Ég var að lesa þessa frétt á mbl.is rétt áðan og gat ekki annað en skellt uppúr þegar ég las þessi orð…

“Það er engin breyting á rekstrarumhverfi fyrirtækja hvort þau starfa á grundvelli EES-samningsins eða í Evrópusambandinu,” sagði Björn Bjarnason.

en svo ég tali aðeins um fréttina í heild þá skil ég ekki alveg til hvers hann bjössi vill að við séum að kjósa um þetta eftir að það er búið að ákveða að sækja um, enda held ég að flestir viti nú að ESB hefði ákveðið löggjafarvald yfir okkur og það að við þurfum að breyta stjórnarskránni til að geta samþykkt það sé bara formsatriði.

Auðvitað á atkvæðargreiðslan að vera um hvort fólk vill sækja um aðild eða ekki, og ég sé í raun engin rök fyrir því í dag að leyfa þjóðinni ekki að ráða hvort sækt er um aðild eða ekki, sé allavega ekki hvernig það gæti mögulega verið álitin röng ákvörðun ríkisstjórnar að leyfa þjóðinni að ráða þessu.

Reyndar myndu sumir eflaust segja að almenningur viti kannski ekki nóg um þessi mál til að geta tekið ákvörðunina, og það er jú eitthvað til í því, en það er það mikið talað um þetta í dag að ef eitthvað yrði lagt uppúr því að útskýra þetta betur fyrir fólki, þá held ég að það yrði ekki stórt vandamál.

“tel að þessi átök út af gjaldmiðlinum hafi verið notuð, eða jafnvel misnotuð, til að tala um að allt myndi breytast ef við færum inn í Evrópusambandið.”

Auðvitað myndi ekkert “allt” breytast, en kreppur eins og þessi sem Ísland er í í dag vegna gengislækkunar yrðu nánast úr sögunni vegna þess að þau tiltölulega fáu lönd sem við flytjum inn frá sem væru ekki með sama gjaldmiðil eru langflest með tiltölulega stöðugan gjaldmiðil og evran að sjálfsögðu einnig mjög stöðug, svo það yrði lítið um gengisbreytingar, og öruggt að það yrðu engar eins snöggar og þessar sem við höfum verið að lenda í síðan um áramótin.

Ég bara get ekki skilið hvernig Björn getur ekki talið þetta vera breytingu á rekstrarumhverfi fyrirtækja… hann ætti kannski að prufa að reka íslenskt fyrirtæki sem er fjármagnað af lánum í erlendri mynt og flytur inn erlenda vöru og lendir í 30% (eða hvað sem þetta er komið uppí) gengislækkun á nokkrum mánuðum.

“Vissulega gætum við þá tekið upp evruna eftir nokkur ár en það myndi ekki breyta þeirri stöðu sem við erum í núna.”

Ef ég skil þessa fullyrðingu rétt þá væri ekki alrangt að umorða hana svona…

“Við getum alveg reynt að laga þetta en það myndi ekki laga neitt um leið svo það tekur því ekkert að reyna.”

Kannski örlítið annað en svona hljómaði þetta fyrir mér… auðvitað myndi það ekki breyta þeirri stöðu sem við erum í núna upp að neinu marki (þó að bjartsýni og væntingar fólks til jákvæðra breytinga gæti haft einhver smávægileg áhrif á fjármálamarkaðinn) en ég sé ekki að það sé neitt betra að gera í stöðunni, og alls ekki neitt sem gæti bætt langtímaefnahagsástand landsins að ráði fyrr.

“Og stundum hefur maður á tilfinningunni að þeir sem eru að reka fyrirtæki kenni því um að þeim hafi fatast flugið að við séum ekki í Evrópusambandinu. Auðvitað þurfa menn í Evrópusambandinu að reka fyrirtæki sín vel.”

Ég veit nú ekki betur en að bankarnir hafi kvartað hvað hæst undan krónunni í tengslum við rekstur sinn og ef ég man rétt högnuðust þeir samtals um rúmlega 40 milljarða á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem á ársgrundvelli er svipað ef ekki betra en síðasta ár var, þvert á spár og umsagnir erlendra og alþjóðlegra matsaðila sem hafa verið að koma óorði á íslensku bankana síðan bandaríkjamenn hættu að borga húsnæðislánin sín og byrjuðu þessa heimskreppu.

Þeir eru varla að kenna krónunni um rekstrarmistök sem þeir eru ekki að gera…



Að lokum vil ég taka fram að með ummælum mínum hér að ofan er ég ekki að lýsa yfir stuðningi mínum við umsókn íslands að aðild ESB, ég tel mig ekki hafa nægilegar upplýsingar um ýmsar lagabreytingar er varða t.d. landhelgi og fleira til þess að geta ákveðið afstöðu mína til ESB aðildar enn sem komið er, þó ég hallist frekar að umsókn um aðild eins og er.

Með greininni vonast ég til að vekja upp umræður um efni hennar og afþakka vinsamlegast öll skítköst og fleira sem kemur efni greinarinnar ekki við.