Nú ætla ég að skrifa um þau atvik sem ég og maðurinn minn lentum í seint í nótt. Ég mun ekki aðeins skrifa um þetta á netið heldur mun ég skrifa um þetta í öll þau blöð sem taka við þessu.

Ég og maðurinn minn fórum út í gærkvöldi til að halda upp á afmælið mitt. Það var drukkið og haft mjög gaman. En kvöldið endaði ekki fallega. Við ákváðum að eyða í sitthvora pizzasneiðina áður en haldið yrði heim. Maðurinn minn var með í höndunum einhver 2 lok sem hann hafði fundið úti á götu. Fyrir mér var þetta bara e-ð rusl, fyrir honum var þetta e-ð til að hlæja að en í ljós kom að þetta voru einhverkonar lok á eldvarnarstúta. Við stóðum og spjölluðum saman inni á pizzastaðnum þegar 2 strákar koma upp að honum og heimta þessi lok. Þar sem þetta var úr járni þá vildi hann ekki afhenda þessi lok af ótta við að þeir myndu nota þau sem barefli. Enda augljóslega ekki í lagi með þessa drengi þar sem þeir virtust mjög æstir. Þarna voru þeir strax farnir að roðna í framan og röddin farin að bresta og þeir sýndu okkur svokölluð lögregluskilríki sem ég gæti persónulega framleitt sjálf á 5 mínútum. Á þeim var hvorki mynd né nafn svo við vildum sjá frekari skilríki en þeir neituðu og heimtuðu að maðurinn minn kæmi með þeim út. Að sjálfsögðu elti ég. Skyndilega ráðast þeir á hann, snúa hann niður og annar þeirra settist ofan á hann handjárnaðan með hnéið beint ofan í hrygginn á honum. Ég sá rautt. Mér var sagt að víkja og mér hrint í burtu. Ég ætlaði ekki undir neinum kringumstæðum að yfirgefa manninn minn svo ég stökk inn í þetta allt og læsti mig öskrandi utan um fótin á manninum mínum. Þá byrjuðu þeir að berja mig líka. Ég man að ég reyndi að bíta einn þeirra af sjálfsbjargarviðleitninni einni saman en þá er ég snúin niður. Vinkona mín stóð og horfði á þetta og hún hringdi á lögreglu því allt þetta ofbeldi hjá þessum mönnum hræddi hana og aðra áhorfendur mikið. Ég heyrði mikið öskrað í kring um okkur, því næst fæ ég stéttina í andlitið og okkur var á endanum hent inn í lögreglubíl þar sem ég fór að rífast yfir þessu. En í þeim bíl sátu 2 ungar lögreglukonur sem hótuðu því að stíja okkur skötuhjúum í sundur ef ég myndi ekki þegja. Þetta var lögreglubíllinn sem vinkona mín hringdi á, mikil hjálp í þeim eða þannig. Þegar upp á stöð var komið var okkur fleygt út úr bílnum eins og dauðum hundum, okkur plantað á bekk fyrir utan yfirheyrsluherbergi og svo var byrjað að rakka okkur niður. Nokkrir þeirra höfðu í hótunum við okkur, aðrir sögðust vera að vinna sína vinnu því við værum hættuleg. Þetta segja þeir við okkur sem stöðvum slagsmál þegar við verðum vitni að slíku. Ég sat grátandi á bekknum, miður mín því það var svo illilega brotið á okkur. Mér fannst við niðurlægð og höfð að engu og ég vissi strax að það er ekkert sem ég get gert við því, því þetta er jú lögreglan og að ég best veit, þá komast þeir upp með allt sem þeim dettur í hug. Varðstjórinn var ekkert nema ruddi. Hann var með hroka og dónaskap við okkur bæði og það fannst mér verst því þetta er jú yfirmaður hjá lögreglunni og maður hefði haldið að þeir hefðu reynsluna og skilning á sínu starfi. En í stað þess að vera undirmönnum sínum fyrirmynd, þá snéri hann upp á úlnliðinn á mér þegar ég tók upp símann minn og reif símann af mér. Og maðurinn var augljóslega í miklu bræðiskasti því hann öskraði að mér eitthvað sem ég heyrði ekki því mér var svo brugðið. Þarna leit ég niður og sá á mér vinstri hendina. Húðin hafði flest af handarbakinu á stórum köflum og ég reyndi að benda þeim á þetta en þeir skeyttu því engu heldur héldu áfram skítkastinu. Loks var okkur sleppt, enda engin ástæða til að halda okkur lengur. Við tókum leigubíl upp á bráðavaktina í Fossvogi og tilkynntum þetta og fólkið á bráðavaktinni var ekki að heyra slíka sögu í fyrsta skipti. Stúlkan í móttökunni sagði þetta gerast allt of oft. Að lögregla sé að sína óbreyttum borgurum ofbeldi. Þetta hræðir mig mjög. Ekki bara vegna þess að ég veit að ekki er hægt að treysta lögreglunni til að bjarga manni frá hættu því yfirleitt hafa þeir ekki fyrir því að mæta á staðinn, heldur líka vegna þess að núna veit ég að hætturnar eru orðnar helmingi verri. Því lögreglan eru glæpamennirnir sem komast upp með þetta. Þetta er fólkið sem við hin getum ekki kært og búist við sanngjörnum endalokum. Þetta er fólkið sem hefur lítið sem ekkert að gera, þau vita að þau komast upp með hlutina og þau láta virkilega til skarar skríða því hver á eiginlega að trúa einhverjum óbreyttum borgara?

Ég vildi skrifa þetta vegna þess að ég vil opna augu almúgans enn frekar fyrir þessu stóra vandamáli sem yfirvöld loka augunum fyrir eða jafnvel hylma yfir. Frásögn okkar er aðeins dropi í hafið af öllum þeim sögum sem maður hefur heyrt af íslenskri lögreglu í gegn um tíðina. Þetta eru ofbeldisfullir ruddar og við vitum ekkert um það hvort þeir séu á einhverjum eiturlyfjum eða ekki. Það er aðeins tímaspursmál áður en þeir fara að nauðga konunum í landinu. Því þeir vita að þeir munu komast upp með það.