Íslendingar eru skrýtin þjóð. Á sama tíma og við veigrum okkur við að nafngreina og birta myndir af dæmdum kynferðisafbrotamönnum, þá vílum við ekki fyrir okkur að nafngreina og birta myndir af fjárglæframönnum sem grunaðir eru um glæpsamlegt athæfi.

Nú er ég til dæmis að horfa til baka á ákveðin dæmi. Í gær var fjallað um það í fjölmiðlum á Íslandi að sjóðsstjóri hjá Kaupþingi sé talinn hafa gerst sekur um fjársvik skv. íslenskum lögum. Strax voru ákveðnir fjölmiðlar farnir að birta nafn sjóðsstjórans og tengingu hans við framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Hlífar.

Ég ætla ekki að dæma um það hér, hvort þeir eru sekir eða ekki, enda hef ég ekki hugmynd um það. Hins vegar er það svo að verði þeir sýknaðir, þá hafa fjölmiðlarnir dæmt þá þegar til lífstíðar, því mannorð þeirra er svert. Þeir munu aldrei bera þess bætur.

Á sama tíma er það svo, að þeir einstaklingar sem dæmdir eru fyrir kynferðisafbrot, virðast verndaðir því aldrei eru birta myndir af þeim nér nöfn í fjölmiðlum. Ég segi fyrir mig, að ég myndi frekar vilja hafa fjárglæframann sem nágranna heldur en kynferðisafbrotamann.

Í dag var umfjöllun í fjölmiðlum um mann sem hafði berað sig fyrir frama þrjár ellefu ára stúlkur í sundlaugunum. Ekki endilega grófasti kynferðisglæpur sem til er, en maðurinn var dæmdur sekur og gert að greiða skaðabætur. Hvergi kom fram hvað maðurinn heitir né mynd af honum. Ég spyr, af hverju ekki. Það er þó búið að dæma hann. Hvað þá andskotinn sem dæmdur var í sumar fyrir einhvern óhuggulegasta kynferðis- og árasarglæp sem maður hefur heyrt um. Hvergi hefur komið fram hvað hann heitir.

Ég vil að fjölmiðlum sé bannað að nafngreina grunaða einstaklinga þar til þeir hafa verið dæmdir, enda verðum við að virða þá staðreynd að einstaklingurinn er saklaus þar til hann er dæmdur sekur. Það eina sem við þurfum að vita á þessari stundu er að sjóðstjóri hjá Kaupþingi sé í gæsluvarðhaldi, ekki hver hann er, það kemur okkur ekki við fyrr en dómur hefur fallið.

Ég vona það að ef þeir verða sýknaðir, þá birti þessir sömu fjölmiðlar sem aðalfrétt sína að þeir hafi verið sýknaðir. Verði þeir hins vegar dæmdir sekir, þá mega fjölmiðlar gera það sem þeir vilja.

Kveðja,
Jazzhop.