Ég var að koma frá Prag í gær, sem er svo sem ekkert merkilegt nema ég lenti í úrtaki í tollinum og eitthvað hnýsts í farangurinn hjá mér. Ég gat svo sem sætt mig við það, þótt ég væri grumpy eftir að hafa flogið í 3 tíma með leiðinlegum íslendingum (Eins og allir vita, gleyma íslendingar öllum mannasiðum um leið og þeir stíga um borð í flugvél). Rakst ekki kellíngarherfan á mína forláta myndavél sem ég hafði keypt fyrir stuttu og tekið með mér út til að mynda þessa fallegu borg og um leið rigndi yfir mig spurningum um hvort ég hefði keypt hana úti, og neitaði ég því, enda heiðarlegur ungur maður. Þá byrjaði hún að röfla um hvort ég hefði kvittanir, eins og maður dragi kvittanir með sér út um allan heim. Ég sagði eins og er, að ég hefði keypt vélina fyrir nokkrum vikum og hefði auk þess verið að veifa henni þarna um á leiðinni út, gaurarnir í myndavéladeildinni í fríhöfninni gætu örugglega staðfest það. Eitthvað nöldraði hún nú meira og sendi mig inn til einhvers boss þarna, hann var nú ekkert nema kurteisin, og gerði sér lítið fyrir og fletti upp tollskýrslunni þar sem innflutningurinn kom fram og málið var afgreitt.
Nú spyr ég, kann fólk enga mannasiði þarna? Allt þetta þref tók amk hálftíma, sem er svo sem fyrirgefanlegt, en eitt “afsakaðu ónæðið, og velkominn heim” hefði bætt það upp. Það versta er að það virðist vera öfug sönnunarbyrði gildandi þarna, farið var með mann eins og stórhættulegan myndavélasmyglara og ég látinn sitja eins og einhver sakamaður meðan sakleysi mitt er sannað.
Mér finnst nú að maður eigi að fá að njóta vafans, þangað til annað kemur fram. Nú er þetta ekkert mál við önnur brot, ég hef t.d. verið stoppaður af lögreglu fyrir að aka rösklega, og það var minna mál, þótt afbrotið væri töluvert alvarlega. Ég ætti kannski að senda þeim og mogganum þetta bréf?
Ferðakveðjur,
J.