Mér leiðist hitt og þetta pistill með hreinsun í huga, út með gamalt og inn með nýtt.

Hérna eru bara smá pælingar um árið sem er liðið/að líða burt frá okkur og kemur aldrei aftur til baka. Munið að ég er hér alls ekki að alhæfa neitt og ekki endilega heldur að segja satt um eitt eða neitt. Maður er bara að blása aðeins út og hreinsa til í kollinum, út með liðið ár - inn í nýtt ár með tóman koll til að geta tekið við öllu því sem nýtt ár getur boðið uppá. Athugið að “nöfnum”, sem hugsanlega koma fyrir í þessum pisli, hefur verið breytt eða hagrætt til að forðast átök, ásakanir og lögsókn á hendur mér frá ehh.. nafnleysingjunum…
****
Mér leiðist ósköpin öll rigning, slydda og mikil umskipti í veðrinu – stundum minnir veðráttan mann á stjórnmálamenn, geta aldrei ákveðið sig og vita ekkert hvar þeir eiga í flokki að standa stundum. Stundum er rigning og allt rennandi blautt, næstu stund frýs allt og ekkert nema klaki blasir við ásamt tilheyrandi umferðaóhöppum sem og fólki sem bara hreinlega fellur í hópum á glerhálum gangstéttum.

Því næst hlýnar smá og það byrjar að slydda og svo aftur rigning en áður en varir er farið að snjóa – í 3 mínútur – og svo byrjar aftur að rigna. Af hverju í fúlum andadrætti getur ekki bara verið annaðhvort rigning/þurrt og hlýtt – eða bara frost og snjór? Hverjum er hægt að múta til að koma þessu í lag? D. O.(er það ekki hann sem er óheiðarlegasti maður ársins, eða var það Á. Jo, þessi sem stelur frá fátæka manninum(okkur) og gefur ríka manninum(sjálfum sér))?
****
Mér leiðist mjög sá mikli launamunur og ójafnrétti sem ríkir á launamarkaðinum í dag. Þó ég sé með ágætis laun og ekki illa settur, þá eru til þeir sem hafa ekki í sig og á. Alltof stór gjá er á milli hæstu launa landans og þeirra lægstu. Ég meina, við sem erum líklega talin í lægri hópnum - erum að borga þeim hæstu launin – en þeir launa okkur það með því að halda okkur í lægstu þrepum launaskalans. Við greiðum okkar skatta og skyldur, sem borga laun ráðherra, þingmanna og annarra ómaga á hreppnum – því launa þeir okkur það ekki til baka með því að hækka kaupið okkar smá. Þeir geta svo glaðir glatt hver annan með launahækkunum uppá tugi þúsunda, starfslokasamninga, bitlur og fleiri eftirlaun – eitthvað sem Gulli og Kalli úti í bæ fá ekki fyrir heiðarlega verkamannavinnu.

