Núna voru Ísraelar að enda við að gera loftárás með F16 herflugvél á lögreglustöð í Palestínu, áður hafa þeir skotið á hinar ýmsustu aðrar opinberar byggingar í Palestínu.

Það sem ég vil fá að vita frá hæstvirtum stjórnvöldum Íslands, er hvenær þau ætli að mótmæla þessum hryðjuverkum ísraelskra yfirvalda?

Ekki eingöngu eru þetta árásir á opinber stjórnvöld annars ríkis, heldur eru þetta skýlaus brot á óteljandi samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil fá að sjá utanríkisráðherra Íslands þruma yfir hausunum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og skamma alla viðstadda fyrir að gera ekki meira í málunum en að segja “uss uss, svona má ekki gera”. Ég vil fá að sjá friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, ég vil fá að sjá að unnið sé í því að bæta öryggi ALLRA borgara á svæðinu, hvort sem er Ísraelsmanna eða Palestínumanna.

Ég vil fá að sjá íslensk stjórnvöld haga sér í þessu máli eins og menn, ég vil fá að sjá forsætisráðherran snara yfir á enska tungu sínu fræga máltæki “svona gera menn ekki” og segja það fyrir framan heimspressuna og þruma líka yfir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil fá að vita af hverju ekkert af þessu hefur gerst ennþá.

Síðustu hryðjuverkamenn sem að Bandaríkjamenn studdu hétu Talíbanar, og við þekkjum sögu þeirra.

Hryðjuverkamennirnir sem Bandaríkjamenn halda áfram að styðja við eru hópur ofstækismanna í Ísrael, sem eru undir stjórn dæmds stríðsglæpamanns, Ariel Sharons. Ég hugsa að sagan muni dæma Bin Laden og Sharon nokkuð jafnt. Ástandið hefur aldrei verið verra í Palestínu og Ísrael en síðan að Sharon tók þar við völdum. Undir hófsamari leiðtogum voru Ísraelar og Palestínumenn að fikrast nær og nær friði, undir stjórn ofstækismannanna er allt komið á heljarþröm.

Hæstvirt stjórnvöld, segið eitthvað!

-= Bréf sem ég ætla að senda helstu aðilum ríkisstjórnar Íslands =-
Summum ius summa inuria