Tónlistarhúsið Kæra tónlistarfólk og aðrir tónlistarunnendur. Hinn langþráði draumur er loksins að verða að veruleika: Eftir tæplega tvö ár munum við eignast öflugt tónlistarhús. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun loksins eignast alvöru heimili eftir rúmlega hálfrar aldar bið og þeir og aðrir íslenskir tónlistarmenn munu fá að geta spilað í sal með hljómburð sem verður sá besti í heiminum. Við getum boðið stærstu og virtustu hljómsveitum heims til landsins án þess að skammast okkur og miðbærinn mun án efa eflast.

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð 1950 og var það mikið afrek hjá jafn lítilli þjóð. Nokkrum árum síðar var Háskólabíó byggt og fékk hljómsveitin aðstöðu þar. Hún ætlaði þó ekki að sitja þar að vegna þess að ætlunin var auðvitað að reisa tónlistarhús sem myndi hæfa hljómsveitinni. Háskólabíó gerði það alls ekki. Áratugum seinna var þannig hús ennþá ekki risið og hafði Sinfónían þurft að hírast í kvikmyndahúsinu allan þennan tíma. Hljómsveitin var orðin með þeim betri í heiminum en fáir gerðu sér grein fyrir því vegna eins: Hljómburðurinn er hræðilegur. Hann er skelfilegur. Hin mikla tónlist hverfur hálfpartinn þegar hún kemur í salinn og verður margfalt áhrifaminni. Þörfin fyrir tónlistarhúsi var því augljós. Og loksins er komið að því.

Tónlistarhúsið verður með fjórum sölum. Stærsti salurinn tekur 1800 manns í sæti. ÞAr mun Sinfóníuhljómsveit Íslands halda tónleika vikulega. En þó að hún muni hafa forgang munu aðrir stórir tónlistarmenn einnig halda þar tónleika auk þess sem þarna verður mögulegt að setja á svið óperur og stóra söngleiki. Minni salirnir eru 450 sæta æfingarsalur hljómsveitarinnar sem einnig mun nýtast sem kammersalur, 750 sæta ráðstefnusalur og 200 manna salur sem ég átta mig ekki alveg á en gæti orðið fyrir minni tónleika.

Húsið sjálft verður glæsilegt, svolítið eins og eitt stórt listaverk enda veggirnir hannaðir af Ólafi Elíassyni, þekktum listammanni. Þetta verður stór glerhjúpur sem umlykur salina fjóra og eru í laginu eins og stuðlaberg. Mér skilst að hjúpurinn muni skipta litum eftir því hvar maður stendur og horfir á húsið eða hvernig ljósið mun falla á það. Aðkoman verður ekki síður glæsileg: göngugata þar sem meðal annars mun standa 5 stjörnu hótel og World trade center. Þessar tvær byggingar verða báðar stórkostlega hannaðar og mun sú síðarnefnda verða hönnuð með jökla landsins að fyrirmynd. Tveimur hæðum undir þessu öllu saman mun verða bílastæðahús með 1600 stæði. Á tónlistarhúsinu verða svalir í allar áttir og útsýnið mun að öllum líkinsum verða stórkostlegt.

Húsinu fylgja vissulega gallar. Einhvers staðar heyrði ég að kostnaðurinn yrði um 12 milljarðir. Ég býst ekki við að þeir sem kvarti undan honum yrðu sérstaklega ánægðir að fá að vita að stuttu eftir opnun tónlistarhússins mun annað hús rísa, álíka mikilvægt og þetta: Óperuhúsið. Má búast við að það verði álíka jafnt umdeilt og tónlistarhúsið. En loksins, loksins fáum við alvöru tónlistarhús. Hús sem mun gera sem flestum tónlistartegundum til hæfis, hús sem mun verða tákn Íslands í framtíðinni, hús sem mun styrkja og efla miðbæinn okkar og auðvitað sjálfa tónlistina. Ég segi því að í staðinn fyrir að kvarta þá skulum við fagna. Draumurinn er loksins orðinn að veruleika.
Veni, vidi, vici!