Verður Rudy Guiliani forseti Bandaríkjanna?

Rudy Guiliani, fyrrv. borgarstjóri New York var kosinn maður ársins í Bandaríkjunum fyrir árið 2001. Það er e.t.v. ekki einkennilegt vegna framgöngu hans varðandi atburðina 11. september á síðasta ári. Líklegt þótti reyndar að annar maður tengdur þeim atburðum myndi hugsanlega vera kosinn, Osama bin Laden.

Nú hefur Guiliani lokið tveimur kjörtímabilum sem borgarstjóri New York og mátti ekki njóða sig fram í það þriðja í röð skv. lögum. Mér skilst þó að hann geti boðið sig fram aftur síðar hafi hann hug á því. Spurningin er auðvitað hvort það yrði honum til góðs eða ekki ef höfð er í huga gamla góða sagan um að ljúka ferlinum á toppnum. Sjálfsagt má þó búast við að ef hann byði sig fram á ný að hann yrði kjörinn enda hálfgerð goðsögn núna þar í borg eftir framgöngu sína.

Ef Guiliani býður sig fram aftur má þó hugsanlega gera ráð fyrir að sama geti hent hann og Winston Churchill, fyrrv. forsætisráðherra Breta, sem leiddi bresku þjóðina í gegn um seinni heimstyrjöldina og var ímynd baráttuþreks og andstöðu Breta við yfirgangi Þjóðverja. Hann bauð sig fram til endurkjörs að stríðinu loknu en náði ekki kjöri. Sagt var að ástæðan væri að góður leiðtogi í stríði þyrfti ekki að vera góður leiðtogi í friði. Churchill mun einmitt vera ein af fyrirmyndum Guiliani.

Núna mun Guiliani vera að byggja upp sitt eigið öryggis- og ráðgjafafyrirtæki í Bandaríkjnum en hann útilokar ekki að hann muni hugsanlega bjóða sig fram til endurkjörs sem borgarstjóra New York. Einnig hafa svo verið viðraðar þær hugmyndir að hann verði næsti frambjóðandi Repúblikana til forsetaembættisins, eða þar næsti ef George W. Bush mun vera líklegur til að geta náð kjöri í annað sinn. Hvað sem þó annars verður þá er ljóst að slagkraftur Guilianis er mikill og hann nýtur án efa töluvert mikillar hylli bæði í New York svo og í Bandaríkjunum öllum. Það verður því forvitnilegt að sjá hver afskipti hans af stjórnmálum verða í framtíðinni, þ.e. auðvitað ef þau verða einhver enda ekkert á hreinu um þau mál eins og staðan er í dag.

Kv.

Hjörtur J.
Með kveðju,