Í fréttum er nú sagt frá aukinni útbreiðslu nýnasista á Norðurlöndum og að samvinna í baráttu gegn þeim sé nauðsynleg. Helst er bent á aukna fræðslu í þessu tilliti. Ég er hjartanlega sammála. Þessi uppgangur nýnasista sýnir vaxandi minnimáttarkennd, aðallega í hópum ungra manna, sem óttast um framtíð sína og möguleika ef og þegar landamæri opnast meira og fólksflutningar milli heimshluta aukast. Auðvitað er alltaf erfitt að sjá fram á samkeppni og að hugsanlega dugi hvíti húðliturinn ekki lengur til að fá góða vinnu en svona er lífið.

Ef til vill eru nýnasistar nútímans menn í lélegum störfum eða atvinnulausir og vilja kenna öllum öðrum en sjálfum sér um ástandið á sér. Þeir sjá Araba og fólk af asísku bergi brotið í jakkafötum í góðum störfum og telja sig eiga þau skilið því þeir “komu á undan” til tiltekins lands og að hvíti húðliturinn þýði yfirburði þrátt fyrir að þeir séu ekki til staðar.

Uppgangur nýnasista er einnig að hluta til tengdur netinu. Á spjallrásum er núorðið ekkert óalgengt að sjá 14-15 ára stráka hrópa slagorð með kynþáttafordómum og gegn fólki sem er af erlendu bergi brotið. Ætla má að þessir strákar hafi komist í lesefni eða áhugamannahópa á netinu sem boða hatur á öllu sem er öðruvísi. Nóg er af netsíðum sem breiða út hatur og fordóma og nóg er af fólki til að auglýsa þær . Ekki er mikið vit í að banna slíkar síður frekar en annað á netinu sem tengist málfrelsi heldur er þörf á gagnárásum og síðum sem útskýra nákvæmlega hversu vitlaus, heimskulegur, fordómafullur, glórulaus og algjörlega fáránlegur boðskapur nýnasista er. Komi nýnasistar með rök, hvort sem þau eru þetta vanalega heimskuleg eða rök sem jafnvel eiga sér stoðir í raunveruleikanum, þá þarf að svara þeim og þurfa svörin að vera jafnaðgengileg öllum og efni sem boðar fordóma.

Framtíðarsamfélagið verður opið, frjálslegt og lýðræðislegt. Fólk mun flytjast í auknum mæli milli heimshluta til að læra, vinna eða búa. Hvítir munu búa hjá brúnum, brúnir hjá gulum, gulir hjá hvítum og allir munu þurfa læra að lifa í sátt og samlyndi. Samkeppni framtíðarinnar snýst um einstaklinga en ekki þjóðir. Því fyrr sem 14 ára reiðir smástrákar og annað fólk í þeim dúr áttar sig á þessu því betra fyrir okkur öll. Því fyrr sem fordómum hefur verið eytt, því fyrr getum við byrjað á að byggja upp framtíð okkar.