Ég hef heyrt álit margra á málefni lögleiðingu fíkniefna. Sumum hefur orðið ansi heitt í hamsi og varið sína afstöðu með miklum eldmóð.

Fylgjendur segja margir hverjir “þúst, ég má gera það sem ég villlll með boddíið mitt, kemur ekki örrum við” aðrir sem hafa kannski neytt aðeins minna af fíkniefnum tala um að maður eigi að vera frjáls en frelsi fylgir líka ábyrð. Enn aðrir benda á að fíkniefni hafa stórt undirheimahagkerfi þar sem ofbeldi og hótanir eru daglegt brauð og fólk sem er á botninum gerir ýmislegt til að fjármagna neysluna, flest ólöglegt. Iðulega heyrast að auki raddir sem benda á að neysla fíkniefna einskorðast nær aldrei bara við eigin líkama heldur hefur þvert á móti mikil og neikvæð áhrif á fjöldskyldu og vini viðkomandi.

Mig langar að segja að ég er algjörlega sammála öllum þessum sjónarmiðum! Það er margt til í þessu öllu og lögleiðing fíkniefna myndi sennilega leysa mörg af ofangreindum vandamálum. Undirheimahagkerfi fíkniefna myndi trúlega dragast verulega saman. Innbrot til að fjármagna neyslu myndu líka minnka eitthvað en að sjálfsögðu hyrfu þau ekki, enda hefur fólk lagst svo lágt að fremja innbrot til að næla sér í svo lítið sem nokkra sígarettupakka. Eitt atriði sem myndi örugglega ekki skána væri áhrif fíkniefnaneyslu á þá sem standa neytandanum næst, þ.e. fjöldskyldu og vini. Við þurfum ekki að líta lengra en til áfengis, sem er löglegt fíkniefni. Þeir sem nota áfengið óhóflega eyðileggja gífurlega fyrir sér nákomnu fólki; fjöldskyldur splundrast, fjármál fara í vaskinn o.s.f.v. Þá myndi lögleiðing fíkniefna alveg örugglega skapa mörg önnur ófyrirsjáanleg vandamál.

Eitthvað þarf að gera, en hvað?

Mín hugmynd er “Dóphúsið”. Það felst í ríkisrekinni tilraunastarfsemi þar sem fólk, sem er langt leitt í neyslu, getur komið og fengið viss fíkniefni, örugg tól og aðstöðu til að neyta þeirra, fyrir vægt gjald. Skilyrðin væru að það yrði að neyta efnanna innan veggja hússins og ekki mætti yfirgefa það fyrr en a.m.k mesta víman væri runnin af þeim. Þetta er ekki fullkomin lausn enda er slík lausn ekki til. Ef slæmar afleiðingar þessarar tilraunastarfsemi teldust kostunum yfirsterkari, þá yrði húsinu einfaldlega lokað og hlutir færu aftur í fyrra horf. Það væri síðan hægt að útfæra hugmyndina frekar, t.a.m. á þá leið að fólk sem kæmi í dóphúsið væri stöðugt hvatt til þess að fara í meðferð.

Að mínu mati ætti ríkisstjórnin að vera opnari fyrir afturkræfri tilraunastarfsemi á borð við þessa. Vissulega er hugmyndin sama marki brennd og flestar aðrar, það er erfitt að sjá fyrir um afleiðingar tilraunarinnar ef hún fer úr böndunum. Hins vegar er tiltölulega auðvelt að koma þessari starfsemi á fót með þeim hætti að auðvelt væri að bæta hana og laða að þörfinni, eins og það gæti einnig verið auðvelt að leggja hana niður ef hún gengur ekki eins og væntingar stóðu til.