Í eldgamladaga þegar Ísland varð fullvalda ríki undir danskri krúnu var Íslendingum bannað að mynda sér sjálfstæða utanríkisstefnu. Skv. samkomulaginu sem náðist um fullveldið Ísland ætti Ísland að mynda sér ævarandi hlutleysi og hafa engan gunnfána. Við fengum svo sjálfsstæða utanríkisstefnu þegar við sögðum okkur úr konungsbandalaginu við Dani 1944. Það sjálfstæði okkar stóð nú ekki ýkja lengi því skömmu síðar vorum við aftur búin að afsala utanríkisstefnunni okkar, í þetta skipti til NATO, sem enn heldur um taumana og segir okkur hverja eigi að hata og hverja eigi að elska. Ég minnist þess bara fyrir skemmstu þegar Geir H. Haarde mótaði ákvörðun sína um varnarsamninginn við Bandaríkjamenn (þann nýrri) af því að honum þótti meiri tíðindi fyrir Bandaríkjamenn ef samningnum hefði verið hafnað. Sum sé ákvörðun Íslendinga var tekin með hagsmuni Bandaríkjamanna í húfi.

Það var samt tilgangur með þessu öllu saman. Við skrifuðum undir Gamla sáttmálan til að vernda okkur gegn því að verslun við Norðmenn legðist niður og við skrifuðum undir Nató-sáttmálan til að vernda okkur gegn kommúnistum. (Þó svo að Norðmenn voru svolítið tregir að standa við sín loforð, þá hefur enginn brjálaður kommúnisti með AK-47 látið sjá sig síðan við gengum í NATÓ.)

Stuðningur við Íraksstríðið, tregða til að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt Vestur-Sahara og heimastjórn Palestínu og aðrar umdeildar utanríkisákvarðanir virðast bera keim af því að við Íslendingar séum bara leppríki vestrænna stórvelda í utanríkismálum (reyndar líka innanríkismálum en ég fer ekki út í það hér). Ég minnist líka það þegar Ólafur Ragnar Grímsson fór af sínu eigin frumkvæði í óþökk m.a. forsætisráðherra til Kína og Indlands í þeim tilgangi að opna markaði. En opin markaður í þessum löndum er ekki eitthvað sem ESB og NATÓ vilja. Og því þarf maður að spyrja sig hvort þessir markaðir væru ekki löngu opnir okkur Íslendingum ef við værum í rauninni með sjálfstæða utanríkisstefnu.

Nú. Nýjasta útspil utanríkisstefnu okkar er að fá erlenda heri í NATÓ til að „verja“ okkur á friðartímum og gæta eftirlits. Það sem við gefum í staðin er aðbúnaður og leyfi fyrir heræfingum á Íslandi í boði skattgreiðenda. Og rökin fyrir þessu eru þau að það getur reynst gott að hafa eftirlit með svæðinu í kring um landið bæði varðandi ólöglegar ferðir og veiðar á þessu svæði svo og slysa og mengunarhættu. Og það er alveg rétt, en það þarf ekki að segja manni að eina leiðin til að hafa eftirlit með þessu svæði sé í gegnum einhvern her. Norðmenn, Danir (Grænlendingar og Færeyingar), Bretar og Írar hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta á ýmsum hafsvæðum í kringum landið. Og jafnvel Rússar gætu þurft að halda siglingaleið Norðan við landið opinni svo þar væri alveg hægt að gera samkomulag um sameiginlegt eftirlit án þess að nokkur her kæmi þar nærri og eina skuldbindingin sem við þyrftum að gera væri að taka þátt og efla Landhelgisgæsluna í kjölfarið, sem er hvort eð er löngu tímabært.

Það sem að ég held að sé um að vera sé að Geir, félagar hans í Sjálfstæðisflokknum og skuggarnir hans í Framsóknarflokknum séu enn hræddir við að taka sjálfstæða utanríkisstefnu. Þeim er í raun skít sama um hagsmuni okkar Íslendinga svo lengi sem þeir geta falið sig bak við Kanann eða sleikjurnar hans í NATÓ.