Frá fyrstu tíð hefur fólk deilt og stríð hafa verið háð. Við vitum það öll að án laga og reglna væru þegnar þjóða heimsins heldur betur illa settir. Í þeim hluta heimsins sem við búum í ríkir almenn sátt og samstaða. Ef upp koma milliríkjadeilur eru bandalög starfandi sem grípa inní áður en til illinda kemur. Ekki er þó hægt að segja að þeim sé stjórnað lýðræðislega þar sem mjög fáir aðilar fara með mest allt valdið, stríð eru þó ekki lengur ,,tæki” sem notað er í deilum milli þjóða í okkar hluta heimsins.

Ég hef verið að velta fyrir mér samskiptum annarra ríkja. Líkt og við erum nú að sjá milli t.d. Ísraels og Palestínu. Held að flestir séu sammála að nær ómögulegt virðist að þessar þjóðir nái saman svo friður komist á. Það er hálf furðuleg tilhugsun að í heiminum í dag séu á hverju degi fleiri fleiri manns að deyja í stríðum á milli þjóða og þjóðflokka sem við heyrum lítið sem ekkert af. Fólk sem er ekki sakhæft fyrir annað en að hafa fæðst í þeim hluta heimsins.

Málið er að það ríkir algjört stjórnleysi í samskiptum milli þjóða heimsins. Í milliríkjadeilum geta þjóðir deytt þegna hvors annars, eyðilagt heimili þeirra, brotið á almennum mannréttinum þeirra sem dæmi, án þess að brotþoli geti leitað réttar síns. Minni þjóðin verður að notast við mjög frumstæðar leiðir til að ,,verja sig” ef hún er ekki á ,,velunnara” lista stórveldanna. Spýtur og grjót duga skammt á herflugvélar, langdrægar eldflaugar og skriðdreka. Alveg sama hvor aðilinn hefur ,,rétt” fyrir sér. Það er auka atriði. Við sjáum dæmi þess í deilunni milli Ísraels og Palestínu nú. ,,Alheimslöreglan“ sem heimurinn býr við er stórveldi Bandaríkjanna. Það er mjög svo sorgleg staðreynd að stríðsbáknið þeirra virðist ávalt vera sofandi nema hagsmunum þeirra sé beint ógnað. En svo er hægt að spyrja: Af hverju ættu BNA skattgreiðendur að líða fyrir deilur í löndum er ekki varða þá beint?

Ef einstaklingur brýtur af sér eru lög og reglur sem taka á brotinu og viðeigandi refsing liggur fyrir. Þetta finnst öllum eðlilegt. Ef ríkisstjórn brýtur á annarri þjóð, hér erum við yfirleitt að tala um mun alvarlegri voðaverk en einstaklingar geta gert, eru hins vegar engin lög, reglur eða refsing til að taka á málunum.

Það er augljóst að einhverskonar alheimslögregla er nauðsýnleg til að taka á milliríkjadeilum. Það er einnig alveg jafn augljóst hversu hættulegt það er að fela þetta mikla vald einni þjóð líkt og nú er.

Alheimslögreglan verður að taka tillit til mismunandi hagsmuna, trúarbragða, viðhorfa og menningaheima. Bandaríkin eru gjörsamlega ófær um það, við sjáum þá aftur og aftur reyna þröngva vestrænum gildum uppá þjóðir heimsins. Gott dæmi þegar George Bush skipti heiminum svo eftirminnilega í tvennt eftir 11. sept. ,,Annað hvort ertu með BNA eða á móti…”. Svona einföldun á flóknum heimi gengur aðeins upp í ævintýrum og auðvelt að alhæfa um óbreytt heimsástand með óbreyttri alheimslöggæslu.

Við þurfum alheimlögreglu sem tekur á öllum milliríkjadeilum. Það á ekkert eitt ríki eða fleiri að vera yfir hana hafin. Í stjórn hennar þarf að sitja lýðræðisleg stjórn með ráðherrum úr öllum þjóðum heims. Þá og aðeins þá er hægt að ímynda sér hlutlausa og málefnalega lausn á milliríkjadeilum heimsins með hagsmunum og þörfum hverrar þjóðar sem forsendu að sátt.

Ég ætla enda þessa hugleiðingu mína á tilvitnun sem á vel við:

”The world is a dangerous place to live, not because of the people who are evil, but because of the people who don't do anything about it."
-Albert Einstein

kv
gg