Ástæðan fyrir því að ég legg í það að skrifa mínar hugleiðingar vegna mótmæla Saving Iceland sl. laugardag er sú að mér finnst að umræða um þetta tiltekna mál hér á Huga.is hafi ekki komist á nógu gott flug. Baráttumál Saving Iceland hópsins er okkur Íslendingum, eða allaveganna mörgum, hugleikið mál. Ekki bara Ísland heldur öll Jörðin stendur frammi fyrir því stóra vandamáli sem stóriðja ber í för með sér.

Reyndar verður aðalumræðuefni mitt í þessari grein ekki þetta tiltekna vandamál sem slíkt, þó ég muni koma inn á það, heldur framganga mótmælenda og lögreglu þann 14. júlí síðastliðinn.

Ef við snúum okkur að mótmælunum.

Ekki tók ég sjálfur þátt í þeim og hugsaði kannski ekki út í það vegna þess að ég er ekki mikill róttækismaður. Ég hef þó skoðanir á hinum ýmsu hlutum og þyki frekar sjálfstæður.

Mótmælendurnir söfnuðust saman og létu miklum látum á götum Reykjavíkur, fylktust saman frá Perlunni, að ég held, og voru loks stoppuð af lögreglunni á Snorrabraut, þar sem þau hindruðu umferð að ganga fyrir sig eðlilega. Í broddi fylkingar var pallur dreginn af bíl sem var með hátölurum sem spiluðu mjög háværa tónlist í íbúðabyggð.

Ég hef nú verið að glugga aðeins í bloggsíður hingað og þangað þar sem bloggarar hafa skrifað um þessi mótmæli. Ég verð nú að segja að fleiri hafa skrifað neikvætt um þessi mótmæli frekar en jákvætt og ástæðan fyrir því er einföld: mótmælendurnir brutu lög.

Oddgeir Einarsson, lögmaður í Reykjavík, gróf upp þetta:

11. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg, er svohljóðandi:

„Tilkynna skal lögreglustjóra um fyrirhugaðar hópgöngur og útifundi í því skyni, að hann geti gert viðeigandi ráðstafanir varðandi stjórnun umferðar."

Ekki skal ég segja neitt um það hvort aðstandendur mótmælanna hafi haft samband við lögreglustjóra eða ekki en eitt er víst að lögreglan var ekki sjáanlega hjá Perlunni og óþarfi fyrir hana að vera að stoppa mótmælagönguna ef fyrir hefði verið talað við lögreglustjóra.

Til eru myndbönd sem eru frá þessum mótmælum: eitt sem sýnir atganginn við Snorrabraut og annað þegar mótmælendur eru komnir niður að Hlemm til móts við lögreglustöðina.

Í myndbandinu á Snorrabraut sést hvar lögreglumenn eru að handtaka einn mótmælandann. Þegar þeir eru að reyna að sinna sínum skyldum sínum, sem ég tel að heyri undir 2. lið, 15 gr. Aðgerða í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl:

Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.

… þá var ein stelpan, sem sést skýrt á myndbandinu, að reyna að hindra lögregluna við störf sín sem klárlega er lögbrot og heyrir undir 106. grein almennra hegningarlaga.

Stelpan lætur loks undan þegar lögreglumaður ýtir henni frekar harkalega frá sér. Einmitt það augnablik er sett í “slow-motion” til þess örugglega að sýna hversu harkaleg lögreglan er. Ég er ekki frá því að lögreglumennirnir sem sinntu þessu útkalli hafi verið ansi önugir þar sem fólk var þarna öskrandi og æpandi og létu ekki eins og fólk á að gera, hindrandi störf lögreglunnar og alltaf að ögra þeim.

Í 1. lið 15. gr. Aðgerða í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl. stendur:

Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau.

Lögreglan var að halda uppi almannafriði vegna óska íbúa í nálægum húsum (ágiskun). Mótmælendurnir láta sem þetta vind í eyru þjóta og því verður lögreglan að grípa til viðeigndi ráðstafana sem heyra undir 2. lið almannafriðslaganna.

Jón Frímann gerir athugasemd á bloggi Stefáns Friðriks Stefánssonar og segir:

Þarna er um að ræða heimildir fyrir lögregluna að fara eftir, heimildir sem lögreglan fer langt fram yfir og brýtur með látum oft á tíðum. Mér finnist einnig að það eigi að breyta þessum lögum, þau gefa lögreglu alltof miklar heimildir og alltof mikil völd.