Sem dæmi er hægt að nefna, til að sjá mun á launum háum og lágum, að feiti kallinn í lúgunni – D.O. – er t.d. með tæpar tvær miljónir á mánuði, eitthvað sem samsvarar árslaunum Siggu litlu systur minnar sem skúrar úti á götu. Ég segi að það eigi að hætta að hækka laun þeirra hæstlaunuðu, þeir hafa nóg fyrir, og einbeita sér að því að koma þeim sem minnst eiga á aðeins hærri laun. Það yrði kannski til þess að færri fari á hreppinn sem ómagar og færri væru stanslaust í mínus í bankakerfinu vegna lágra launa og erfiðleika með að standa við skuldbindingar sínar.
****
Mér leiðist gífurlega mikið kerlingar sem skilja ekki þegar ég segi: “nei ég vil ekki hitta þig aftur – þetta var bara safe RBB” – þrátt fyrir að hafa skilið það áður en eitthvað gerðist!
****
Mér leiðist fólk sem má flokka sem “skemmda eplið” og eyðileggur fyrir heildinni. Það virðist vera sem allt og allir hafi sitt skemmda epli. Í vinnunni er það einhver sem öllum/flestum er í nöp við vegna þess að sá/sú hin sami gerir allt sem hægt er að hugsa sér til að vera leiðinlegur, skemma móral og sleikja bossann(og þá meina ég yfirmanninn/konuna en ekki raunverulegt rassgat)! Í skólanum gildir það sama, einhver sem leggur skólasystkyn í einelti, skemmir kennslustundir og er stanslaust að finna leiðir til að koma illa fram. Í partýstuðinu er alltaf einhver sem þykist vera öðrum fremri, hefur hæst og talar svo mikið að engin kemst að með sitt. Reyni einhver að tala grípur sá leiðilegi fram í og gerir málið að sínu, snýr hlutunum þannig að athyglin færist frá fyrri sögumanni yfir á hann sjálfan. Drekkur illa og reykir ofaní þá sem ekki reykja, hellir yfir fólk og hendir hlutum um koll – og á endanum deyr út í sófanum öllum til ama.
P.s. ef þú sem ert að lesa þetta finnur þig hérna – þá er það hrein tilviljun – ég er ekki að skrifa um þig.
****
Mér finnst óþolandi fólk sem byrjar að skjóta upp flugeldum klukkan 12 á miðnætti – 27 Desember. Þeir sem geta ekki haldið ró sinni og verið með okkur hinum sem bíðum eftir nákvæmlega rétta augnablikinu og skjótum upp á miðnætti á gamlársdagskvöld. Þetta eru sömu lúðarnir og byrja að skreyta húsin sín og setja út jólaljós fyrsta Nóvember. Á páskunum byrjar sama fólkið að eta páskaegg viku fyrir páskana og troða rjómabollum í sig viku fyrir bolludag. Þetta sama fólk eyðir í alls skyns vitleysur í dag en reynir að borga það eftir tvo mánuði þegar kortareikningurinn kemur inn um lúguna. Sama liðið mætir tveim dögum fyrir útsölu og stendur í biðröð 48 tíma áður en búðin opnar.
****
Algerlega fáránlegt finnst mér ofmetnir leikarar og söngvarar. B.M. er trúður sem heldur að hann sé svo ótrúlega mikið “sautjánáratöffari” en röddin er eins og á breimaketti. Ég skil ekki hvernig honum hefur tekist að komast svona langt, en svona skrítin erum við, við kaupum þetta væl. M-gas er alger hörmung. Hverjum dettur í hug að kalla hann listamann? Hann er eins aðlaðandi og skötuselur, eins mikill söngvari og x-faktor þátttakandi sem sendur er heim eftir fyrstu tilraun og það er ekkert sem heitir list í kringum hann – nema maður taki nördinn í honum og stingi rakettupriki í rassinn á honum og skjóti svo upp – þá fyst væri maður að eyða pening í eitthvað gott.
****
Mér fannst áramótaskaupið mjög mislitt. Alþjóðlegt og nokkuð barnvænt án þess þó að börnin fengju að skilja mikið í því. Best fannst mér gangagerð Á. Jo. Einnig var nokkuð fyndið hvernig hægt er að týna sjálfum sér á Íslandi. Þá var bloggarasamfélagið nokkuð heitt líka.
****
Kveðja:
Tigercop sem kveður gamalt, leiðinlegt sem og skemmtilegt – fúlt sem ferskt. Hann kveður líka gamla árið með söknuði því margir fóru sem hann átti, en líka með fögnuði því margir komu í staðinn fyrir þá sem fóru. Munið að það koma alltaf einhverjir í stað þeirra sem hverfa – lífið heldur áfram og í okkar höndum að skrifa það gott eða erfitt og leiðinlegt, hvort ætlar þú að hafa að leiðarljósi á nýja árinu? Tigercop ætlar að hafa gott eitt íhuga þegar nýtt ár gengur í garð og óskar öllum gleðilegs árs og friðar.