Svokölluð “ærumorð” valda óhug á Norðurlöndum

Gríðarlegur óhugur hefur gripið um sig á Norðurlöndum eftir að sá atburður átti sér stað í Svíþjóð í upphafi vikunnar að kúrdískur faðir myrti dóttur sína fyrir að eiga í ástarsambandi við sænskan mann. Morðið hefur verið fordæmt harðlega á Norðurlöndunum. Hafa ráðamenn þar m.a. lýst því yfir að hvorki menningarlegar né trúarlegar ástæður geti réttlætt morð og ennfremur að innflytjendur, múslimar sem og aðrir, verði að aðlaga sig að þeim gildum og siðum sem ríkja í þeim löndum sem þeir setjast að í.

Stúlkan, sem hét Fadima og var 26 ára, höfðaði mál gegn föður sínum og bróður árið 1998, vegna sífelldra morðhótana af þeirra hálfu, og vann það. Í kjölfarið fékk hún nýja kennitölu og föður hennar og bróður var bannað að heimsækja hana. Á sl. mánudag, þegar hún var í heimsókn hjá systur sinni, birtist faðir hennar og myrti hana fyrir að sverta heiður fjölskyldunnar með því að velja sér sænskan mann.

Um er að ræða aldagamlan múslimskan sið og hluta af múslimskri menningu. Samkvæmt siðum múslima er konan eign mannsins og hefur hann óskorðað vald yfir henni. Hjónabönd eru skipulögð af foreldrum hjónaefnanna og oft eru dætur þvingaðar með valdi til að ganga í þau. Ef stúlka neitar að fara að vilja föður síns hefur hún vanvirt fjölskyldu sína og telst því réttdræp til að bjarga heiðri fjölskyldunnar.

Í kjölfar þessa atburðar hafa skapast miklar umræður í Danmörku, Noregi og Svíþjóð um þessi mál, enda er þetta atvik ekkert einsdæmi. Svokölluð “ærumorð”, og morðhótanir innan múslimskra fjölskyldna, eru algengar í þessum löndum svo og í öðrum vestrænum löndum þar sem múslimar eru fjölmennir, s.s. í Þýskalandi og Frakklandi. Talið er að um sé að ræða tugi ef ekki hundruðir slíkra tilfella á ári.

Sænska lögreglan hefur ennfremur hafið víðtæka rannsókn á því hvort ýmis sjálfsmorð múslimskra stúlkna á síðustu árum hafi í raun verið “ærumorð” en sviðsett sem sjálfsmorð til að faðirinn kæmist hjá morðákæru. Vitað er um slík tilfelli þar sem stúlkur hafa verið neyddar til að skrifa sjálfsmorðsbréf og síðan verið myrtar.

Samstaða er meðal sænskra stjórnmálamanna um að aðstoða þurfi múslimskar stúlkur sem eru á flótta undan feðrum sínum eða sem hafa fengið morðhótanir frá þeim. Í Noregi er rekin sérstök miðstöð til að aðstoða bæði múslimskar stúlkur og drengi sem eru í þessari stöðu og fékkst hún við 600 tilfelli á árinu 2000. Samkvæmt upplýsingum frá dönsku lögreglunni hafa verið framin eitt til tvö “ærumorð” á ári þar í landi á síðustu tíu árum sem vitað er um.

Hjörtur J.


Heimildir:
Fréttir Ríkissjónvarpsins þann 24. og 25. janúar, 2002.
http://www.ruv.is
http://www.jp.dk - Jótlandspósturinn. 23. janúar, 2002.

(Es. Rétt er að taka það skýrt fram að þessi grein er að öllu leyti byggð á þeim heimildum sem getið er í heimildaskránni. Ekkert af því sem fram kemur í greininni er frá mér sjálfum komið.)
Með kveðju,