Kreppan er ekki Davíð að kenna. Hann gaf þeim bara frelsið og þeir misnotuðu það. Hvernig átti Davíð að detta í hug að bankamennirnir myndu haga sér eins og aðrir bankamenn í Bandaríkjunum eða Bretlandi? Hvernig átti Davíð að detta í hug að íslensku bankarnir myndu stækka og stækka og verða of stórir fyrir hagkerfið. Bara af því það sama gerðist í Noregi og Svíþjóð og Finnlandi. Ég spyr nú bara á Ísland eitthvað sameiginlegt með Noregi, Svíþjóð og Finnlandi? Ég meina við erum eyja ekki satt?

Nei, kreppan var gjörsamlega ófyrirsjáanleg en Davíð sá hana fyrir. Hann var að vara við þessu árið 2007! Ég meina pælið í framsýni, árið 2007 sér Davíð þetta fyrir löngu á undan öllum öðrum. Nefnið mér einn hagfræðing sem sá þetta á undan Davíð. Þarna sjáið þið, hagfræði menntun er gagnslaus.

Og hvað með framsókn, og samfylkinguna ekki ættu þau að sleppa undan ábyrgð. Nei, mér finnst bara að Halldór Ásgrímsson ætti að segja af sér fyrst.

Seðlabankinn á að berjast gegn verðbólgu, það er ekki Davíð að kenna þó ekki sé hægt að berjast gegn verðbólgu. Hvernig átti hann að geta breytt stefnu sem var búið að nota síðan 2003 og hafði engin áhrif á verðbólguna? Ég meina er hann hagfræðingur eða hvað? Þetta er allt ráðgjöfunum að kenna.
Og svo var seðlabankinn líka að gera allt það rétta í stöðunni. Ég meina hann átti að berjast gegn verðbólgu ekki satt? Og vextirnir eiga að vera háir, að fólk skyldi hafa tekið erlend lán með lægri vöxtum er bara vondu bönkunum að kenna.

Og hvað með alla Íslendingana sem keyptu flatskjái og jeppa á lánum. Þau bera ábyrgð líka. Það er ekki bara Davíð Oddsson. Og svo var alþjóðleg fjármálakrísa í gangi svo þetta sannar ekki neitt um stefnu Davíðs.





Mikilvæg tilkynning til allra hugara:

Þó að Davíð Oddsson beri ekki einn sök á öllu í heiminum þá þýðir þetta ekki lengur. Hann getur sagt af sér og allir hinir líka. Ef þið viljið draga framsókn, kaupþing, samfylkinguna, lífeyrisjóðina, landsbankann, glitni, Jón Ásgeir, Baug, Pálma Fons, virðingu eða einhvern annan til ábyrgðar þá styð ég ykkur í því. Ég skal meira að segja mæta á mótmælin ef þið skipuleggjið þau. En ekki meira Davíð Oddsson ofurhetju kjaftæði. Plís.

Og p.s. frjálshyggjan er álíka dauð og kommúnisminn. Þeir sem ætla að verja ofurlaun forstjóra sem ekkert gagn gera en eru bara ráðnir í gegnum klíkur er eins og að reyna að halda því fram að sovétríkin hafi verið með réttlátt stjórnarfar.