Núna er rétt mánuður síðan slagurinn við Norðlingaholt fór fram. Þau hörðu átök sem þar urðu eru einsdæmi í íslenskri samtíð síðari ár. Fara þarf aftur til árins 1932 og 1949 til að finna dæmi um viðlíka atburði þó að þeir séu kannski ekki alveg sambærilegir. Berum þá saman í stuttu máli:

Árið 1932 var kreppan að læsa klóm sínum um allt þjóðlíf á Íslandi og allan heim heim, hún hófst með verðbréfafallinu á Wall Streat 1929. Í Reykjavík var fjórði hver maður orðinn atvinnulaus. Þann 9 nóvember 1932 boðaði bæjarstjórn Reykjavíkur fund í Gúttó húsinu sem stóð þar sem alþingismenn leggja bílnum sínum nú. Aðeins eitt mál var á fundinum, að fækka í atvinnubótavinnunni sem bærinn hafði atvinnulausum til boða og lækka kaupið. Mikill andstaða var við þessar ráðgerðir og þúsundir manna dreif að Gúttóhúsinu og fundinum var hleypt var upp.

Lögreglan í Reykjavík barðist við mannfjöldann, þá voru 27 lögregluþjónar í Reykjavíkurlögreglunni. Það sló í blóðugann bardaga, svo heiftarlegann að þegar yfir lauk var lögreglan gjörsigruð. Átökin voru svo hörð og ofsafengin að 21 lögregluþjónn varð óvígur. Þegar lögreglan reyndi að ryðja salinn og kom út á göturnar var hún umkringd, einn af öðrum voru lögregluþjónarnir barðir í götuna, margir handlegsbrotnuðu, slegnir í höfuðið og grýttir, þeir voru algjörlega yfirbugaðir og mildi að ekki varð mannslát í þessum átökum. Að kvöldi 9 nóvember 1932 var Reykjavík lögreglulaus, valdstjórnin var óvirk með öllu. Og viti menn, það var bakkað, valdstjórnin bakkaði og hætt var við að fækka í atvinnubótavinnunni og kaupið hækkað.

Átökin á Austurvelli 30 mars 1949 urðu vegna inngöngu íslendinga í Nato. Þar voru um tíu þúsund manns samankomin og allt fór úr böndunum. Hver einasta rúða í alþingi var mölbrotin, og barist, maður á mann. Ef að lögreglan hefði ekki þá haft táragas og varalið hægri manna, þá hefði hún ekki getað varið alþingi. Hún hefði verið gjörsigruð. En þá var lögreglan að verja alþingi og meiri hluti þingmanna samþykkti inngöngu í Nato. Svo segja má að málstaðurinn þar hafi verið annar en í Gúttóslagnum.

Þetta eru tvö dæmi úr sögunni sem sýna að Íslendingar geta risið upp, þó að þessi þjóð sé með afbrigðum sein til mótmæla, má segja að þegar hún fer í ham, þá sé fjandinn laus. Fyrst að þetta gerðist þá, getur þetta ekki gerst aftur?

Þá að átökunum við Norðlingaholt 23 apríl sl. Mikið hefur verið fjallað um þá atburði. Þar tala menn í kross eðlilega. En í slagnum við Norðlingaholt hafði lögreglan sigur, henni tókst ætlunarverk sitt fullkomlega. Stöðva mótmæli vörubílssjóra á götunum, taka aðalforspakkann úr umferð og sýna vald sitt. Allt þetta gekk eftir. Bíll Sturlu hefur verið tekin af honum, hann er á tveim jafnfljótum og gangandi með skilti eða eitthvað þess háttar. Engin meiriháttar mótmæli hafa orðið síðan 23 apríl sl. Bara smávegis sýndarleikur vængbrotinna bílstjóra sem olíuverðsbálið og samdrátturinn sem er framundan í byggingariðnaðnum mun greiða rothöggið. Rothöggið á Kirkjusandi í andlit lögreglunemans var líka rothögg á málstað bílstjóra, þegar vitfirringur úr liði þeirra sleppti hönd sinni. Sturla Jónsson er heldur ekki mikill leiðtogi, hann talar í frösum og almennum skætingi. Kænn maður í forustu hefði getað snúið slagnum við Norðlingaholt við í stórsigur með föstum rökum og gert þetta að upphafi þess að almenningur segði við stjórnmálamenn allra flokka: komið og hlustið á okkur einu sinni.

Ráðherrar, lögreglustjórar og yfirvöld munu þó líklega ekki þurfa að hafa áhyggjur af bílstjórum á trukkum þegar líður á þetta ár. Þeir verða flestir komnir á hausinn, hættir og orðnir atvinnulausir. Þeir mótmæla þá ekki á meðan, svo að ráðamenn geta haldið ró sinni og gasmaðurinn jafnað sig.

En hvað með okkur hin? Þennan almenning sem stjórnmálamenn segja að herða sultarólina og ekki vera að nöldra yfir verðbólgu og vaxtaokri. Hver tekur upp hanskann fyrir okkur? Hvað eru stjórnvöld að gera, hvað ætla þeir að gera og hvert stefnum við?

Við stefnum inn í kreppu, lánin hækka og hækka. Maturinn er 64% dýrari en í öðrum evrópulöndunum, almenningi, heimilunum í landinu er byrjað að blæða, og atvinnulífinu er byrjað að blæða. Okkur mun blæða út með þessu áframhaldi. Það verður ekki glæsilegt ástandið þegar hallar að hausti. Fjölda atvinnuleysi er ekki óhugsandi, t.d í byggingariðnaðnum einum eru a.m.k átta til tíu þúsund störf og byggingariðnaðurinn er í spennitreyju, það er ekkert sem selst á fasteignamarkaðnum, engin lán fást, bankarnir munu í næsta mánuði að öllum líkindum hækka vexti á húsnæðislánum ofan á allt saman. Það er hert að hálsi okkar með leðurklæddum hönskum valdsins úr öllum áttum. Við eigum að bíða og bíða, þeigja og vera með svartsýnisraus. Samt eru þetta staðreyndir. Þetta er að gerast.

Og því spyr ég: hvað gerum við? Geta íslendingar ennþá staðið upp og sagt, stopp. Stjórnmálamenn, ríkisstjórn, borgarstjórn, til hvers eruð þið? Eigum við ein að blæða? Og ætlið þið að láta okkur blæða út.

Norðlingaholtsslagurinn, var hann forsmekkur komandi haustst? Eða förum við bara öll á uppboð og síðan á fjöll að bíta gras?

Svari hver fyrir sig.

Septembe