„Holy shit“ hvað allt er erfitt þessa dagana. Það hafa ekki margir frá einhverju glaðlegu að segja og þeir sem eiga erfiðast ganga um í þegjanda hljóði, maður skynjar á návist þeirra að það er of erfitt að tala um hlutina.

Af einhverri forvitni fór ég að tala um í ýmsum félagsskap hvort best væri ekki aðflytja af klakanum og koma svo kannski aftur þegar vandamálin væru farin, einhver annar væri búinn að leysa þau.

Um leið og þessi orð féllu af vörum mér í fyrsta sinn áttaði ég mig á hversu ömurleg þau hljómuðu, hversu óíslenskt væri að hugsa svona, að gera svona. Ég ætla ekki að láta aðra leysa mín vandamál.

En ég hélt áfram að ræða þetta við vini og vandamenn tilað kanna viðbrögðin og benti þeim svo á óréttlætið í að láta aðra „laga“ Ísland, þau sjálf væru Íslendingar og Ísland væri á ábyrgð Íslendinga. Ef við persónugerum landið okkar, okkar ástkæru Ísafold og þjóðina okkar, þá værum við ekki vinir þeirra í raun ef við mundum yfirgefa hvoru tveggja á slíkum örlagatíma líkt og nú gengur yfir.

Hvernig þýðir þú úr ensku „Friend in need is a friend in deed“ ? Er það ekki „vinur í raun“ ?

Hvernig er það tilkomið að þjóðin notar sama orðið, „raun“ yfir erfiðleika sem og veruleikann?

Ég held að það sé engin tilviljun. Í „raun“ má segja að í tungumáli okkar, í raunveruleika okkar í dag og tilvist okkar almennt séu orð Dostajevskís innbyggð, þegar hann sagði eitthvað á þá leið að tilgangur lífsins væri að sjá tilganginn við að þjást. Að sjá tilgang í raunum raunveruleikanns.

Í næstum þrjá mánuði grunar mig að fólk hafi barist við að sjá tilganginn í raunum sínum og svara spurningum á borð við „afhverju er ég að missa allt mitt?“ eða „afhverju get ég ekki fætt fjölskylduna mína?“. Ég hef reynt að finna tilgang minna rauna þessa mánuði.

Tilgangurinn hlítur að vera uppreisn.

Það mun enginn Íslendingur sætta sig við að geta ekki brauðfætt fjölskyldu sína, það mun enginn Íslendingur sætta sig við viðvarandi atvinnuleysi, það mun enginn Íslendingur sætta sig við frekari ójöfnuð ríkra og fátækra og það mun engum Íslendingi verða á sama um aðra Íslendinga.

Ég set þetta sem hálfgerð skilyrði fyrir því að fólk geti talist alvöru Íslendingar, súrt fyrir suma – ég sjálfur þarf að breytast þó nokkuð til að falla að þessari mynd en mér dettur ekkert annað í hug. Ástandið eins og það er, er óbærilegt…

Til að þjóðin geti rétt úr kútnum þarf að taka skynsamlega á málunum. Stjórnvöld hafa sýnt að það ætli þau ekki að gera.

Mér finnst skondið að hugsa til þess að krosseignatengsl séu til umræða varðandi íslensk fyrirtæki því það sama á sér stað á Alþingi. Þingmenn eru oft innherjar í ýmsum fyrirtækjum og hafa oft ýmissa annara sérhagsmuna að gæta. Þingmenn og konur eiga að starfa eftir eigin sannfæringu – en hvaða Íslendingur trúir því að etta fólk geri það? Hver veit um þingmann eða konu sem starfar eftir eigin sannfæringu? Ok ok ok , það eru undantekningar á öllum reglum…

En hvað varðar krosseignatengsl, þá er skýrasta dæmi um krosseignatengsl í stjórnsýslu landsins s+ú staðreynd að ráðherrar eru einnig þingmenn, s.s. fara með löggjafar- og framkvæmdarvald.

Þessi „völd“ eiga að vera aðskilin. Skv. stjórnarskrá má þingmaður verða ráðherra og halda atkvæðarétti sínum en slíkt ætti ekki að leyfast.

Hvernig finnst ykkur hljóma að ráða ráðherra? Það væri nýbreytni að fá fagmenn til að gegna þessum embættum. Skv. stjórnarskrá þá hefðu þeir rétt til að flytja frumvörp á Alþingi en hefðu ekki atkvæðisrétt. Þær væru fagmenn á sínu sviði, t.d. væri hagfræðingur eða viðskiptafræðingur í þeim ráðherrastólum sem við eiga.

Skipun ráðherra ætti þó ekki að þurfa að fara í svona ráðningaferli, meirihluti Alþingis á að velja/skipa ráðherra skv. stjórnarskránni.

Það er svolítið spes að hugsa til þess að ef einhver hefði verið ráðinn til verksins en ekki kosinn þá hefði sá hinn sami líklega verið snöggur til að láta vita að allt væri á leiðinni í vaskinn og það væri XXX að kenna í staðinn fyrir að taka á móti hörmungunum með aulasvip líkt og margir alþingismannanna gerðu.

En hvað getur þjóðin gert?

Mig dauðlangar að einhverjir ræði við lögfræðingaí fjölskyldum sínum og kanni hvernig hægt sé að stofna stjórnmálaflokk, á lögmætan hátt að láta núverandi stjórnvöld víkja og efna til kosninga.

Það eru í dag þúsundir Íslendinga sem verða að stökkva til og bjóða sig fram. Það er fyrri löngu orðið tímabært að sona og sonasona veldi í íslenskum stjórnmálum verði afnumið.

Lítum að Bjarna Ben jr.jr. – Þekki hann ekkert, veit bara að hann var í stjórnum einhverra fyrirtækja að maka krókinn og er nú að plana einhver pólitísk ævintýri.

Hvað á hann eftir að gera fyrir fólkið í landinu? Gefa okkur afslátt af bensíni nú þegar búið er að hækka öll gjöld?

Það er fyrir löngu löngu löngu orðið tímabært að almenningur taki yfir þessa flokka með þvíað skrá sig í þá og láta atkvæði sitt innan þeirra stjórna hverjir komast í framboð.

Það er líklega ástæða þess að verið er að flýta öllum landsfundum, til að tryggja að ekki verði miklar breytingar á innviðum flokkana á komandi ári.