Um daginn pantaði ég mér notaða myndbandspólu á netinu sem kostaði $5.99. Kjarakaup fyrir spólu sem ég er búin að leita að í ein 5 ár. Ég var ekkert alltof sæl að þegar ég uppgötvaði að sendingarkostnaðurinn undir hana frá Kanada til Íslands var meiri en verð sjálfrar spólunnar en lét mig hafa það þar sem ég vildi fyrir alla muni eignast þessa mynd. Sendingarkostnaðurinn nam $8.50. Samtals var þetta $14.49. OK. Svo fæ ég tilkynningu um að sendingin sé komin, sendi kvittunina í e-mail til Tollmiðlunar Íslandspósts og í gærkvöldi fékk ég hana senda heim. Þá þurfti ég að borga tollinn af spólunni. 811 krónur!

Ég var svo græn að ég hélt að þegar maður pantaði tollskylda vöru frá útlöndum þá borgaði maður toll fyrir verð sjálfrar vörunnar og ekkert annað. En ég (og þið líka) er látin borga toll af sendingarkostnaðinum!!! Hvernig getur það staðist? Mér finnst það alls ekki lógískt og hreint út sagt fáránlegt.

Ef maður pantar t.d. bók frá amazon sem kostar $5.00, lætur pakka henni inn fyrir $2.00, sendingakostnaðurinn er $5.00 og heildarverðið er samtals $12.00 þá er maður s.s. látinn borga toll af heildarverðinu, þar með töldum gjafapappírnum! Þetta finnst mér svindl og svínarí. Ég get alveg gúdderað að borga toll af þeirri vöru sem ég er að kaupa en ekki af gjafapappír, slaufum og sendingakostnaði. Ég er búin að borga sendingakostnaðinn og get ekki séð hvernig hann getur verið tollskyldur. Þarna er aðeins verið að hafa af manni pening.

Íslenskt tollaumhverfi er þannig að ég vil helst ekki panta af netinu, því þegar upp er staðið er maður oft að borga jafn mikið eða jafnvel meira en fyrir sömu vöru hér heima. Samt freistast maður stundum til að panta eitthvað sem er ófáanlegt hér heima. Maður reynir að kaupa hluti eins og bækur, DVD diska og geisladiska erlendis (og fara í gegnum græna hliðið) þar sem það borgar sig oft ekki að panta á netinu. Sérstaklega á þetta við um geisladiska, þegar hægt er að ná í þá flesta á netinu fyrir ekki neitt.

Ég verð að segja að ég hef ekki mikið álit á Tollinum. Fyrir nokkrum árum fékk ég jólagjöf frá útlöndum og fékk tilkynningu um að sendingin væri tollskyld. Ég borgaði einhvern svaka toll fyrir að leysa út pakkann (vissi ekki hvað var í honum) og konan sagði mér að tollurinn væri svona hár því að það væru tvær áfengisflöskur í honum. Þegar ég kom heim var ein áfengisflaska í pakkanum og eitt FRAUÐKERTI sem leit út eins og Gammel Dansk flaska! Ef tollurinn sér ekki muninn á fisléttu kerti og áfengisflösku þá trúi ég að hægt sé að smygla öllum andskotanum fram hjá þeim.

Mér finnst þetta kerfi bjóða upp á það að fólk reyni að fara í kring um það. Eins og ég segi þá finnst mér sjálfsagt að borga toll af vörunni sjálfri en engu öðru. Þessar 811 krónur eru kannski ekki mikill peningur en fyrir mér er þetta prinsippatriði.

Hvað finnst ykkur um þetta? Finnst ykkur þetta sanngjarnt? Pantið þið eins og vitlaus séuð af netinu eða notið þið aðrar leiðir? Látiði senda ykkur hluti sem gjafir til að sleppa við tollinn? Ef svo, virkar það?