna og einstaklinga sem verða fyrir áföllum. Þar sem réttlæti, samkennd, skilningur, kærleikur og stuðningur á betur við heldur en staðlaðar tölur á blaði – sem taka meira mið af hagnaði hluthafa heldur en skaða þess sem verður fyrir tjóni.

Friður
radical