Í fyrsta lagi: Það væri hægt að skrifa aðra grein um það hvernig svartir sauðir innan lögreglunnar láta reiðina eða eitthvað annað hlaupa með sig í gönur og það er í rauninni búið að skrifa grein um þetta tiltekna vandamál. En langflestir innan lögreglunnar er sómafólk sem reynir að sinna starfi sínu með besta viðmóti við hinn almenna borgara.
En varðandi það að þessi lög gefi lögreglunni alltof miklar heimildir og alltof mikil völd finnst mér að aðeins ætti að staldra við. Einhvernveginn verður að temja lýðinn sem lætur illa og það er gert með lögum. Í hvaða höndum á valdið að vera? Við búum ekki í anarkistaríki heldur í lýðræðisríki þar sem þrískipting valds er: löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvald.

Lög eru ekki sett útaf engu heldur vegna þess að lögreglan eða sá sem framfylgir lögunum má ekki sitja í súpunni ef að óaldarlýður sér sér fært um að smjúga í gegnum kerfið og komast upp með hvað sem er.

Ég skrifa þetta ekki vegna þess að ég er einhver bitur strákur útí bæ eða af því að pabbi minn er í lögreglunni eða að því að ég er ekki sammála skoðunum þessa fólks. Þvert á móti: ég er þeim meira sammála en ósammála. Ástæðan fyrir því að ég vitna í lögin er sú að ég get ekki staðist það að mótmælendurnir fari að væla um ofvald lögreglunnar. Það er ekki hægt að gagnrýna lögregluna fyrir að framfylgja lögunum.

En það er kannski ástæðan fyrir því að ekki hefur mikið verið skrifað gegn framgöngu lögreglunnar í þessu máli: mótmælendur vita upp á sig sökina.

Kannski er ég blindur á einhver rök gegn máli mínu og vil ég endilega biðja fólk um að gagnrýna skrif mín varðandi þetta það.

En nú ætla ég aðeins að staldra við og vera smá ósamkvæmur sjálfum mér miðað við það sem ég hef skrifað hérna á undan.

Á heimasíðu Saving Iceland ( http://www.savingiceland.org/) stendur skrifað í pósti sem skrifaður var vegna mótmælanna:

“For years, people have petitioned, written to politicians and made legal arguments. Still there are at least eight new aluminum smelters and enlargements threatening us in the near future (see list below). We have to take radical direct action if we are to stop this happening. We have to do whatever we can to save the largest remaining wilderness in Europe.”
Although a massive traffic jam ensued, many car drivers responded sympathetically.


Eins og ég sagði áður, þá er ég ekki dolfallinn náttúruverndasinni og hangi ekki með þessum hópi fólks þannig að mest mun ég vitna í heimasíðu Saving Iceland sem upplýsingasöfnun.

Það sem Saving Iceland hópurinn gerði seinasta laugardag var í samræmi við þeirra aðgerðir. Á heimasíðu þeirra segir:

Saving Iceland var fyrst og fremst stofnað sem hópur sem beitir sér í upplýsingaveitu og beinum aðgerðum. Það þýðir ekki að við gerum lítið úr öðrum passífari formum mótmæla heldur geta hverskonar mótmæli, verkefni eða hlutverk innan baráttunnar átt sér stað í nafni Saving Iceland. Samt sem áður hallast hópurinn að aðgerðum í róttækari kantinum. Þetta aðgreinir okkur frá hópum sem beita sér t.d. sem pólitískir þrýstihópar.

Ástæðan fyrir þessum mótmælum Saving Iceland seinasta laugardag, sem fóru misjafnlega í kramið hjá fólki, er sú að þau eru orðin þreytt á því að ekkert skuli gerast með undirskriftarlistum, bónum til stjórnmálamanna eða lagalegum rökum.

Og það er satt. Fólk grípur til róttækari aðgerða ef ekki er á það hlustað og það er þessi hópur að gera.

Ég ætla ekki að fara hafa þetta miklu lengra í bili en áður en ég sleppi seinustu orðunum lausum þá vil ég spyrja ykkur aðeins:

Er ykkur sama, kæru Hugarar, um framtíð Íslands í stóriðjumálum? Er ykkur sama að íslensk náttúra, sem við erum öll svo stolt af, skuli vera eyðilögð fyrir hagsmuni einhverra stórfyrirtækja útí heimi?

Við eigum ekki að þurfa segja við börnin okkar: “Jájá, svona var þetta hérna í gamla daga, falleg og ósnortin náttúra. Þarna tjölduðum við í kyrrð og friðsæld, langt frá öllum mannabyggðum.”

Leyfum börnunum okkar að njóta þess sem við njótum núna: síðustu svæða í Evrópu sem eru ósnortin af alheimsvæðingu stóriðjunnar.