Hingað til lands kom um helgina fulltrúi Palestínuaraba – sem
peace4all og stríðsglæpamaðurinn Ariel Sharon segja að séu vondir
og illgjarnir við Gyðinga á meðan Gyðingar reyna að halda friðinn
– Dr. Mustafa Barghouti, í boði Samfylkingarinnar.

Í máli Dr. Barghouti, sem hefur fengið m.a. viðurkenningu (að mig
minnir) frá WHO, kom fram allt önnur mynd en sú sem birtist í
flestum Vestrænum fjölmiðlum:

Palestínumenn eru fangar í eigin landi í dag sem þýðir ekki bara
það að þeir komast ekki útaf Vesturbakkanum eða Gaza heldur
komast þeir ekki einusinni útúr sínum heimabæ, þar sem flestallar
byggðir á Vesturbakkanum og Gaza eru umkringdar af Ísraelskum
hermönnum og/eða lögreglumönnum sem standa vörð við stoppistöðvar
og varna Palestínumönnum útgöngu jafnvel þó þeir þurfi að komast
á sjúkrahús. Dæmi eru um að konur hafi þurft að ala börn í bílum
sem biðu við þessar stoppistöðvar og var samt ekki hleypt í gegn,
a.m.k. tvær konur hafa dáið af barnsförum við þessar aðstæður,
auk þess sem fólk sem hefur fengið hjartaáfall kemst ekki undir
læknishendur. Tala Ísraelsmanna sem hefur fallið fyrir vopnum
síðasta ár er eitthvað í kringum 200 og er það auðvitað mjög
miður. En á sama tíma hafa um 840 Palestínumenn týnt lífi, þar af
um 60% á heimili eða vinnustað og um 30% 18 ára og yngri! Dr.
Barghouti nefndi dæmi um börn allt niður í 3ja mánaða (sýndi auk
þess myndir af þessum börnum) sem höfðu fallið fyrir byssukúlum
og sprengjuvörpum oft í árásum Ísraelska hersins á grunaða
hryðjuverkamenn. Í þessum árásum gerast þeir rannsóknarmenn,
ákærendur, dómarar og böðlar og láta sig litlu skipta saklausa
borgara sem annað hvort týna lífi eða örkumlast af völdum árása á
meinta hryðjuverkamenn.

Auðvitað er ég ekki að segja að Palestínskir hryðjuverkamenn hafi
rétt eða réttlætingu á því að drepa saklausa Gyðinga og ég
fordæmi algerlega aðgerðir samtaka á borð við Hamas. Þannig
aðgerðir hjálpa engum, síst af öllum Palestínumönnum.

Ég fordæmi líka aðgerðir Ísraelskra stjórnvalda gegn Palestínskum
almenningi. Einhverjir hafa bent á þann mikla fjölda hryðjuverka
sem öfgasamtök Palestínumanna hafa framið og talið það merki um
almenna illsku Palestínumanna, en ég hef áður bent á að
Ísraelsmenn þurfi ekki á hryðjuverkamönnum að halda; þeir hafa
stjórnvöld og herinn til að plaffa niður Palestínumenn sem
flestir eru óvopnaðir eða aðeins vopnaðir steinum.