Sæl öll,

Ég var að lesa frétt í Fréttablaðinu í dag um að verið sé að hrinda af stað átaki í því skyni að fræða grunnskólabörn um hætturnar sem geta leynst í notkun hinna svokölluðu spjallrása á internetinu (mirc). Ég held að þetta sé ekki seinna vænna og hefði átt að eiga sér stað fyrr ef eitthvað er. Gallinn er auðvitað sá að af einhverjum ástæðum þurfa slysin yfirleitt að gerast til að gripið sé til einhverra ráðstafana.

Ástæða þess að verið er að hrinda þessu átaki af stað er nefnilega væntanlega viðbjóðurinn sem maður heyrði greint frá í fréttum þar sem eitthvað mannhelvíti (afsakið orðbragðið, manni bara blöskraði svo) hitti að mig minnir 12 ára stelpu, sem að auki var langveik og lá á Borgarspítalanum, á spjallrásunum og plataði hana til að hitta sig og eiga kynmök við sig auk þess sem hann mun hafa misnotað 9 ára barn líka. Hvað er að svona liði. Maður fær í magann af því einu að skrifa þetta.

En sem fyrr segir, það er bráðnauðsynlegt að gera börnum grein fyrir hættunum sem leynast á þessum spjallrásum. Það fyllir þau án efa ákveðinni öryggiskennd að ekki er um að ræða “bein” samskipti auk þess sem börnin eru stödd heima hjá sér þegar samskiptin eiga sér stað. Þetta nýta þessir bölvaðir andskotar til að fá börnin til að treysta sér og síðan hitta sig jafnvel. Þetta er velþekkt vandamál víst víða erlendis en tiltölulega nýtt hér á landi. Vonandi ber þetta átak bara sem mestan og bestan árangur!

Kv.

Hjörtur J.
Með kveðju,